Fell (Kollafirði)
Fell í Kollafirði á Ströndum er sveitabær fyrir miðri byggð í botni Kollafjarðar. Land jarðarinnar er bæði stórt og gróðursælt, enda var Fell á öldum áður bústaður andlegra og veraldlegra höfðingja, auk landnámsmannsins Kolla. Fagurmyndað fjall sem nefnist Klakkur gnæfir yfir bænum og sést langt að. Þarna er einnig Svartfoss, en hann var notaður af sjómönnum til að miða út fiskimið á innanverðum Húnaflóa.
Á síðari hluta átjándu aldar varð Fell sýslumannssetur, þegar Halldór Jakobsson (1734-1810) flutti þangað. Hann var merkur söguritari en brokkgengur í embætti og sagður drykkfelldur og rustafenginn. Hann hlaut bágt fyrir að gæta ekki Fjalla-Eyvindar betur en svo að hann strauk úr fangavistinni á Felli og var síðar settur af fyrir drykkjuskap og óráðsíu við strand verslunarskipsins Fortuna í Eyvindarfirði árið 1787.
Kirkja stóð á Felli fyrr á tímum og þar er kirkjugarður. Kirkjan á Felli var helguð Ólafi helga Noregskonungi í kaþólskum sið, en jörðin var kirkjustaður allt til ársins 1906 þegar sóknir Fells- og Tröllatungusafnaða voru sameinaðar og kirkja síðan reist á Kollafjarðarnesi 1909.
Frá 2004 hefur verið starfræktur orlofsstaður fyrir fatlaða á Felli.
Tenglar
breyta- Heimasíða Geymt 29 mars 2010 í Wayback Machine