Bjarni Halldórsson á Þingeyrum

Bjarni Halldórsson (1703 (?) – 1773) var sýslumaður í Húnavatnssýslu. Bjarni bjó fyrst í Víðidalstungu (nú í Vestur-Húnavatnssýslu) en seinna, og lengst af, á Þingeyrum (nú í Austur-Húnavatnssýslu), sem hann er gjarnan kenndur við. Heimildum ber ekki saman um fæðingarár Bjarna, en ættfræðivefurinn Íslendingabók segir hann fæddan 1703.

Jón Espólín lýsti útliti Bjarna þannig:

Bjarni Halldórsson ... var audugr ok ríkilátr, ok stórtækr í athöfnum, vel að sér í lagaviti, ok héradsríkr mjök, umsýslumadr mikill, drjúglyndr, hár medalmadr á vöxt, stinnvaxinn, en er hann fitnadi vard hann ákafliga digr; smáeygr var hann, snar ok fagreygr, nefit stórt ok lidr á, bjúgt ok mjótt framan, dökkr á hár ok heldr svipmikill, lágrómadr nokkut ok digrrómadr, hófsmadr vid drykk, en kræsinn mjök í matnadi, ok kalladr nokkut fégjarn.
 

Sagt var að það væri „eigi kotunga færi“ að verjast ágengni hans.[2]

Áar, mágar og niðjar

breyta

Bjarni var sonur Halldórs Árnasonar, prests á Húsafelli (1672-1736) og Halldóru Illugadóttur konu hans (1678-1751). Hann var kvæntur Hólmfríði Pálsdóttur Vídalín (1697-1736), dóttur Páls lögmanns Vídalín (1667-1727) og Þorbjargar Magnúsdóttur konu hans (1667)-1737) og eru niðjar þeirra, sem eru margir, því af Vídalínsætt. Bjarni var elstur sjö systkina; hin voru: Sigvaldi (1706-1756), Ingibjörg (1706), Illugi (1711-1770), Þorgerður (1712), Guðmundur (1715(?)-1784) og Sigurður (1715(?)).

Bjarna og Hólmfríði varð átta barna auðið og komust fimm þeirra á fullorðinsár:

1. Páll Vídalín (1727 - 1760), stúdent. Lærði í Kaupmannahöfn og Leipzig – „hann tók vanstyrk mikin í skapsmunum“ og sagt var að hann hefði hengt sig í hálsklút sínum.

2. Ástríður (1729 - 1802) var „fastræk og undarleg í skapi, stórlynd og þó kaldlynd.“ Hún gat barn við ættlitlum manni sem hét Erlendur Sigurðsson, og sárnaði Bjarna föður hennar það. Gifti hann hana Halldóri sýslumanni Jakobssyni „er unni henni allmikið þó hún væri honum ætíð ill“ og bjuggu þau að Felli í Kollafirði.[3]

3. Jón (f. 1730), dó úr skyrbjúgi tæpra 20 vetra gamall.[4]

4. Þorbjörg (1735-1819), giftist Jóni vísilögmanni Ólafssyni og bjuggu þau í Víðidalstungu.

5. Halldór Vídalín (1736 - 1801) – „þótti miklu óvitrari bróður sínum“ og „þokti hann ei mikill að manni“.[5] Bjarni útvegaði honum kvonfang, Ragnheiði dóttur Einars prests á Söndum í Miðfirði. Segir Runólfur M. Olsen að „kendi vinnukona honum barn á brúðkaupsdegi og kallaði hann af brúðarbekk“.[6] Halldór lærði í skóla en þótti „ekki skarpur þótt góður ritari væri.“[7] Hann fékk umboð fyrir klaustrinu á Reynistað 1768. Þau Ragnheiður eignuðust mörg börn, þeirra á meðal bræðurna Bjarna og Einar sem betur eru þekktir sem Reynistaðarbræður, en Halldór faðir þeirra er ættfaðir Reynistaðarættar. Halldór dó árið 1800. Ragnheiður tók við umboðinu eftir mann sinn og er einasta kona sem vitað er til að hafi haft umboð fyrir klaustri á Íslandi. Sagt er að hún hafi tekið „fásinnu eigi alllitla“ að síðustu.[8]

