Snorri Sturluson

íslenskur sagnaritari, skáld og stjórnmálamaður (1179-1241)

Snorri Sturluson (117923. september 1241) var íslenskur sagnaritari, skáld og stjórnmálamaður. Hann var mikilvirkur fræðimaður og meðal annars höfundur Snorra-Eddu. Hann var einnig höfundur Heimskringlu er segir sögu norsku konunganna og hefst þar á hinni goðsagnakenndu Ynglinga sögu og rekur síðan sögu konunganna fram til samtíma síns. Einnig er talið líklegt að hann sé höfundur Egils sögu Skallagrímssonar. Snorri bjó fyrst á Borg á Mýrum en lengst af í Reykholti í Borgarfirði.

Málverk Hauks Stefánssonar frá 1930 af Snorra.

Uppruni

breyta

Snorri var yngsti sonur Sturlu Þórðarsonar goða í Hvammi í Dölum og síðari konu hans Guðnýjar Böðvarsdóttur. Albræður hans voru þeir Þórður og Sighvatur og hann átti líka tvær alsystur og fjölda hálfsystkina. Þegar Snorri var þriggja ára bauð Jón Loftsson í Odda, sonarsonur Sæmundar fróða, honum fóstur eftir að hafa verið fenginn til að skera úr erfðadeilu sem Hvamm-Sturla átti í og ólst Snorri því upp á því mikla fræðasetri sem Oddi var á þeim tíma og hlaut þar menntun sína.

Auðsöfnun og völd

breyta

Jón, fóstri Snorra, dó þegar Snorri var 18 ára en hann varð samt áfram í Odda. Sæmundur sonur Jóns og Þórður bróðir Snorra komu því til leiðar nokkru síðar að Snorri giftist Herdísi, dóttur Bersa auðga á Borg á Mýrum og fékk hann með henni mikið fé í heimanmund og goðorð föður hennar þegar hann lést árið 1202. Þau bjuggu fyrst í Odda, frá 1202 á Borg á Mýrum en árið 1206 flutti Snorri í Reykholt en Herdís varð eftir á Borg.

Þegar Snorri komst yfir Reykholt jókst auður hans og áhrif og ekki síður þegar Þórður föðurbróðir hans lét honum eftir hálft goðorð sitt sem hann átti í Borgarfirði, og fleiri goðorð eignaðist hann að fullu eða hluta. Gerðist hann þá höfðingi mikill, því að eigi skorti fé, segir Sturla Þórðarson bróðursonur hans í Íslendinga sögu. Hann var lögsögumaður tvisvar, 1215-1218 og 1222-1231.

Sturlungaöld

breyta
 
Snorri Sturluson séður með augum listamannsins Christian Krogh. Myndin birtist í útgáfu af Heimskringlu frá 1899.

Sumarið 1218 sigldi Snorri frá Íslandi til Noregs. Skúli jarl Bárðarson var þá valdamesti maður í Noregi, enda var Hákon konungur aðeins 14 ára. Snorri dvaldi hjá Skúla jarli um veturinn og urðu þeir miklir vinir. Var Snorri gerður að hirðmanni konungs og naut mikillar hylli. Einnig heimsótti Snorri Eskil Magnússon og konu hans Kristínu Njálsdóttur í Skara um sumarið 1219. Þau voru bæði skyld konungsættinni og gáfu Snorra góða sýn inn í sögu Svíþjóðar. Þegar Snorri fór heim 1220 gaf Skúli jarl honum skip og margar aðrar gjafir. Höfðu þeir Skúli og Hákon konungur þá farið fram á að Snorri leitaðist við að koma Íslandi undir vald Noregskonungs.

Heimkoma Snorra er vanalega talin marka upphaf Sturlungaaldar en þó virðist hann ekki hafa gert ýkja margt næstu árin til að uppfylla óskir konungsins og jarlsins. Sennilega hefur mikið af starfsorku hans árin eftir heimkomuna farið í að skrifa stórvirkin sem einkum hafa haldið nafni hans á lofti, Eddu og Heimskringlu. Hann var enginn ófriðarmaður þótt áhrifa hans gætti víða á bak við tjöldin í róstum þessa tímabils.

