Saga Reykjavíkur hefst þegar Ingólfur Arnarson settist að í Reykjavík þegar hann kom frá Noregi í kringum árið 874 ásamt öðrum og nam land. Þéttbýlismyndun varð ekki í Reykjavík fyrr en undir lok nítjándu aldar en þá hófst einnig iðnvæðing Íslands. Í byrjun tuttugustu aldarinnar óx Reykjavík hratt og þar voru mikilvægustu stofnanir landsins. Reykjavík var höfuðborg Íslands í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þar var Alþingi þegar það var endurreist sem ráðgefandi þing árið 1845 og eftir að heimastjórn var komið á 1904 var þar einnig Stjórnarráðið.

Fógetahúsið á Aðalstræti 10. byggt 1762 er elsta uppistandandi húsið í Reykjavík.

Landnám

breyta

Saga Reykjavíkur hefst með landnámi Íslands sem fyrr segir þegar Ingólfur Arnarson kom frá Noregi með konu sinni Hallveigu Fróðadóttur, syni sínum Þorsteini og tveimur þrælum Vífli og Karli. Þrælunum veitti Ingólfur frelsi fyrir að finna öndvegissúlurnar sem hann varpaði frá borði og settist Vífill að á Vífilsstöðum skammt frá. Með tíð og tíma byggðust fleiri bæir umhverfis og má þar helst nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn.

Miðaldir

breyta

Á miðöldum er fátt eitt vitað um atburði í Reykjavík. Víkurkirkja var byggð við Aðalstræti á ofanverðri þrettándu öld og árið 1226 hófst byggð í Viðey þegar Þorvaldur Gissurarson í Hruna og Snorri Sturluson í Reykholti stofnuðu þar Viðeyjarklaustur af Ágústínusarreglu.

Eftir miðaldirnar

breyta
 
Miðbær Reykjavíkur árið 1836.

Á 17. öld keypti Kristján 4. konungur Vík. Fram að 18. öld lágu býli af ýmsum stærðum á víð og dreif um svæðið þar sem borgin stendur nú. Á 6. áratug 18. aldar var gerð tilraun til að reka ullariðnað í Reykjavík að frumkvæði Skúla Magnússonar fógeta. Þetta fyrirtæki sem var kallað Innréttingarnar markaði þáttaskil í þróun svæðisins, sem í kjölfarið fór að taka á sig einhverja þorpsmynd. Danska konungsvaldið studdi þessar tilraunir til uppbyggingar með því að gefa jarðir sem það átti í Reykjavík og Örfirisey. Sextán hús voru byggð í Reykjavík vegna Innréttinganna, sem hefur verið mikil fjölgun á þeim tíma, merki um tvö þeirra má enn sjá. Þá var byggt steinhús á árunum 1761-71, sem varð fyrsta fangelsi landsins og gekk undir nafninu Múrinn, en er nú Stjórnarráð Íslands og hýsir forsætisráðuneytið.

Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786 ásamt fimm öðrum stöðum í kjölfar afnáms einokunarverslunar í landinu. Á nítjándu öld mynduðust þéttar þyrpingar lítilla húsa eða kofa sjómanna í bænum. Alþingi var endurreist í Reykjavík árið 1845. Ári síðar var Menntaskólinn í Reykjavík fluttur frá Bessastöðum í útjaðar bæjarins. Barnaskóli Reykjavíkur tók til starfa árið 1862. Árið 1874 var Kvennaskólinn í Reykjavík stofnaður af Þóru og Páli Melsteð. Árið 1881 var Alþingishúsið fullbúið. Stýrimannaskólinn tók til starfa 1891 eftir að þilskip voru komin til landsins. Árið 1893 var Skautafélag Reykjavíkur stofnað. Árið 1898 var Barnaskóli Reykjavíkur fluttur í hina nýsmíðuðu byggingu Miðbæjarskólann.

Á 20. öldinni

breyta

Árið 1904 fengu Íslendingar heimastjórn og Hannes Hafstein gerðist fyrsti ráðherra Íslands. Embætti borgarstjóra Reykjavíkur var stofnað 1908 og fyrsti borgarstjórinn var Páll Einarsson. Í nóvember 1906 kom upp taugaveikisfaraldur í Skuggahverfinu.[1]

Í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík 1908 kusu konur í fyrsta sinn og buðu fram sérstök kvennaframboð í Reykjavík 1908-1916. Þær hlutu mjög góða kosningu 1908 og 1910 en þaðan af dalaði fylgi kvennanna. Gasstöð Reykjavíkur tók til starfa í júní 1910. Háskóli Íslands var stofnaður í Reykjavík þann 17. júní 1911. Á sama degi var Iðnsýningin 1911 haldin í Miðbæjarskólanum. Reykjavíkurhöfn, sem var byggð í áföngum á árunum 1913-17, bætti mjög skipaaðstöðu. Þaðanaf gátu hafskip lagst að bryggju en áður fyrr þurfti að ferja fólk og varning á milli smærri bryggja og hafskipa sem lágu úti fyrir. Árið 1915 brunnu tylft húsa í miðborg Reykjavíkur, í brunanum mikla. Í brunanum fórust tveir menn og Hótel Reykjavík brann til kaldra kola. Elliðaárvirkjun var byggð 1921 til þess að sjá ört stækkandi borginni fyrir rafmagni.

Veturinn 1917-1918, nefndur Frostaveturinn mikli var sá kaldasti sem mælst hefur, þá lá hafís í Reykjavíkurhöfn og hitastigið fór niður í -24,5 °C. Í október 1918 barst spænska veikin, sem geysaði víðar í heiminum, til Íslands með skipum frá Kaupmannahöfn og er talið að um þriðjungur bæjarbúa hafi veikst á örfáum vikum. Elliðaárvirkjun var byggð 1921 til þess að sjá ört stækkandi borginni fyrir rafmagni. Í Reykjavík hafa verið veðurathugunarstöðvar síðan 1920.

Heimskreppan mikla hafði slæm áhrif um allan heim. Á Íslandi náðu þau hámarki í Gúttóslagnum árið 1932 þegar þunnskipuð lögregla þurfti að berjast við verkamenn fyrir utan Góðtemplarahús Reykjavíkur, þegar bæjarstjórnarfundur var haldin þar þar sem lækka átti laun í atvinnubótavinnu á vegum bæjarins. Einu sinni hafði áður skorist alvarlega í odda á milli lögreglunnar og annarra hópa, en það var í Hvíta stríðinu, svokallaða rúmum áratugi fyrr. Í mars 1937 var Sundhöll Reykjavíkur vígð og var það fyrsta sundlaug bæjarins. Þann 10. maí 1940 gengur breskir hermenn á land í Reykjavík og hernámu Ísland. Á meðan veru þeirra stóð hófu þeir byggingu varanlegs flugvallar í Reykjavík. Bandaríkjamenn tóku við af Bretunum rúmu ári seinna og fóru ekki fyrr en að stríðinu loknu 8. apríl 1947.

 
Séð niður Frakkastíg í miðbæ Reykjavíkur árið 1973.

Auður Auðuns varð fyrst kvenna borgarstjóri Reykjavíkur árið 1959. Hlíðarnar og Háaleiti og Bústaðir byggðust upp um miðbik 20. aldarinnar.[2]

Þann 18. apríl 2007 kom upp bruni í Austurstræti sem breiddist um húsin á horninu við Lækjargötu.

Tilvísanir

breyta
  1. Vatnsveitan 100 ára
  2. „Kvistar fleiri en komið verður tölu á“. 2. janúar 2006.

Tenglar

breyta