Eftir að Hólmfríður dó af barnsförum 1736 giftist Bjarni ekki aftur heldur hafði „ráðskonur“ upp frá því, sem margar voru bendlaðar við að eiga vingott við hann.[9][10]

Ferill Bjarna

breyta

Bjarni þótti ágætur námsmaður. Hann var við Skálholtsskóla 1716-1720 og Kaupmannahafnarháskóla 1721-1722, þaðan sem hann lauk embættisprófi í guðfræði. Þegar hann kom heim fékk hann vígslu sem prestur og fékk starf sem rektor í Skálholtsskóla á meðan hann beið eftir að fá brauð til að þjóna. Því starfi gegndi hann í 5 ár.[11] Í Skálholti dvaldi þá Hólmfríður Pálsdóttir Vídalín, sem var aðeins eldri en hann, og „bar oft saman fundum þeirra Bjarna.“[12] Svo fór að hún varð þunguð eftir þessa „fundi“. Þegar Páll faðir hennar tók sótt og lagðist banalegu á Alþingi sumarið 1727, fór hún til að vera hjá honum síðustu stundirnar. Þegar hann sá að hún - ógift - var kasólétt, varð honum að orði: „Guð hjálpi mér! Hvernig ertu??“. Voru það hans seinustu orð, er menn heyrðu.[13] Ekki löngu seinna kvæntist Bjarni Hólmfríði, en svo skammt leið frá brúðkaupinu þar til sonurinn Páll fæddist, að Bjarni var sviptur hempunni og rektorsembættinu. Þau fluttu svo að Víðidalstungu í Húnavatnssýslu og hófu þar búskap.

Embættisveiting og helstu málaferli

breyta

Árið 1728 var Jóhann Christopher Gottrup dæmdur frá embætti sýslumanns Húnavatnssýslu vegna þess að hann átti ekki fyrir 60 ríkisdala sekt,[14] og Bjarni fékk konungsveitingu fyrir henni í mars árið eftir.[15] Johann var áfram klausturhaldari á Þingeyrum, og hófust óðar deilur milli gamla sýslumannsins og þess nýja. Til að byrja með klagaði Jóhann Bjarna fyrir þings- og réttarvanrækslu og stefndi honum til lögþings vegna þess. Málinu var vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum.[16]

Þess er getið 1735 að þeir Jóhann og Bjarni „gjörðust héraðsríkir báðir“[17] „1737. lét Amtmaðr Lafrenz Odd Magnússon lögþingsskrifara ... taka út Þingeyraklaustr, því Johan var kominn í ... skuldir ... [V]ar gjört álag mikið, klaustrið boðið upp og fékk Bjarni Haldorsson það“ og fluttist þangað búferlum skömmu síðar:[18]

„Þingeyraklaustur til forpaktningar, sem innsett var fyrir 167 rixd. 27 sk. specie árlega afgift og eins mikla festu með þeim conditioner, að sá hæðstbjóðandi kæmi strax búferlum til klaustursins, og ef nokkuð manqveraði uppá þar tilheyrandi inventarium, hann þá sækti það hjá sínum formanni, en klaustrið skyldi hönum í sumar afhendast. Var það so eftir aðskiljanleg uppboð tilslegið sýslumanninum Bjarna Halldórssyni fyrir 205 rixd. festu specie og 167 rixd. 27 sk. specie árlega afgift; lofar sýslumaðurinn fyrir festuna og afgiftirnar nøyagtig caution.“[19]

Með bréfi dagsettu 26. apríl 1738 var Bjarna síðan formlega veitt umboð fyrir Þingeyraklaustri. Fluttist Bjarni að Þingeyrum, gerðist ríkur maður og bjó þar til dauðadags.[20]

