Reynistaðarætt
Reynistaðarætt er íslensk ætt kennd við Reynistað í Skagafirði. Hana mynda niðjar Halldórs Vídalíns Bjarnasonar (1736 – 1801) klausturhaldara þar og Ragnheiðar Einarsdóttur (1742 – 1814) konu hans (gift 1759), og Málmfríðar Sighvatsdóttur (f. 1735, dáin fyrir 1801) barnsmóður hans.
Halldór Vídalín Bjarnason var sonur Bjarna Halldórssonar (1703 – 1773) sýslumanns á Þingeyrum og Hólmfríðar Pálsdóttur Vídalín (1697 – 1736) konu hans, yngstur af fimm systkinum. Páll Vídalín lögmaður var móðurafi Halldórs, og telst því Reynistaðarætt vera kvísl af Vídalínsætt. Halldór gekk í skóla og var sagður „ritari góður“ en „eigi skarpur“ í árbókum Jóns Espólíns. Ragnheiður var skörungur og stóð fyrir búi þeirra hjóna.
Börn Halldórs, Málfríðar og Ragnheiðar
breytaHalldór og Ragnheiður áttu níu börn, þar af dóu tvö á fyrsta ári og tveir synir urðu ungir úti. Auk þess átti Halldór áður soninn Odd með Málfríði.
- Oddur Halldórsson Vídalín (1759 – 1804)
- Hólmfríður Halldórsdóttir Vídalín (1760 – 1819)
- Björg Halldórsdóttir (1763 – 1826)
- Bjarni Halldórsson (1765 – 1780)
- Einar Halldórsson (1770 – 1780)
- Páll Halldórsson (1770)
- Benedikt Vídalín Halldórsson (1774 – 1821)
- Anna Halldórsdóttir (1777 – 1808)
- Sigríður Halldórsdóttir (1778 – 1843)
- Elín Halldórsdóttir (1783)
Reynistaðarbræður og ættarbölvunin
breytaSumarið 1780 kom pest í fé á Norðurlandi og var allt skorið í Skagafirði. Um haustið sendi Halldór á Reynistað syni sína Einar og Bjarna, ásamt vinnumanninum Jóni Austmann og öðrum, sem Sigurður hét, suður yfir Kjöl til að kaupa fé. Þeir urðu allir úti í stórhríð á heimleiðinni(í nóvember 1780), og þótti Björgu systur þeirra bræðra Bjarni bróðir sinn birtast sér í draumi og segja henni að þeir væru allir dauðir. Auk þess þótti henni hann segja sér að frá þessum degi mætti ekki gefa neinum dreng í ættinni nafnið Bjarni, og enginn karl mætti framar klæðast grænu né ríða bleikum hesti, en væri feigur ella. Um vorið fundust lík fylgdarmannanna tveggja í tjaldi við Beinhól, en bein bræðranna fundust ekki fyrr en árið 1845 í gjótu þar skammt frá. Fólk varð felmtri slegið vegna þessara atburða og lögðust mannaferðir um Kjöl af áratugina á eftir. Bölvunin var talin fylgja ættinni, og ýmsir voveiflegir atburðir taldir tengjast henni, og fram á þennan dag forðast sumir afkomendur Halldórs og Ragnheiðar að nefna syni sína Bjarna og karlar að klæðast grænu eða ríða bleikum hesti.