Stjórnarráð Íslands

æðsta stig framkvæmdarvalds á Íslandi

Stjórnarráð Íslands er ásamt forseta æðsta stig framkvæmdarvalds á Íslandi. Stjórnarráðið samanstendur af tólf ráðuneytum og tólf ráðherrum þess sem saman mynda ríkisstjórn Íslands. Ríkisstjórn ákvarðar verkaskiptingu framkvæmdavaldsins milli ráðuneyta innan ákveðins ramma laga sem sett eru af Alþingi. Víðtækar breytingar hafa orðið á samsetningu stjórnarráðsins frá því það tók við störfum árið 1904 en þær síðustu voru gerðar í byrjun árs 2022 og eru ráðuneyti í dag tólk talsins. Stjórnarráðshúsið er staðsett við Lækjargötu, andspænis Lækjartorgi og eru ríkisstjórnarfundir haldnir þar en einnig hýsir það forsætisráðuneytið.

Stjórnarráð Íslands
Fullveldinu fagnað árið 1918.

Miðað er við að stofnun Stjórnarráðs Íslands hafi verið 1. febrúar 1904, daginn sem Hannes Hafstein tók við embætti ráðherra Íslands. Þann 1. febrúar 2004 var þess minnst með breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands.[1] Frá 1904 til 1917 var Stjórnarráðinu skipt í þrjár skrifstofur sem hver hafði sína verkaskiptingu. Sú fyrsta sá um dóms-, skóla- og kirkjumál, önnur um atvinnumál, samgöngumál og póstmál og sú þriðja fjármál. Ráðherra Íslands var æðsti embættismaður, en hver skrifstofa hafði skrifstofustjóra og landritari var yfirmaður þeirra.[2]

Árið 1917 varð til embætti forsætisráðherra Íslands þó svo að ekki væri enn búið að stofna forsætisráðuneyti Íslands og ráðherrar urðu þrír talsins. Þremur árum seinna var bætt við einum ráðherra. Frá árinu 1927 voru fastir starfsmenn ráðnir til skrifstofu forsætisráðherra og því eiginlegt ráðuneyti orðið til með óformlegum hætti. Fyrsta lagasetningin um Stjórnaráð Íslands varð ekki fyrr en árið 1969 en fram að því hafði íslensk stjórnsýsla verið heldur laus í reipunum.[2]

Ráðuneyti

breyta

Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins á sínu málefnasviði. Samkvæmt 15. grein stjórnarskrár Íslands er fjöldi ráðuneyta og heiti þeirra ákveðinn með forsetaúrskurði samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Tillaga forsætisráðherra skal þó vera lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu og vera afgreidd áður en forsetaúrskurður er gefinn út. [3]

Ráðherrar

breyta

Forsætisráðherra er skipaður af forseta Íslands og skipar hann aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Einn ráðherra getur farið með fleiri en eitt ráðuneyti á hverjum tíma og fleiri en einn ráðherra getur starfað í sama ráðuneyti. Á fundum ríkisstjórnar sem stýrðir eru af forsætisráðherra ræða ráðherrar væntanleg lagafrumvörp og mikilvægar reglugerðir sem þeir hyggjast leggja fram.[3]

Núverandi ráðherrar eru:

Tilvísanir

breyta
  1. Ný reglugerð um Stjórnarráð Íslands
  2. 2,0 2,1 „Forsætisráðuneyti Íslands - Sögulegt yfirlit“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júlí 2012. Sótt 9. ágúst 2007.
  3. 3,0 3,1 Lög um Stjórnarráð Íslands 2011 nr. 115, Skoðað 6. janúar 2015.

Tenglar

breyta