Sturla Sighvatsson, bróðursonur hans var aftur á móti orðinn fyrirferðarmikill, ekki síst eftir heimkomu sína úr suðurgöngu árið 1235, þar sem hann kom við í Noregi og hafði þar gerst lendur maður Hákonar konungs og tekið að sér að koma Íslandi undir hann, enda þótti konungi Snorra lítið hafa orðið ágengt. Sturla hrakti Snorra frá Reykholti 1236 og árið eftir, þegar Snorri hafði yfirgefið Þorleif Þórðarson frænda sinn rétt fyrir Bæjarbardaga, sigldi hann til Noregs.

Þar höfðu þó aðstæður breyst því Skúli jarl og Hákon konungur voru orðnir ósáttir. Snorri var í Noregi tvo vetur en 1239, eftir að frést hafði af óförum Sturlunga í Örlygsstaðabardaga, vildi Snorri snúa heim en konungur bannaði það. Út vil eg, sagði Snorri, hafði orð konungs að engu og sneri heim.

Stuttu eftir heimför Snorra gerði Skúli jarl misheppnaða uppreisn gegn Hákoni konungi, sem lauk með því að Skúli var veginn. Konungur taldi Snorra landráðamann við sig og fékk Gissur Þorvaldsson það hlutverk að senda Snorra út til Noregs eða drepa hann ella. Sumarið 1241 dó Hallveig kona Snorra og upphófust þá deilur um arf milli Snorra og sona Hallveigar, Klængs og Orms, sem voru jafnframt bróðursynir Gissurar. Klængur og Gissur fóru að Snorra í Reykholti og lét Gissur menn sína vega hann 23. september 1241. Var það Árni beiskur sem hjó Snorra banahöggið.

Stytta af Snorra Sturlusyni eftir norska myndhöggvarann Gustav Vigeland var reist við Reykholtsskóla árið 1947 og er hún afsteypa af styttu sem er í Bergen.

Fjölskylda

breyta

Snorri var tvíkvæntur. Fyrri kona hans (g. 1199) var Herdís Bersadóttir (d. 1233), en eins og áður segir er talið að hún hafi orðið eftir á Borg þegar Snorri fór í Reykholt og skildu þau síðar. Börn þeirra voru Hallbera, sem fyrst giftist Árna óreiðu Magnússyni og síðar Kolbeini unga og skildi við báða menn sína, og Jón murti (eða murtur) Snorrason, sem þótti efnilegur en dó í Noregi 21. janúar 1231 af áverka sem hann fékk í drykkjuróstum.

Seinni kona Snorra var Hallveig Ormsdóttir (um 1199 - 25. júlí 1241). Faðir hennar, Ormur Jónsson Breiðbælingur, var goðorðsmaður á Breiðabólstað í Fljótshlíð og sonur Jóns Loftssonar fóstra Snorra. Hún var ekkja er þau Snorri gerðu með sér helmingafélag 1224 og átti tvo unga syni en börn þeirra Snorra dóu öll ung.

Snorri átti einnig nokkur börn með frillum sínum. Þar á meðal voru Órækja Snorrason, Ingibjörg fyrri kona Gissurar Þorvaldssonar og Þórdís, seinni kona Þorvaldar Snorrasonar í Vatnsfirði.

Snorri var sagnfræðingur, skrásetjari goðsagna, rithöfundur og skáld. Ritverk hans eru:

  • Heimskringla er safn konungasagna og er þar fjallað um konunga Noregs frá Hálfdani svarta (um 850) fram til Sverris konungs, sem var við völd á seinustu áratugum 12. aldar. Heimskringla er helsta heimildin um sögu Noregs á þessum öldum og hefur haft mikil áhrif á þjóðarímynd Norðmanna. Talið er að Snorri hafi byrjað á verkinu þegar hann kom heim frá Noregi árið 1220.
  • Snorra-Edda er handbók eða kennslubók í skáldskaparlist og þar er fjallað um norræna goðafræði og goðsagnir og skiptist í Gylfaginningu, Skáldskaparmál og Háttatal. Í upphafi verksins er fjallað um sköpun heimsins og rætur ásatrúar.
  • Ólafs saga helga hin sérstaka er ævisaga Ólafs konungs helga Haraldssonar sem dó 1030.
  • Hugsanlega Egils saga. Þótt engar beinar sannanir séu um að Snorri sé höfundur Egils sögu Skallagrímssonar er margt talið benda til þess.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
 
Wikisource
Á Wikiheimild er að finna verk eftir eða um:

Blaða og tímaritagreinar

breyta