Stykkishólmur

bær á Vesturlandi

65°04.28′N 22°43.65′V / 65.07133°N 22.72750°V / 65.07133; -22.72750

Stykkishólmur

Stykkishólmur er bær í Sveitarfélaginu Stykkishólmi við Breiðafjörð á norðanverðu Snæfellsnesi. Stykkishólmur er yst á Þórsnesi og norðan við Nesvog. Stykkishólmur er stærsti þéttbýliskjarninn á Snæfellsnesi með rúmlega 1200 íbúa árið 2023. Bæjarbúar í Stykkishólmi eru í daglegu tali nefndir Hólmarar.

Sjávarútvegur hefur verið einn helsti atvinnuvegurinn í Stykkishólmi og bærinn er þekktur fyrir skelveiðar með plógum, en meira er orðið um ferðaþjónustu og annan þjónustuiðnað. Stykkishólmur sameinaðist Helgafellssveit 26. mars 2022.[1]

Höfn er mjög góð frá náttúrunnar hendi í Stykkishólmi og fyrir utan innsiglinguna ver þverhnípt Súgandisey hana ágangi. Stórskipabryggja var byggð út í Stykkið, hólmann sem kaupstaðurinn dregur nafn sitt af, árið 1907. Margvíslegar hafnarbætur hafa átt sér stað síðan og var dráttarbraut fyrir allt að 100 lesta báta byggð í Stykkishólmi árið 1941 og svo önnur fyrir 400 lesta báta á árunum 1963-1967. Frá Stykkishólmi gengur Breiðafjarðarferjan Baldur yfir Breiðafjörðinn að Flatey og Brjánslæk á sunnanverðum Vestfjörðum.

Verslunar- og byggðasaga

breyta

Bærinn hefur frá 19. öld verið miðstöð verslunar og þjónustu fyrir Breiðafjörð og nærliggjandi svæði. Elstu heimildir um verslun í Stykkishólmi eru frá 1597 þegar Þjóðverji að nafni Carsten Bache fékk leyfi til verslunar þar. Um það leyti var einnig verslun í Búðarnesi, en hún lagðist af þremur árum síðar. Síðan þá hefur verið verslun óslitið í Stykkishólmi.

Verslun í Stykkishólmi var einokunarverslun allt til 1794 þegar Jón Kolbeinsson (1765-1836) frá Flatey hóf þar verslun fyrstur innlendra manna. Ólafur Thorlacius keypti svo verslun Didriks Hölter einokunarkaupmanns, ásamt versluninni í Búðarnesi árið 1806 og tók sonur hans, Árni Thorlacius við henni árið 1827. Árni hóf útgerð þilskipa árið 1827 og mun hann hafa fyrstur Íslendinga á seinni öldum orðið til að stýra skipi yfir Atlantshaf. Fleiri komu svo fljótlega í kjölfarið með tilheyrandi fólksfjölgun á staðnum. Eftir 1865 dró úr útgerð frá Stykkishólmi sökum skipstapa og mannskaða og fjárhagsörðugleika þeim tengdum, en um 1890 tók útgerðin aftur við sér. Í millitíðinni hafði Árni Thorlacius hætt verslun sinni árið 1837 og útgerð árið 1845 og gerst þess í stað umboðsmaður Stapa- og Skógarstrandarumboðs um leið og hann rak búskap á jörðum sínum.

Árni Thorlacius reisti stórt timburhús í Stykkishólmi 1828, Norska húsið, sem stendur þar enn. Þetta fyrsta tvílyfta og um tíma stærsta íbúðarhús sem reist var hérlendis, hlaut nafn sitt af því að allur efniviður í það var sóttur tilhöggvinn til Noregs. Húsið var gert upp og fært í upprunalegt horf á árunum 1972-1987 og er þar nú Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla.

Skóli var reistur í Stykkishólmi árið 1896, iðnskóli 1952 og tónlistarskóli stofnaður þar 1959. Sýslumaður Snæfellinga og Hnappdæla sat í Stykkishólmi frá ofanverðri 18. öld og læknir líka. Nú er sýslumaður Vesturlands með aðalskrifstofu í Stykkishólmi. Árið 1936 tók þar til starfa sjúkrahús sem reist var og rekið af reglu heilags Frans sem einnig heldur þar klaustur og rekur barnaheimili. Amtsbókasafn Vesturamtsins var stofnað í Stykkishólmi árið 1847 og nýtt bókasafnshús var opnað 1960. Þar hefur verið veðurathugunarstöð frá árinu 1845 og er það sú elsta á landinu. Næst stærsta vatnsrennibraut Íslands er í Stykkishólmi í Sundlaug Stykkishólms sem var vígð árið 1954.

Stykkishólmur breyttist úr kauptúni í bæjarfélag árið 1987.

 
Víðmynd.

Menning

breyta

Í Stykkishólmi er Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla í Norska húsinu. Þar eru líka Vatnasafnið, innsetningarverk eftir Roni Horn, og Æðarsetur Íslands.[2]

Bæjarhátíð Stykkishólms heitir „Danskir dagar“ og hefur verið haldin frá 1994. Hátíðin dregur nafn sitt af því að bærinn þótti svo danskur að Hólmarar voru sagðir tala dönsku á sunnudögum.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. „Sameining Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar samþykkt í afgerandi kosningu“. Skessuhorn.
  2. „Menning“. Visit Stykkishólmur. Sótt 17.6.2023.
  3. Kristján Sigurðsson (1994, 13.7.). „Danskir dagar í Stykkishólmi“. DV (156): 17.

Heimildir

breyta
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, S-T. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.

Tenglar

breyta