Sidney Poitier
Sidney Poitier (20. febrúar 1927 – 6. janúar 2022) var bahamsk-bandarískur leikari, leikstjóri og sendiherra. Poitier varð árið 1963 fyrstur svartra karlmanna til að vinna Óskarsverðlaun sem besti leikarinn, en hann vann fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Liljur vallarins (e. Lilies of the Field).
Sidney Poitier | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fæddur | 20. febrúar 1927 Miami, Flórída, Bandaríkjunum |
Dáinn | 6. janúar 2022 (94 ára) Los Angeles, Kaliforníu, Bandaríkjunum |
Ár virkur | 1946–2009 |
Maki | Juanita Hardy (g. 1950; sk. 1965) Joanna Shimkus (g. 1976) |
Börn | 6 |
Helstu hlutverk | |
Noah Cullen í The Defiant Ones (1958) Homer Smith í Lilies of the Field (1963) Virgil Tibbs í In the Heat of the Night (1967) | |
Óskarsverðlaun | |
Besti karlleikari í aðalhlutverki fyrir Lilies of the Field (1963) Heiðursverðlaun fyrir framlög til bandarískrar kvikmyndagerðar (2001) | |
Grammy-verðlaun | |
Besta skífa í óbundnu máli fyrir The Measure Of A Man (2000) |
Æviágrip
breytaSidney Poitier fæddist í Miami í Flórída árið 1927 og var sonur innflytjenda frá Bahamaeyjum. Faðir hans var eigandi tóbaksræktunarbúgarðs í Nassá. Sidney Poitier gekk í skóla í Nassá en flutti aftur til Miami þegar hann var fimmtán ára gamall. Hann flutti þaðan til New York-borgar og vann þar sem uppvaskari.[1]
Þegar Poitier var sautján ára gamall laug hann um aldur sinn og skráði sig í landgöngulið Bandaríkjahers. Hann gegndi tveggja ára þjónustu í hernum en tók síðan að sér ýmis borgaraleg störf, meðal annars sem öryggisvörður á bílastæðum, byggingarverkamaður, vörubílstjóri og hafnarverkamaður. Eftir þessi störf ákvað Poitier að svara auglýsingu eftir leikara hjá blökkumannaleikfélaginu American Negro Theater í New York en eftir prufur var honum hafnað þar sem hann talaði með Kyrrahafseyjahreim sem var New York-búum illskiljanlegur.[1]
Á næstu árum vann Poitier að því að losna við bahamska hreiminn með því að hlusta á útvarp og endurtaka það sem sagt var. Hann var á endanum ráðinn sem dyravörður og sviðsmaður hjá American Negro Theater en hann vann sig fljótt upp í að leika aukahlutverk í sýningum leikhússins og fór síðan að taka að sér aðalhlutverk. Árið 1948 birtist Poitier í aðalhlutverki á Broadway í uppsetningu á Lýsiströtu.[1]
Poitier birtist árið 1950 í fyrstu kvikmynd sinni, No Way Out. Hann varð á næstu árum fyrstur bandarískra blökkumanna til að hasla sér völl sem eiginleg kvikmyndastjarna, en svartir leikarar höfðu áður aðallega birst í aukahlutverkum sem undirsátar hvítra aðalleikara.[1] Allt fram á áttunda áratuginn var Poitier svo til eini blökkumaðurinn sem hlaut aðalhlutverk sem leikari í Hollywood-kvikmyndum. Ímynd Poitiers í þessum myndum var gjarnan sem friðelskandi og geðþekk persóna sem fórnar sjálfum sér í þágu hvítra og leiðir hjá sér kynþáttafordóma þeirra í sinn garð.[2]
Árið 1963 birtist Poitier í kvikmyndinni Liljur vallarins (e. Lilies of the Field) sem Homer Smith, þúsundþjalasmiður sem fellst á að hjálpa fimm nunnum sem hafa flúið frá Austur-Þýskalandi að byggja kapellu í eyðimörkinni í Arizona. Með hlutverki sínu í myndinni hlaut Poitier Óskarsverðlaun sem besti karlleikari í aðalhlutverki og varð þar með fyrstur svartra leikara til að vinna verðlaun í þessum flokki.[1] Árið 1968 mældist Poitier vinsælasti leikari Bandaríkjanna í skoðanakönnun Gallup.[3]
Í byrjun áttunda áratugarins flutti Poitier til Bahamaeyja, þar sem hann kom sér upp glæsiheimili í Nassá. Hann hafði þá nýlega skilið við fyrstu eiginkonu sína, Juanitu Hardy, sem hann hafði kynnst þegar hún vann sem dansari í leikhúsinu í New York.[4]
Poitier var virkur sem leikari fram á efri ár. Eftir að hann hætti að birtast í kvikmyndum vann hann sem sendiherra Bahamaeyja í Japan frá 1997 til 2007.[5] Poitier lést þann 6. janúar 2022, þá 94 ára að aldri.[6]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Sidney Poitier – fyrsti blökkumaðurinn sem varð kvikmyndastjarna í Hollywood“. Vísir. 16. maí 1975. bls. 19.
- ↑ Jón Hjaltason (4. febrúar 1989). „Blökkumenn og hvíta tjaldið“. Dagur. bls. 11.
- ↑ „Sidney Poitier“. Alþýðublaðið. 26. júní 1968. bls. 8.
- ↑ „Heimsfrægur og auðugur – en svartur og einmana“. Tíminn. 10. september 1970. bls. 8; 12.
- ↑ Samúel Karl Ólason (7. janúar 2022). „Stórleikarinn Sidney Poitier er dáinn“. Vísir. Sótt 9. janúar 2022.
- ↑ „Sidney Poitier er látinn“. mbl.is. 7. janúar 2022. Sótt 8. janúar 2022.