Vestur-Húnavatnssýsla
Vestur-Húnavatnssýsla var ein af sýslum Íslands. Sýslur eru ekki lengur stjórnsýslueiningar á Íslandi, en nafnið er enn notað til að vísa til svæðisins.
Vestur-Húnavatnssýsla er á Norðurlandi, milli Austur-Húnavatnssýslu og Strandasýslu. Nær hún frá Hrútafjarðará fyrir botni Hrútafjarðar að Víðidalsfjalli og Gljúfurá sem rennur í Hópið. Innan sýslunnar eru þrír firðir; Hrútafjörður, Miðfjörður og Húnafjörður - allir inn af Húnaflóa. Sýslan er alls 2580 km². Stærsti þéttbýlisstaður er Hvammstangi en einnig er vísir að þorpi á Laugarbakka og á Reykjum í Hrútafirði. Sýslunnar var fyrst getið árið 1552.
Náttúrufar
breytaBerggrunnur Vestur-Húnavatnssýslu er að mestu leyti basaltberg en einnig er að finna líparít og myndbreytt berg í Vatnsnes- og Víðidalsfjöllum. Fjöll á svæðinu eru mótuð af útrænun öflum jökla, vinda og vatns. Víða eru jökulruðningar en út við ströndina finnast vísbendingar um hærri sjávarstöðu, s.s. vestan á Vatnsnesi og á Heggstaðanesi. Heggstaðanes skilur Hrútafjörð og Miðfjörð og Vatnsnes skilur Miðfjörð og Húnafjörð. Í Húnafirði eru nokkur stór vötn innan sýslumarka; það eru Vesturhópsvatn í Vesturhópi, Sigríðarstaðavatn lítið utar og Hópið.
Sveitirnar eru grösugar og nýtast einkar vel til sauðfjárræktar. Einnig er þar mikil hrossarækt og mjólkurframleiðsla en landbúnaður er aðal máttarstólpi héraðsins. Hlunnnindi s.s. reki og dúntekja er víða við ströndina. Upp af sveitunum er Arnarvatns- og Holtavörðuheiði sem nýtast til beitar sauðfjár að sumarlagi. Á Arnarvatnsheiði er vötnin mörg og stærst þeirra er Arnarvatn stóra. Heiðarnar eru grónar en sjaldséðir eru skógar í héraðinu. Fiskgengd er mikil í öllum ám og ber þar að nefna lax í ár og silungur í vötnum og tjörnum.
Stjórnsýsla
breytaSveitarfélagið Húnaþing vestra nær yfir alla sýsluna og hefur stjórnsýslan sæti á Hvammstanga. Áður voru í sýslunni hreppar þessir:
- Staðarhreppur, Hrútafirði
- Ytri-Torfustaðahreppur, Heggstaðanesi og Miðfirði
- Fremri-Torfustaðahreppur, Miðfirði
- Hvammstangahreppur, Hvammstanga
- Kirkjuhvammshreppur, Vatnsnesi (utan Hvammstanga að vestanverðu)
- Þverárhreppur, Vesturhópi
- Þorkelshólshreppur, Víðidal
Prestaköll Húnaþings vestra eru tvö;
- Melstaðarprestakall með kirkjum á Melstað, Staðarbakka, Stað, Víðidalstungu, Efra-Núpi og einnig Prestbakka, en hún er í Strandasýslu.
- Breiðabólsstaðarprestakall með kirkjum á Hvammstanga, Tjörn, Vesturhópshólum og Breiðabólsstað.
Heimild
breyta- Tómas Einarsson og Helgi Magnússon (ritstj.). 1989. Íslandshandbókin - náttúra, saga og sérkenni. Örn og Örlygur, Reykjavík.