Austur-Húnavatnssýsla
Austur-Húnavatnssýsla var ein af sýslum Íslands. Sýslur eru ekki lengur stjórnsýslueiningar á Íslandi, en nafnið er enn notað til að vísa til svæðisins.
Austur-Húnavatnssýsla er á Norðurlandi, milli Vestur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu en þar að auki á hún mörk að Mýrasýslu og Árnessýslu. Sýslan liggur fyrir botni Húnaflóa og er alls um 4920 km². Tveir þéttbýlisstaðir eru í sýslunni; Blönduós og Skagaströnd. Sýslunnar var fyrst getið, svo vitað sé, árið 1552. Saman eru sýslurnar, Austur- og Vestur-Húnavatnssýsla, oft nefndar Húnaþing.
Nafn sýslunnar
breytaÍ Landnámabók segir frá því þegar Ingimundur gamli, landnámsmaður í Vatnsdal, sá birnu með tvo húna við Húnavatn i Austur-Húnavatnssýslu:
- Ingimundur fann beru og húna tvo hvíta á Húnavatni.
Fékk vatnið nafn af húnunum og síðan sýslan nafn af vatninu. [1]
Náttúrufar
breytaAustur-Húnavatnssýsla liggur fyrir botni Húnafjarðar, inn af Húnaflóa, og upp af honum liggja láglendar sveitir. Upp af þessum sveitum ganga svo dalir á borð við Vatnsdal, Langadal, Svínadal, Blöndudal sem og Svartárdal. Upp af Húnafirði eru nokkur vötn; stærst þeirra eru Hópið, Flóðið, Húnavatn og Svínavatn. Upp af láglendum sveitunum ganga víðáttumikil heiðalönd á borð við Grímstunguheiði, Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði.
Nokkrar af þekktustu ám landsins setja mark sitt á sýsluna og eru það helstar Blanda, Laxá á Ásum og Laxá í Refasveit, sem og Vatnsdalsá.
Á Skagaströnd er undirlendi meðfram sjó á um 2-4 km breiðri ræmu. Er sú sveit grösug og gróin. Á Skaga eru einnig ýmsir dalir; mestur þeirra er Laxárdalur en um hann liggur þjóðvegurinn um Þverárfjall.
Berggrunnurinn í Austur-Húnavatnssýslu myndaðist á tertíertíma fyrir um 6-8 milljón árum síðan. Það einkennist af blágrýti og halla berglögin alla jafna til vestur - þó eru nokkur stór misgengi s.s. um Langadalsfjall og Blöndudal. Fjórar megineldstöðvar eru þekktar innan sýslunnar; eru þær í Víðidalsfjalli, Vatndals- og Svínadalsfjalli, Laxárdalsfjöllum á Skaga og fyrir botni Blöndudals. Á þessum stöðvum er að finna líparít. Inn til heiða og á Skaga eru víða grágrýtismyndanir frá miðhluta ísaldar fyrir 1-2 milljón árum síðan.
Sýslan er öll gróðursæl þó þar sé engvir skógarnir. Á Skaga ber gróðurinn þess vitni að vera á útkjálka enda er hann opinn fyrir köldum hafáttum. Upp af sveitunum eru heiðarlöndin víðáttumikil með brokmýrar, moseþembur og flóa. Gróið land innan sýslumarka er talið vera alls um 1384 km² eða 28% af flatarmáli hennar. Vegna þessara gróðurskilyrða er sýslan mikið landbúnaðarhérað.
Á Skagaströnd er mikið útræði en slíkt var einnig í Kálfshamarsvík framan af síðustu öld en það lagðist af milli 1930 og 1940. Þar var reistur viti fyrst árið 1913 og síðar endurreistur árið 1939.
Stjórnsýsla
breytaAustur- og Vestur-Húnavatnssýslur eru eitt sýslumannsumdæmi og situr sýslumaður á Blönduósi en hefur útibú á Hvammstanga. Þá eru báðar Húnavatnssýslur og Strandasýsla eitt prófastsdæmi. Prestaköllin eru:
- Þingeyraklaustursprestakall; með kirkjustöðunum Þingeyrum, Undirfelli og Blönduósi.
- Bólstaðarhlíðarprestakall; með kirkjum í Bólstaðarhlíð, á Bergsstöðum, Auðkúlu, Svínavatni og Holtastöðum.
- Höfðakaupstaðarprestakall; með kirkjustöðunum Höskuldsstöðum, Hólanesi á Skagaströnd og á Hofi.
Sveitarfélög
breytaEftirfarandi sveitarfélög eru í sýslunni (fyrrverandi innan sviga):