Víðidalstunga er bær og kirkjustaður í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu, fornt höfuðból þar sem margir höfðingjar hafa búið. Jörðin dregur nafn af tungunni milli Víðidalsár og Fitjár og stendur bærinn norðarlega í tungunni.

Kirkjan á Víðidalstungu.
Séð heim að Víðidalstungu af hringveginum.

Víðidalstunga var landmikil hlunnindajörð og tilheyrði allur framanverður Víðidalur jörðinni ásamt afrétti inn undir Langjökul. Jörðin átti líka slægjur utar í dalnum, reka á Vatnsnesi og lax- og silungsveiði í Víðidalsá.

Víðidalstunga var í eigu sömu ættar í margar aldir. Gissur galli Björnsson bjó í Víðdalstungu á fyrri hluta 14. aldar. Hann var sonur Ingibjargar Gunnarsdóttur, sem var fylgikona Gissurar jarls eftir Flugumýrarbrennu, og Bjarnar, sonar Svarthöfða Dufgussonar, og var hann fæddur 1269, ári eftir lát Gissurar jarls. Sonarsonur hans, Jón Hákonarson (f. 1350), bjó í Víðidalstungu og á Grund í Eyjafirði. Hann var mikill bókamaður og lét rita Flateyjarbók, sem er skrifuð í Víðidalstungu skömmu fyrir 1400, einnig Vatnshyrnu. Þess hefur verið getið til að Þorleifur Árnason sýslumaður í Auðbrekku, sem átti Víðidalstungu skömmu síðar, hafi verið systursonur Jóns en það er óvíst. Afkomendur Þorleifs áttu hins vegar jörðina í hátt í 500 ár.

Solveig Þorleifsdóttir eignaðist jörðina eftir Þorleif og bjó þar með manni sínum, Ormi Loftssyni hirðstjóra, en þau slitu samvistir. Seinna bjó þar Jón Sigmundsson lögmaður, sonur Solveigar, og hélt hann jörðinni þótt hann missti ýmsar aðrar eigur sínar í hendur kirkjunni. Bróðir Jóns, Ásgrímur, lét lífið í bardaga í kirkjugarðinum í Víðidalstungu 1483 og snerist Morðbréfamálið að hluta um lát hans. Dóttursonur Jóns, Þorlákur Hallgrímsson, faðir Guðbrandar biskups, var prestur í Víðidalstungu um 1571 og síðar bjuggu afkomendur Guðbrandar þar.

Þekktastur Víðidalstungubænda er án efa Páll Vídalín lögmaður, sem fæddist þar 1667 og bjó þar til dauðadags 1727. Hann var einn helsti valdsmaður landsins á sinni tíð og samdi með Árna Magnússyni Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Afkomendur hans nefnast Vídalínsætt. Hélst jörðin í eigu ættarinnar þar til skömmu fyrir aldamótin 1900.

Tengt efni

breyta

Víðidalstungukirkja er timburkirkja, byggð 1889. Þar er altaristafla eftir Ásgrím Jónsson listmálara.

Heimild

breyta

„Aldargamalt guðshús í Víðidal. Dagur, 15. des. 1989“.