Víkurkirkja (Reykjavík)

Víkurkirkja var kirkja í Reykjavík, líklega frá upphafi kristni á Íslandi þar til Dómkirkjan í Reykjavík var vígð 1796. Elstu heimildir sem nefna kirkjuna eru kirknatal Páls Jónssonar frá um 1200 og elsti máldagi hennar er frá 1379. Kirkjan var torfkirkja sem stóð í Kvosinni á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis í miðjum kirkjugarðinum gegnt Víkurbænum.

Víkurkirkja var öldum saman sóknarkirkja Reykvíkinga. Árið 1785 var ákveðið að reisa nýja dómkirkju í Reykjavík eftir að Suðurlandsskjálfti 1784 hafði valdið skemmdum á Skálholtskirkju. Upphaflega stóð til að byggja nýju kirkjuna utanum þá gömlu, en þegar farið var að grafa í garðinn komu í ljós grafir fólks sem hafði látist úr bólusótt. Jón Sveinsson landlæknir lagðist þá mjög gegn því að garðinum yrði frekar raskað og dómkirkjunni var fundinn staður austar og nær Tjörninni. Nýja kirkjan var vígð 1796 en gamli kirkjugarðurinn var notaður áfram þar til Suðurgötukirkjugarður var tekinn í notkun 1839.

Árið 1883 var fékk Schierbeck landlæknir kirkjugarðinum breytt í skrúðgarð og hóf þar trjárækt fyrstur manna í Reykjavík. Garðurinn hefur nokkrum sinnum verið endurskipulagður og hann er nú nær allur hellulagður. Þar stendur stytta af Skúla Magnússyni eftir Guðmund frá Miðdal sem Verslunarmannafélag Reykjavíkur gaf borginni 1954.

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  • Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2005). „Húsakönnun Aðalstræti, Vallarstræti, Thorvaldsensstræti, Kirkjustræti“ (PDF). Minjasafn Reykjavíkur.