Jóhann Gottrup (1691 - 1755) eða Johan Christoffer Gottrup Lauritzson var íslensk-danskur sýslumaður og klausturhaldari á 18. öld.

Jóhann var sonur Lárusar Gottrups lögmanns á Þingeyrum og Katarínu konu hans en var fæddur og uppalinn á Íslandi. Hann lauk stúdentsprófi og stundaði guðfræðinám í Kaupmannahöfn um tíma. Hann varð lögsagnari föður síns í Húnavatnssýslu 1714 og tók alfarið við sýslunni eftir lát hans 1721. Sama ár setti Niels Fuhrmann amtmaður hann jafnframt sýslumann Snæfellinga og umboðsmaður Stapajarða í stað Odds Sigurðssonar lögmanns, sem hafði haldið lénin án þess að hafa til þess umboð frá konungi. Auk þess annaðist Jóhann Þingeyraklaustursumboð fyrir hönd móður sinnar og var því með valdamestu mönnum landsins.

Þetta markaði upphaf langærra og afar harðra deilna milli þeirra Jóhanns og Odds en þeir voru raunar engir vinir fyrir, báðir ofstopa- og yfirgangsmenn. Oddur fór til Kaupmannahafnar til að reyna að rétta hlut sinn en Jóhann lét greipar sópa um eignir hans á meðan, tók sumt undir sig en eyðilagði annað. Þegar Oddur sneri aftur gekk á með stöðugum erjum og átökum á milli þeirra og manna þeirra því báðir höfðu um sig ribbaldaflokka og má segja að skálmöld hafi ríkt á Snæfellsnesi.

Fuhrmann amtmaður vék Oddi úr embætti 1724 og hann var vanvirtur á ýmsan hátt, bæði af Jóhanni og öðrum. Hann sigldi nokkrum sinnum til Kaupmannahafnar og reyndi að rétta hlut sinn og á endanum fékk hann uppreisn æru með konungsbréfi 1730 og var Jóhanni gert að skila honum aftur jörðum og fjórtán fiskibátum. Jóhann hafði erft mikið fé eftir foreldra sína og haft miklar tekjur en jafnan borist mikið á og eytt fé sínu. Um svipað leyti lenti hann í langvinnum og flóknum málaferlum við Bjarna Halldórsson sýslumann sem urðu honum á endanum ofviða. Fékk Bjarni Húnavatnssýslu 1728 og Þingeyraklaustursumboð 1738 og varð Jóhann þá að fara frá Þingeyrum. Málaferlum þeirra Bjarna var þó engan veginn lokið.

Jóhann var ógiftur og barnlaus en fylgikona hans og svallfélagi var Sigríður Salómonsdóttir og er sagt að hann hafi endað ævina örsnauður sem fiskibarsmíðakarl hjá henni í Grunnasundsnesi.

Heimild

breyta

„Viðskifti Odds Sigurðssonar lögmanns við Jóhann Gottrup sýslumann. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 20. árg 1899“.