Akrar (Skagafirði)
Akrar er bæjarþyrping í Blönduhlíð fyrir neðan Akrafjall í Skagafirði. Þar standa fjórir bæir þétt í nágreni við hvorn annan og kallast þar Akratorfa. Bæirnir eru Minni-Akrar, Stóru-Akrar, Höskuldsstaðir og Miðhús. Eggert Jónsson lögréttumaður hafði aðsetur á Ökrum, en sonur hans Jón Eggertsson var klausturhaldari á Möðruvöllum. Fyrrum var ferjustaður á Héraðsvötnum undan Ökrum og var þar síðasta dragferja fram undir 1930. Ökrum fylgir svonefndur Akradalur, sem gengur langt inn í fjallendið austur af Blönduhlíð.
Akratorfa
breytaRétt fyrir utan eyðibýlin Vaglagerði og Grundarkot ásamt bænum Þorleifstöðum stendur bæjarþyrpingin Akratorfa, hún samanstendur af nokkrum bæjum. Þyrpingin er oftar en ekki kennd við bæinn Stóru-Akra (Akrir í máli sumra Blöndhlíðinga) einnig. Akrar, Akratorfan og Stóru-Akrar eru allt nöfn sem gjarnan eru notuð til að lýsa sömu bæjarþyrpinguni, allt eftir því við hvern þú talar.
Stóru-Akrar
breytaStóru-Akrar er kunnasti bær Akratorfunar, þar var höfðingjasetur og löngum eitt af helstu stórbýlum og höfuðbólum Skagafjarðar. Þar sátu landskunnir höfðingjar og fyrirmenn, hirðstjórar, lögmenn og sýslumenn. Björn prestur Brynjólfsson bjó þar á fyrri hluta 14. aldar og afkomendur hans um langan aldur. Sonur Björns var Brynjólfur ríki Björnsson (d. 1381) og síðan Björn sonur hans (d. um 1403). Dóttir hans var Sigríður, sem giftist seinni manni sínum, Þorsteini Ólafssyni lögmanni í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi 1408 en vitnisburður um brúðkaupið er síðasta örugga heimild um búsetu norrænna manna þar. Einkadóttir þeirra var kölluð Akra-Kristín. Hún var fyrst gift Helga Guðnasyni lögmanni en síðar Torfa Arasyni hirðstjóra. Dóttir hennar og Helga var Ingveldur, kona Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum.
Dætur Ingveldar og Þorleifs, Guðný og Helga, eignuðust Akra eftir foreldra sína og bjó Guðný, sem kölluð var Akra-Guðný, lengi á jörðinni með manni sínum, Grími Jónssyni lögmanni. Hinn hlutann eignaðist Gunnar Gíslason á Víðivöllum. Dóttir hans var Solveig kvennablómi, kona Arngríms lærða, og virðist Arngrímur hafa búið þar um tíma og seinna Jón sonur hans. Hann seldi Eggert Jónssyni jörðina árið 1630 og bjuggu afkomendur hans þar þangað til 1743, þegar hún var seld Skúla Magnússyni,, sýslumanni Skagfirðinga og síðar landfógeta. Hann byggði þar á árunum 1743-1745 myndarlegan torfbæ sem búið var í til 1938 og stendur enn að hluta. Hann er undir umsjá Þjóðminjasafns Íslands og hefur verið endurgerður.
Kirkja var á Stóru-Ökrum frá því snemma á öldum en hún var lögð niður með konungsbréfi 1765.
Héðinsminni er félagsheimili Akrahrepps og er á Stóru-Ökrum. Húsið var byggt á árunum 1919-1921 og vígt 13. júní 1921. Það var reist fyrir fé sem Símon Eiríksson bóndi í Litladal gaf í minningu sonar síns, Skarphéðins Símonarsonar, sem drukknaði í Héraðsvötnum við Grundarstokk 15. nóvember 1914. Húsið var upphaflega nefnt Héðinshöll en þó venjulega kallað Þinghúsið. Á árunum 1960-1961 var það endurbætt mjög mikið og stækkað og hlaut þá nafnið Héðinsminni. Um 1990 var húsið enn stækkað og endurbætt. Þar var skóli hreppsins um áratuga skeið, allt þar til hann var lagður niður árið 2006.
Minni-Akrar
breytaMinni-Akrar eru niður undir þjóðveginum. Á Minni-Ökrum bjó skáldið Hjálmar Jónsson frá Bólu (kallaður Bólu Hjálmar) um 27 ára skeið, en hann hraktist þaðan að Grundargerði í sömu sveit. Kveðskapur Bólu-Hjálmars er að miklum hluta orðin til meðan hann bjó á Minni-Ökrum, en hann bjó þar mun lengur en á Bólu, sem hann er kenndur við.
Höskuldstaðir
breytaÁ Höskuldsstöðum átti lengi heimili sitt Stefán Jónsson bóndi. Hann var kunnur fræðimaður og eftir hann liggja vönduð fræðirit um skagfirsk málefni, sagt er að fáir hafi lagt jafn gott efni í sarp skagfirskra fræði og hann.
Heimildir
breyta- Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7}
- Páll Sigurðsson: Skagafjörður austan vatna; Frá Jökli að Furðuströndum. Ferðafélag Íslands árbók 2014.