Bruninn mikli í Reykjavík 1915

Bruninn mikli í Reykjavík 1915 var stórbruni sem varð í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt 25. apríl 1915. Hótel Reykjavík og ellefu önnur hús við Austurstræti, Pósthússtræti og Hafnarstræti brunnu. Tveir menn fórust.

Bruninn mikli.

Árið 1915 bjuggu um 15 þúsund manns í Reykjavík.[1] Stórstígar framfarir höfðu orðið í Reykjavík á Heimastjórnartímabilinu, vélvæðing fiskiskipaflotans hófst.[2] Eftir aldamótin 1900 stækkaði Reykjavíkurbær hratt. Vatnsveitu Reykjavíkur var komið á laggirnar 1909, Gasstöð Reykjavíkur var tilbúin 1910 og smíði Reykjavíkurhafnar stóð yfir. Íslenskar konur fengu kosningarétt til Alþingis árið 1915. Í Evrópu geysaði fyrri heimsstyrjöldin.

Atburðarrás

breyta
 
Bruninn séður eftir Hafnarstræti.

Laugardaginn 24. apríl 1915 var haldin brúðkaupsveisla Jósefínu Zoéga og Hr. Hobbs fiskkaupmanns á Hótel Reykjavík, sem var timburhús, tvær hæðir og ris. Eigandi hótelsins var Margrét Zoéga, systir Helga, föður Jósefínu.[3] Slökkvistöðin var þá við Tjörnina þar sem Tjarnarbíó er í dag.

Samkvæmt frásögn Helga fóru flestir gestir úr veislunni um klukkan tvö um nóttina og brúðhjónin um hálf þrjú. Þá voru enn eftir í húsinu Margrét, Helgi, tvö barnabörn Margrétar, Guðjón Jónsson, dyravörður, „Englendingur nokkur er þar bjó og nokkrar þjónustustúlkur.“[3] Þá vildi svo til að Eggert Briem bóndi í Viðey sem bjó í Ingólfshvoli á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis fylgdi kvöldgestum sínum Guðjóni Sigurðssyni úrsmið, Ólafi Björnssyni ritstjóra og Hannesi Hafstein út og sá hvar kviknað var í á annarri hæð Hótel Reykjavíkur. „Hljóp Eggert þegar af stað sem fætur toguðu og kallaði um leið: „Eldur! Eldur!".“[3] Hann hljóp meðal annars annars fram hjá Þórði Geirssyni næturverði.

Eggert hljóp inn í hótelið og kallaði yfir mannskapinn sem enn var þar að það væri kviknað í. Honum var ekki almennilega trúað og fylgdu flestir í humátt á eftir honum upp að athuga herbergin. Fyrst var herbergi Margrétar, nr. 29 opnað og var þar allt með felldu. Því næst reyndu þau að opna herbergi 28. en það var læst. Guðjón dyravörður kom þá með lykil og þegar hurðin var opnuð sáu þau strax að herbergið var alelda og magnaðist eldurinn mjög við að hurðin var opnuð. Þá ætlaði Margrét að sækja muni inn í herbergi sitt en Guðjón varnaði henni það og hlupu þau öll út. Þá kváðu við sprengingar og barst eldurinn hratt út. Vinnustúlkur komust út úr kjallaranum í gegnum glugga. Guðjón dyravörður þurfti að brjótast inn í kjallarann til þess að skrúfa fyrir gas.

Eggert hljóp svo að Alþingishúsinu og braut þar brunaboða. Þórður hafði þá þegar gert aðvart og höfðu því tvö boð borist til slökkvistöðvarinnar. Í slökkvistöðinni voru Gísli Halldórsson varðmaður ásamt öðrum manni. Þegar Eggert kom að slökkvistöðinni voru þeir að leggja af stað með slönguvagn. Þá fór Gísli að vekja Guðmund Olsen kaupmann og slökkviliðsstjóra og Pétur Ingimundarson varaslökkviliðsstjóra. Eggert og Kolbeinn Þorsteinsson, trésmíðameistari, sem var í slökkviliðinu, tóku við slönguvagninum. Þá var klukkan rétt rúmlega þrjú, Guðmundur segir að hringt hafi verið til sín klukkan 3:15 og hann hafi verið mættur 8 mínútum síðar.

Heimildir

breyta
  • Guðmundur Karlsson (1963 (endurútg. 1976)). Í björtu báli. Ægisútgáfan.

Tilvísanir

breyta
  1. Hagstofa Íslands. „Mannfjöldi í einstökum byggðakjörnum og strjálbýli eftir landsvæðum ár hvert 1889-1990“. Sótt 7. ágúst 2011.
  2. Helgi Skúli Kjartansson. „Heimastjórnartíminn“.
  3. 3,0 3,1 3,2 Lesbók Morgunblaðsins (26. febrúar 1950). „Bruninn mikli 1915“.

Tenglar

breyta
   Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.