Gleði (fleirtalan er gleðir) var ákveðin tegund af veislum sem haldnar voru á Íslandi frá miðöldum og fram á 18. öld, oft um jól. Voru gleðirnar stundum kallaðar vikivakar, eftir samnefndum dansi sem þar var gjarnan stiginn.

Vanalegast fóru gleðir þannig fram, að höfðingjar buðu öðrum höfðingjum og sveitungum sínum heim, og veittu ótæpilega af mat og (áfengum) drykk. Gleðir gátu staðið dögum saman. Yfirvöld fengu snemma ímugust á þeim, þar sem þeim fylgdi ekki bara drykkjuskapur heldur einnig kynferðislegt lauslæti. Oft kom fjöldi óskilgetinna barna undir í einni og sömu gleðinni, með tilheyrandi vandræðum. Frægasta gleði sem haldin var var líklega sú sem kennd var við bæinn Jörfa í Haukadal. Gleðir þessar voru bannaðar með dómi á 18. öld. Þær síðustu hélt sýslumaðurinn Bjarni Halldórsson á Þingeyrum á jólum 1755, 1756 og 1757.

Það er gleði af þessu tagi sem átt er við þegar sungið er „Hinstu nótt um heilög jól höldum álfagleði“ - það er að segja, álfaveislu.

  Þessi menningargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.