Aðfararmálið

breyta

Guðmundur Sigurðsson á Ingjaldshóli tók við Snæfellsnesssýslu eftir Jóhann og Stapaumboði líka. Hann „lýsti til álagsskuldar til Ingjaldshólskirkju“ hjá Jóhanni og var Ormur sýslumaður Daðason settur dómari í málinu. Bjarni tók lögtaki fjármuni hjá Jóhanni upp í skuldina en Jóhann kærði dóm Orms til Alþingis 1740, þar sem málinu var vísað frá. Jóhann var fjarverandi þegar lögtakið var gert. Hann reyndi að heimta féð aftur „en Bjarni vildi ei laust láta“. Kærði Jóhann Bjarna fyrir ólöglegt lögtak og var Grímur Grímsson á Giljá setudómari í héraði. Hann dæmdi Bjarna sekan um ólögmætt lögtak en Bjarni áfrýjaði dómnum og þann 16. júlí 1744 dæmdi Sveinn Sölvason lögmaður dóm Gríms ógildan á Alþingi. Aftur á móti skyldi Jóhann gjalda Bjarna 4 rd. Croner „fyrir óþarfa málsýfing“.

Samningsmálið

breyta

27. júlí 1740 sömdu Jóhann og Bjarni um að þeir væru sáttir um öll sín kærumál. Var þó mælt að Bjarni ætti eftir að hefna sín á Jóhanni, enda fór svo að honum fannst Bjarni halda samninginn slælega er á leið og ásakaði hann meðal annars um að torvelda sér að fá til sín vinnufólk. Stefndi Jóhann því Bjarna og er þessa meinta sáttarofsmáls meðal annars getið á sjálfdæmismálinu (sjá að neðan). Bjarni brást við með því að stefna Jóhanni fyrir „skammaryrði við sig í Höfðakaupstað og krafði Jóhann meðal anars dæmdan ærulausan; tók þá Jóhan að gjörast hávær og tala fram í ræðu Bjarna“ og lét sér ekki segjast þótt rétturinn áminnti hann. Grímur Grímsson var settur dómari í málinu og dæmdi Jóhanni í vil, en Bjarni áfrýjaði og fór svo að Sveinn lögmaður ógilti dóm Gríms og dæmdi Jóhann til að greiða Bjarna miskabætur og málskostnað vegna óþarfa málsýfinga.

Sjálfdæmismálið

breyta

Bjarni stefndi Jóhanni fyrir meiðyrði sumarið 1740. Jóhann gat ekki mætt til dóms og baðst afsökunar á því skriflega. Fór Jóhann síðan til Þingeyra þann 11. janúar árið eftir og bauð Bjarna sættir og sjálfdæmi. Dæmdi Bjarni sjálfum sér óhemju upphæð - 60 ríkisdali - í skaðabætur og gerði Jóhann auk þess útlægan úr héraðinu. Jóhann var að vonum óánægður með þessi málalok og stefndi Bjarna til lögþings 1741 „að framleggja þar úrskurðinn í frumriti en Bjarni skoraðist undan að framleggja skjöl móti sjálfum sér“.

Á Alþingi dæmdi Ormur Daðason í málinu og skyldaði hann Bjarna til að leggja fram skjölin og er hann hafði gert það staðfesti Ormur dóm hans „hvað fjárútlátum af hendi Jóhans viðvék“. Þessu áfrýjaði Jóhann. Á Sveinsstaðaþingi í júní 1743 höfðaði Jóhann annað mál á hendur Bjarna vegna sjálfdæmisins og þá dæmdi Grímur Grímsson í málinu, sektaði Bjarna og ógilti sjálfdæmið. Bjarni áfrýjaði þessum dómi og á lögþingi 1744 staðfesti Sveinn lögmaður fjársekt Jóhanns aftur en ítrekaði að útlegðardómurinn væri ógildur.

