Wallis Simpson, hertogaynja af Windsor (fædd undir nafninu Bessie Wallis Warfield; 19. júní 1896 – 24. apríl 1986) var bandarísk yfirstéttarkona sem varð fræg á fjórða áratugi 20. aldar vegna ástarsambands síns við breska krúnuarfann Játvarð prins. Simpson var ekki álitin ákjósanlegt kvonfang fyrir Játvarð þar sem hún var tvífráskilin þegar þau tóku saman og var talin ólíkleg til að geta fætt honum erfingja.

Wallis Simpson
Wallis Simpson árið 1934.
Fædd19. júní 1896
Dáin24. apríl 1986 (89 ára)
MakiEarl Winfield Spencer Jr. (g. 1916; skilin 1927)
Ernest Aldrich Simpson (g. 1928; skilin 1937)
Játvarður prins, hertogi af Windsor (g. 1937; d. 1972)
ForeldrarTeackle Wallis Warfield og Alice Montague

Þegar Játvarður varð konungur Bretlands árið 1936 lýsti hann yfir vilja til að kvænast Wallis og taka hana fyrir drottningu, en andstaða ríkisstjórnarinnar við þennan ráðahag var slík að Játvarður ákvað að afsala sér krúnunni frekar en að valda stjórnarkreppu með hjónabandinu. Wallis og Játvarður giftust árið 1937 og voru titluð hertogahjón af Windsor til æviloka. Samband þeirra við bresku konungsfjölskylduna var ætíð stirt og þau bjuggu lengst af í útskúfun frá bresku hirðinni í París.

Æviágrip

breyta

Bessie Wallis Warfield fæddist þann 19. júní árið 1896 í smábæ í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum og var af miðstéttarættum frá bandarísku suðurríkjunum. Árið 1916 giftist hún sjóliðsforingja að nafni Earl Winfield Spencer yngri en skildi við hann tíu árum síðar.[1]

Árið 1928 giftist Wallis öðrum eiginmanni sínum, Ernest Aldrich Simpson frá New York. Stuttu síðar fluttu hjónin til Bretlands, þar sem Ernest vann við skipaútgerð, og gerðust bæði breskir ríkisborgarar. Þau tóku virkan þátt í samkvæmislífi bresku yfirstéttarinnar og voru kynnt við bresku hirðina árið 1931.[1]

Wallis kynntist Játvarði prinsi af Wales, erfingjanum að bresku krúnunni, árið 1931 í bænum Melton Mowbray á Englandi. Þar gisti hún í sama húsi og Játvarður, sem var þar á dýraveiðum ásamt yngri bróður sínum, Georg.[2] Talið er að Wallis hafi orðið ástkona prinsins árið 1934 en Játvarður hélt sambandi þeirra ætíð leyndu fyrir föður sínum, Georg 5. Bretlandskonungi. Eftir að Georg 5. lést árið 1936 og Játvarður varð konungur var samband þeirra hins vegar gert opinbert og varð strax mjög umdeilt þar sem Wallis var þá að ganga frá skilnaði sínum við eiginmann sinn, Ernest Simpson.[1]

Þann 16. nóvember árið 1936 kallaði Játvarður Stanley Baldwin forsætisráðherra á sinn fund og greindi honum frá því að hann hygðist ganga að eiga Wallis sem konu sína og þar með gera hana að drottningu Bretlands. Þetta tók Baldwin ekki í mál þar sem Wallis var tvífráskilin og reglur ensku biskupakirkjunnar leyfðu fráskildu fólki ekki að giftast á ný ef fyrri maki þeirra var enn á lífi. Játvarði var gert ljóst að ef hann gengi að eiga Wallis myndi breska ríkisstjórnin segja af sér og þannig gera hann, sem átti að vera ópólitískur þjóðhöfðingi, ábyrgan fyrir stjórnarslitum. Að endingu ákvað Játvarður þann 10. desember 1936 að segja af sér konungdómi svo hann gæti gifst Wallis og eftirlét þannig krúnuna yngri bróður sínum, Georg.[3]

Eftir afsögn sína kvæntist Játvarður Wallis við látlausa athöfn í Suður-Frakklandi þann 3. júní árið 1937. Georg 6., nýi konungurinn, ánafnaði þeim titilinn hertogahjón af Windsor. Wallis var hins vegar meinað að nota nafnbótina „Hennar konunglega hátign“ (enska: Her royal highness) eins og hirðreglur hefðu annars gert ráð fyrir og hertogahjónin litu lengi á þetta sem svívirðingu í hennar garð. Hertogahjónin áttu eftir að búa í Frakklandi mestalla ævi sína.[4]

Samband hertogahjónanna við konungsfjölskylduna í Bretlandi var slæmt og eiginkona Georgs 6., Elísabet drottning, lagði sér í lagi fæð á Wallis. Elísabet taldi að Wallis hefði með sambandi sínu við Játvarð þröngvað Georg til að taka á sig skyldur konungsembættisins þvert gegn vilja sínum og þannig stuðlað að því að Georg lést fyrir aldur fram árið 1952. Sagt er að Elísabet hafi í kjölfarið kallað Wallis „konuna sem drap manninn minn“. Svilkonurnar birtust saman við útför Játvarðar árið 1972 en talið er að þær hafi aldrei sæst að fullu.[5]

Snemma á sjötta áratugnum fluttu hertogahjónin inn í glæsivillu í eigu frönsku ríkisstjórnarinnar á götunni 4 route du Champ d'Entraînement við Bois du Boulogne í útjaðri Parísar. Eftir lát Játvarðar árið 1972 gaf Wallis verðmætustu 18. aldar-húsgögnin úr búi þeirra til Versalahallar í þakkarskyni við frönsku ríkisstjórnina. Eftir að Wallis lést árið 1986 arfleiddi hún Pasteur-stofnunina að öðrum eigum þeirra Játvarðar svo hægt yrði að nota andvirði þeirra til að fjármagna læknavísindi.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 „Ástarævintýri aldarinnar“. Morgunblaðið. 5. ágúst 1979. Sótt 7. september 2019.
  2. „Wallis Simpson – hertogafrú af Windsor“. Nýtt kvennablað. 1. mars 1958. Sótt 7. september 2019.
  3. „Þegar Játvarður VIII missti krúnuna: Fyrsti hluti“. Lesbók Morgunblaðsins. 12. júní 1966. Sótt 7. september 2019.
  4. 4,0 4,1 „„Fór með Wallis til að líta á hatt!". Morgunblaðið. 1. mars 1998. Sótt 7. september 2019.
  5. „Konungleg illindi“. Vikan. 20. febrúar 1986. Sótt 7. september 2019.