Konunglegi breski sjóherinn

(Endurbeint frá Breski flotinn)

Konunglegi breski sjóherinn (enska Royal Navy) er elsta herdeildin innan Breska hersins. Flotinn er úthafsherfloti og annar stærsti sjóher innan NATO mældur í smálestum. Árið 2010 voru 88 herskip skráð sem hluti af sjóhernum, þar á meðal flugmóðurskip, þyrlumóðurskip, landgönguskip, flugskeytakafbátar, kjarnorkukafbátar, stýriflaugatundurspillar, freigátur og minni skip og bátar. Í apríl 2009 taldi sjóherinn 39.100 manns þar af 7.500 konunglega landgönguliða. Sjóherinn er hluti af Bresku flotaþjónustunni (Naval Service) sem telur líka Konunglega landgönguliðið og varalið sjóhersins.

Árekstur milli varðskipsins Óðins og freigátu breska sjóhersins HMS Scylla í Þorskastríðunum.

Breski sjóherinn var öflugasti herfloti heims frá því snemma á 18. öld fram yfir miðja 20. öld og lék lykilhlutverk í því að gera Bretlandstórveldi á 19. öld. Í Síðari heimsstyrjöld taldi flotinn 900 skip og á tímum Kalda stríðsins var honum að mestu breytt í kafbátaleitarflota.

Upphaflega stofnun fastaflota með sérstökum skrifstofum, skipasmíðastöðvum og slippum, má rekja til Hinriks 8. á 16. öld en formlega skipulegur sjóher varð fyrst til á tímum Enska samveldisins um og eftir miðja 17. öld sem afleiðing af stríðum Englendinga og Hollendinga sem þá voru eitt mesta sjóveldi Evrópu og kepptu við Englendinga um nýlendur í Ameríku. Formleg stofnun núverandi sjóhers átti sér stað um leið og Karl 2. Englandskonungur tók við stjórnartaumunum 1660.

Tenglar

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.