Reikningsmálið

breyta

Jóhann hélt því fram að hann ætti í fórum Bjarna 73 ríkisdali og 45 skildinga en Bjarni tók fyrir það. Stefndi Jóhann honum því og dæmdi Grímur – sem enn var setudómari – að Bjarni skyldi greiða Jóhanni 35 ríkisdali. Sveinn Sölvason ógilti þann dóm á Alþingi árið eftir.[21]

Kýrmálið

breyta

Á Tittlingastöðum átti Jóhann „svartskjöldótt[a] vesælings baulu“[22] sem Bjarni tók lögtaki upp í skuldir. Skúli Magnússon, þá sýslumaður Skagfirðinga, var settur dómari í málinu[23] en var andvígur Bjarna. Hann þingaði þrem sinnum í málinu og dæmdi að lokum Bjarna til að greiða 40 lóð silfurs í „ofríkisbætr“ – auk þess sem hann átti að skila kúnni. 1742 kom málið á Alþingi og Ormur Daðason, sem dæmdi í málinu, úrskurðaði að á Alþingi árið eftir skyldi Bjarni leggja fram gögn í málinu. Mótmælti Bjarni því að Ormur skyldi dæma í málinu en ekki Sveinn Sölvason, sem þá var nýkominn frá Danmörku með varalögmannsbréf upp á vasann, og hefði að öllu jöfnu átt að dæma það.[24]

Þóttist Ormur hafa leyfi Beckers lögmanns til að dæma málið og kvað sér ekki skylt að víkja sæti fyrir Sveini. Deildi Bjarni nú hart við Skúla og Jóhann og flækti málin og vafði til að tefja fyrir. Eftir að hafa fengi sérstakt leyfi amtmanns til að dæma í málinu sektaði Ormur loks Bjarna eftir að hafa staðfest dóm Skúla. Jóhann þurfti einnig að punga út.[25]

Vitnisburðarmálið

breyta

Jóhann sakaði Bjarna um falskan vitnisburð í Tittlingastaðakýrmálinu og bar á hann að hafa samið vitnisburðinn undir nöfnum annarra manna. Grímur þingaði í málinu sem setudómari og dæmdi vitnisburðarbréf Bjarna ógilt og sektaði hann. Bjarni áfrýjaði.[26]

Kaupmannamálið

breyta

Árið 1743 vildi Jóhann Gottrup taka að sér mál fyrir kaupmanninn í Stykkishólmi fyrir rétti að Staðarbakka í Helgafellssveit. Halldór Jónsson á Saurum lagði fram ákæruskjal gegn Jóhanni og mælti gegn máli hans. Guðmundur sýslumaður Sigurðsson, sem áður er getið, vísaði öllu málinu frá og stefndi Jóhann þeim þá til Alþingis 1744. Bjarni Halldórsson tók að sér mál þeirra. Á Alþingi krafðist Jóhann úrskurðar í málinu en Sveinn Sölvason dæmdi að hann hefði aldrei haft rétt til að flytja það hvort sem er og vísaði því þess vegna frá.

Æruleysismálið

breyta

Æruleysismálið var sjálfstætt framhald Vitnisburðarmálsins. Bjarni stefndi Jóhanni vegna illyrða um sig á þingi á Sveinsstöðum í september 1744. Jóhann mætti ekki fyrir réttinn heldur sendi bréf í staðinn þar sem hann kvað meint illyrði hafa verið sögð á Alþingi og þess vegna heyrði þetta mál undir lögréttudóm en ekki héraðsdóm. Enn fremur sagðist hann ekki komast fyrir réttinn þar sem hann væri að sinna erindum á vegum konugs og væri því löglega afsakaður og mótmælti því auk þess, að Grímur væri setudómari. Bjarni leit hins vegar svo á að það ætti samt að dæmast í málinu og lagði meira að segja fram lögmannsdóm þar að lútandi, auk þess sem hann dró í efa að þessi erindi á vegum konungs sem Jóhann væri að sinna væru mjög brýn – ef þau væru yfir höfuð á vegum konungs – og þar með hvort Jóhann væri í raun réttri löglega afsakaður. Grímur samsinnti því að málið skyldi dæmast í héraði. Lagði Bjarni nú fram kæruskjal sitt þar sem til voru tíndar ærumeiðingar þær sem Jóhann átti að hafa sagt og dæmdi Grímur Jóhann í tveggja hundraða sekt í löndum til Bjarna auk 8 ríkisdala, en 3 ríkisdali skyldi hann greiða konungi og málskostnað, 30 álnir, ofan á þetta allt, og skyldi greiðast fyrir næstu fardaga.[27] Málið fór fyrir Alþingi 1745 og þar mótmælti Jóhann því að orð hans hefðu verið ærumeiðandi. Lögþingið dæmdi hann lygara og fjölmælismann og sektaði hann.[28]

Elínarmálið

breyta

Árið 1741 urðu mál milli Skúla Magnússonar og Bjarna sem sýslumanna; hafði kona að nafni Elín Jónsdóttir komið að Kálfárdal í Húnavatnssýslu – ef til vill til að sækja um vist – en Bjarni rekið hana burt úr héraðinu sem flakkara. Þar sem hún hraktist til Skagafjarðar tók Skúli að sér að sækja málið og var Bjarni sakfelldur og látinn borga málskostnað og sekt. Dómari var Ormur Daðason.[29]

Þegar málaferlin milli Jóhanns Gottrup og Bjarna stóðu sem hæst setti Lafrenz amtmaður Bjarna frá embætti árið 1741, um stundarsakir. Þeir voru litlir velvildarmenn. Bjarni kvaðst óðar mundu áfrýja þeim úrskurði og halda til Danmerkur fyrir hæstarétt – og það gerði hann. Þeir Jóhann og Bjarni sigldu báðir utan sama haust - en ekki fyrr en Bjarni hafði fengið Jóhann sektaðan í héraði fyrir illyrði.[30]

Stefnir dauðum manni

breyta

Í fjarveru Bjarna sat Grímur Grímsson sýsluna. Þeir Jóhann komu heim árið eftir og reið þá Bjarni til Alþingis þar sem málin töfðust enn og hélt hann því aftur utan 1743 og kom heim 1744. Kom þá maður til hans og sagði honum lát Orms Daðasonar. Varð Bjarna að orði: „Þar fór góður lagamaður, karl minn!“ – og gaf hann manninum ríkisdal áður en hann fór, en sú var ekki venja hans. Annar maður hafði dáið að Bjarna fjarverandi, en það var Lafrenz amtmaður, þá orðinn aldraður og heilsulaus og var hann grafinn að Bessastöðum. Fór Bjarni að gröf hans og stefndi honum dauðum með þrem stefnum.

Bjarna var loks veitt Húnavatnssýsla aftur árið 1745 og þótti þetta ærinn sigur hjá honum. Sótti hann þá Grím og Jóhann sem ákafast fyrir aðför að sér, en þeir sóttu hann á móti. Ónýtti um síðir Sveinn Sölvason dóm Gríms um fésekt frá Sveinsstaðaþingi 2 árum fyrr og rengdi sókn Jóhanns – sem var byggð á sekt sem hafði verið dæmd samkvæmt úreltum taxta. Loks stefndi Bjarni Jóhanni fyrir sakfellinguna í Sjálfdæmismálinu og hafði af honum 120 rd. auk 50 rd. í málskostnað. Að því er virðist til að ergja Jóhann enn meira tók Bjarni að sér að verja Guðmund sýslumann á Ingjaldshóli er Jóhann vildi sækja hann til saka fyrir meiðyrði.[31]

Eftir 1745 er ekki getið frekari málaferla Jóhanns og Bjarna. Konungur veitti Jóhanni æruna aftur með bréfi árið 1746 – en af einhverjum ástæðum virðist Jóhann hafa afþakkað og „gjördist hann sídan allvesæll“ – eyddist honum nú mjög fé og fór hann á vonarvöl.[32] Jóhann lést 1757 „úr gulusótt og anari vesælt“.[33]

Mál gegn Skúla Magnússyni

breyta

Sumarið 1746 kom frá Danmörku Halldór Brynjólfsson, nývígður Hólabiskup, og tók við embætti sínu. Skúli Magnússon sýslumaður á Ökrum, svili Halldórs, hafði verið ráðsmaður Hólastaðar á meðan þar var biskupslaust. Var Halldór ekki sáttur við viðskilnað hans og reyndi að hefja málssókn gegn honum en hún rann út í sandinn þar sem allir sem til voru kvaddir voru á einu máli um að staðurinn hefði hagnast á ráðsmennsku Skúla en ekki tapað. Þeir Guðni Sigurðsson og Bjarni Halldórsson sýslumenn fyldu Halldóri að málum – „því Guðni var vinur biskups, en Bjarni lítill vin Skúla“.[34] Um jólin sama ár og biskup kom heim eignaðist Þóra kona hans barn – um 6 mánuðum eftir heimkomuna. Þótti mönnum meðgangan stutt, og ekki einsýnt um faðernið. Löngu síðar komst sú saga á kreik að vingott hefði verið með Skúla sýslumanni og Þóru og hann kynni að hafa verið faðirinn en sú frásögn hefur verið hrakin, meðal annars í Íslenzkum æviskrám, enda var biskupsfrúin enn vestur á Staðarstað þegar hún varð þunguð og kom ekki að Hólum fyrr en um haustið.

Tunnumálið

breyta

Skúli Magnússon áttist við Pétur Oveson kaupmann á Hofsósi, og bar hann þeim sökum að hafa drýgt mjöl sitt með mold (!) og dæmdi auk þess járn kaupmanns ógilt. Í málaferlum kaupmanns við Skúla bauð Bjarni kaupmanni aðstoð sína og fékk varið mjölið þótt járndómurinn stæði. Í svonefndu geldfjármáli milli Skúla og Péturs kaupmanns hafði Jón sýslumaður Benediktsson á Rauðuskriðu í Þingeyjarsýslu dæmt dóm sem nú var kærður en Bjarni tók það að sér og vann það. Í kjölfar þess máls hófst sú mikla rimma er Skúli átti seinna eftir að lenda í við Höndlunarfélagið.[35]

Síðustu „gleðir“ á Íslandi

breyta

Eftir frásögn Þorsteins prófasts Péturssonar á Staðarbakka að dæma, virðist Bjarni hafa verið gleðimaður. Þorsteinn segir hann hafa haldið jólagleðir á Þingeyrum þrjú ár í röð – 1755, 1756 og 1757. Ekki finnst Þorsteini þess háttar veisluhöld guðleg þar sem um þessar mundir var harðæri á Norðurlandi með mannfelli.[36] Sé mark tekið á frásögn Þorsteins prófasts – sem Ólafur Davíðsson og Jón Árnason telja ekki alls kostar áreiðanlega, enda hluta af áróðursriti gegn vikivökum – gekk upp hálf tunna af brennivíni í einni gleðinni, sem stóð í heila viku. Jafnframt telja Ólafur og Jón að þetta hafi verið síðustu vikivakar sem haldnir voru á Norðurlöndum.[37] Indriði Einarsson segir brennivínið sem drukkið var á vikivakanum 1757 ekki hafa numið hálftunnu heldur einni og hálfri tunnu.[38] (Mælieiningin tunna nam um það bil hundrað lítrum.) Nítján óskilgetin börn komu undir á síðustu gleðinni.

Efri ár, andlát og útför

breyta

Árið 1760 var Jóni Ólafssyni varalögmanni falið að semja Íslendingum endurbætta lögbók fyrir 1764. Bjarni Halldórsson átti að vera honum innan handar, og settist Jón því að á Þingeyrum. Fór svo að hann gerðist tengdasonur Bjarna, giftist Þorbjörgu dóttur hans og bjuggu þau í Víðidalstungu.[39]

Bjarni hélt sig vel í mat og drykk og varð mjög feitur með aldrinum - Jón Espólín segir að hann hafi „verit ellstr ok mikilhæfastr syslumanna hér á landi um hríd, ok audugr; hann var yfir sjötugt, ok hafdi legit í kör fyrir þýngsla sakir med elliburdum seinast.“[40] Árið 1765 var hann orðinn svo þungur á sér að hann varð að ráða sér lögsagnara, og varð fyrir valinu Arngrímur Jónsson, sonur Jóns lögsagnara á Núpi.

Bjarni lést nóttina eftir þrettánda 1773, klukkan 4 að morgni. Hafði hann áður beðið um að ekki yrði skírt í höfuðið á sér. Jón Espólín telur að hann hafi „fengid fall af sænginni ádur“ en hann dó. Sumir sögðu að griðkona hefði gengið framhjá rekkjunni, Bjarni seilst eftir henni og oltið við það fram úr. Einnig var sagt að hann hefði kafnað í eigin spiki, en ekki eru til krufningarskýrslur til að staðfesta það. Veturinn 1772-3 var aftakaharður og jörð stokkfreðin. Tóku menn þó gröf fyrir sýslumanninn, og vegna aðstæðna varð hún í minna lagi. Þegar verið var að láta kistuna síga ofan í gröfina missti einn líkmanna takið á henni, svo hún steyptist ofan í með höfðagaflinn á undan. Veður var vont - „staklegt illviðri“ - og var því ákveðið að láta gott heita og moka bara yfir. Hann stendur því líklega á haus í gröf sinni fram á þennan dag.

Eftirmál og eftirmæli

breyta

Eins og oft er um ríka menn, urðu deilur miklar milli erfingjanna að honum dauðum. Halldór sonur hans og Jón tengdasonur vildu m.a. gera Ástríði dóttur hans arflausa vegna barneignar hennar með Erlendi og gengu arfskiptin illa. Þurfti að lokum að fá utankomandi menn til að skera úr með gerðardómi.

Jón vísilögmaður hafði forgöngu um að pantaður yrði veglegur legsteinn frá útlöndum á leiði Bjarna. Þegar steinninn var nýkominn til landsins dó Jón, og ekki höfðu aðrir erfingjar framtakssemi til að setja hann á sinn stað. Mun hann hafa endað sem gangstéttarhella eða þrepskjöldur framan við kaupmannsbúðina í Höfðakaupstað[41] – (nú Skagaströnd).

Grafskrift Bjarna og líkræðan sem haldin var yfir honum voru prentuð að undirlagi Ástríðar dóttur hans í Kaupmannahöfn með æviminningu hans árið 1777.

Flestir þeir sem hafa ritað um Bjarna hafa nokkurra lína eftirmæli um hann. Ber þeim saman að mestu leyti um að hann hafi lítið verið syrgður af nágrönnum sínum, enda hafi þeir fremur óttast hann en elskað. Hann hafi verið héraðsríkur og jafnvel ágjarn en jafnframt höfðingi og vel að sér um lög og fleira. Hann var sagður góður búmaður. Indriði Einarsson, sem var sonardóttursonarsonur Bjarna, taldi ofbeldi hafa komið inn í ætt sína frá honum. Hann lýsir samskiptum Bjarna við samsveitunga sína, leiguliða klaustursins, einokunarkaupmennina í Húnaþingi og fleiri sem svo að Bjarni hafi ætíð verið í hlutverki „hamarsins“ en þeir sem hann áttist við í hlutverki „steðjans“.[42] Þorsteinn prófastur Pétursson á Staðarbakka lýsir því í riti sínu Manducus að hann hafi ekki verið við „alþýðuskap, en rausnarmaður hinn mesti og höfðíngi í héraði.“[43]

Ritstörf

breyta

Í eitt skiptið sem Bjarni var í Danmörku að reka réttar síns samdi hann ritgerð að nafni „Hundrað silfurs“ og var hún prentuð á latínu aftan við Kristnisögu (í Kaupmannahöfn 1773). Einnig liggja eftir hann nokkrar lögbókarskýringar og eitt kvæði mun til eftir hann á latínu.[44] Einar á Mælifelli segir á Fræðimannatali sínu að Bjarni hafi ritað annál fyrir árin 1650-1772. Hannes Þorsteinsson kveðst ekki hafa séð annálinn, og telur hann glataðan.[45]

Heimildir

breyta
 1. Jón Espólín: Íslands Árbækur í sögu-formi. X. deild, prentað á kostnað ens íslenzka Bókmenntafélags, Kaupmannahöfn 1848. Blaðsíða 34. (Ljósprentuð 2. útgáfa 1947.)
 2. Bogi Benediktsson á Staðarfelli: Sýslumannaæfir. Með skýringum og viðaukum eftir Jón Pétursson jústitaríus. ÍBF [Hið íslenska bókmenntafélag?]. Reykjavík 1881-1884. 1. bindi: Norðlendingafjórðungur, s. 618.
 3. Runólfur M. Olsen [f. 1810, d. 1860]: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs og, Æfi-Ágrip þeirra, sem þar hafa búið. Óútgefið handrit og ódagsett [í Þjóðdeild Landsbókasafns], J.S.599 4to., bls. 154-6.
 4. Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir I, bls. 616.
 5. Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, 1.bindi, 1685-1786. Jón Torfason sá um útgáfuna. Mál og mynd [útgáfustaðar ekki getið], 1998, s. 239.
 6. Runólfur M. Olsen: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs, bls. 154-5.
 7. Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir I, bls. 613.
 8. Indriði Einarsson: Séð og lifað, Tómas Guðmundsson bjó til prentunar [2. útgáfa], Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1972, bls. 29.
 9. Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir I, bls. 618.
 10. Runólfur M. Olsen: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs, bls. 156.
 11. Hannes Þorsteinsson: Guðfræðingatal – stutt æfiágrip þeirra guðfræðinga íslenzkra, er tekið hafa embættispróf við Kaupmannahafnarháskóla 1707-1907. Útgefandi: Sögufélag, Reykjavík 1907-10, s. 45-46.
 12. Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir., s. 617.
 13. Runólfur M. Olsen: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs, bls. 153-154.
 14. Alþingisbækur Íslands, XII. bindi, 1731-1740. Sögufélag gaf út. Reykjavík 1973. Blaðsíða 417.
 15. Hannes Þorsteinsson: Guðfræðingatal, bls. 46.
 16. Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir I, bls. 617.
 17. Jón Espólín: Íslands Árbækur IX, bls. 126.
 18. Runólfur M. Olsen: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs, bls. 134.
 19. Alþingisbækur Íslands, XII, bls. 364-5.
 20. Hannes Þorsteinsson: Guðfræðingatal, bls. 46.
 21. Runólfur M. Olsen: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs, bls. 135-41.
 22. Alþingisbækur Íslands, XIII, bls. 146.
 23. Runólfur M. Olsen: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs, bls. 141-2.
 24. Jón Espólín: Íslands Árbækur X, bls. 2.
 25. Runólfur M. Olsen: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs, bls. 142.
 26. Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga 1, bls. 170.
 27. Runólfur M. Olsen: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs, bls. 144-7.
 28. Alþingisbækur Íslands, XIII, bls. 265.
 29. Alþingisbækur Íslands, XIII, bls. 15.
 30. Alþingisbækur Íslands, XIII, bls. 167-72.
 31. Jón Espólín: Íslands Árbækur X, bls. 4-6.
 32. Jón Espólín: Íslands Árbækur X, bls. 9
 33. Runólfur M. Olsen: Saga Jarðarinnar Þíngeÿraklausturs, bls. 150.
 34. Jón Espólín: Íslands Árbækur X, bls. 9.
 35. Jón Espólín: Íslands Árbækur X, bls. 15-16.
 36. Ólafur Davíðsson: Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur III, bls. 20-21.
 37. Ólafur Davíðsson: Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur III, bls. 25.
 38. Indriði Einarsson: Séð og lifað, bls. 42.
 39. Jón Espólín: Íslands Árbækur X, bls. 62-3.
 40. Jón Espólín: Íslands Árbækur X, bls. 107.
 41. Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir I, bls. 618-9.
 42. Indriði Einarsson: Séð og lifað, bls. 41-2.
 43. Ólafur Davíðsson: Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur III, bls. 20-21.
 44. Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár I, bls. 169
 45. Hannes Þorsteinsson: Guðfræðingatal, bls. 47.