Hermann Göring
Hermann Wilhelm Göring (12. janúar 1893 – 15. október 1946) var yfirmaður flughers nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Hann var dæmdur fyrir glæpi gegn mannkyninu í Nürnberg-réttarhöldunum að stríðinu loknu en framdi sjálfsmorð rétt áður en dauðadómi yfir honum yrði framfylgt.
Hermann Göring | |
---|---|
Forseti þýska ríkisþingsins | |
Í embætti 30. ágúst 1932 – 23. apríl 1945 | |
Forveri | Paul Löbe |
Eftirmaður | Embætti lagt niður |
Flugmálaráðherra Þýskalands | |
Í embætti 27. apríl 1933 – 23. apríl 1945 | |
Kanslari | Adolf Hitler |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Robert Ritter von Greim |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 12. janúar 1893 Rosenheim, þýska keisaradæminu |
Látinn | 15. október 1946 (53 ára) Nürnberg, Þýskalandi |
Dánarorsök | Sjálfsmorð með blásýrupillu |
Stjórnmálaflokkur | Nasistaflokkurinn |
Maki | Carin von Kantzow (1923–31) Emmy Sonnemann (1935–46) |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Börn | Edda |
Háskóli | Ludwig-Maximilian-háskóli |
Starf | Herflugmaður, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaYngri ár og fyrri heimsstyrjöldin
breytaHermann Göring var fæddur í Rosenheim í Bæjaralandi 12. janúar 1893.[1] Ellefu ára að aldri var hann sendur í heimavistarskóla en skólavistin varð endaslepp. Hann fékk snemma áhuga á hermennsku og leikir hans voru mestan part stríðsleikir. Sextán ára hóf hann nám í herskóla og lauk námi með láði. Hann hóf síðan þjónustu í fótgönguliði prússneska hersins árið 1912.
Í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar var Göring í fótgönguliði hersins en síðari hluta stríðsins var hann í flughernum.[2] Hann gat sér gott orð, varð reyndar annálaður flugkappi og stríðshetja, sem skaut niður allt að 22 óvinaflugvélar. Hann var sæmdur virðulegum heiðursmerkjum og undir lok stríðsins var hann yfirmaður flugsveitarinnar sem rauði baróninn, Manfred von Richthofen, hafði áður stýrt.[1] Eftir uppgjöf Þjóðverja 1918 héldu margir því fram að þýski herinn væri ósigraður en borgaraleg yfirvöld hefðu setið á svikráðum og talað var um rýtingsstungu í bakið. Göring aðhylltist eindregið þessa skoðun.
Upphaf stjórnmálaferils
breytaEftir lok heimsstyrjaldarinnar fyrri starfaði Göring áfram sem flugmaður. Hann gekk í flokk nasista í október 1922 eftir að hafa hlustað á Adolf Hitler flytja ræðu. Það var sannkallaður hvalreki fyrir óburðugan flokk þegar víðfræg stríðshetja bættist í hópinn. Hitler skipaði Göring yfirmann SA sveitanna, brúnstakkanna, í desember 1922. Göring tók þátt í bjórkjallarauppreisninni í München árið 1923, fékk skot í nárann og særðist alvarlega en hann hafði áður fengið skot í mjöðm í loftbardaga. Eftir ósigur uppreisnarmanna flúði hann land[3] og varð háður morfíni þegar sár hans var meðhöndlað. Hann sneri heim til Þýskalands á ný eftir almenna sakaruppgjöf 1927 og tók sæti á Ríkisþinginu ári síðar. Næstu árin vann Göring ötullega að því að ryðja Hitler brautina til valda. Í því skyni notfærði hann sér kunningsskap við ýmsa hægrimenn og áhrifamenn í her og viðskiptalífi. Eftir kosningar 1932 varð Göring forseti Ríkisþingsins og þegar Hitler varð kanslari 1933 varð Göring yfirmaður Gestapo og fjölmörg önnur embætti féllu honum í skaut.
Þinghúsbruninn
breytaÞann 27. febrúar 1933, skömmu fyrir kosningar til ríkisþingsins, kom upp eldur í þinghúsinu í Berlin. Eldurinn breiddist út með ótrúlegum hraða og þinghúsið skemmdist mjög mikið. Ummerki í rústunum sýndu svo ekki varð um villst að kveikt hafði verið í húsinu. Nasistar brugðust hart við og námu úr gildi ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar varðandi frelsi og öryggi borgaranna. Þeir kenndu kommúnistum um brunann, handtóku vinstri menn hópum saman og notuðu brunann óspart í áróðursskyni. Í framhaldinu voru fimm menn ákærðir fyrir brunann þar á meðal búlgarski kommúnistinn, Georgi Dimitrov. Göring bjó skammt frá þinghúsinu og var meðal fyrstu manna á vettvang brunans. Þegar Göring bar vitni við réttarhöld í kjölfar eldsvoðans tókst Dimitrov að sauma svo að honum að Göring missti stjórn á skapi sínu og varð sér til minnkunar. Raunar töldu ýmsir að nasistar hefðu sjálfir kveikt í húsinu til þess að fá ástæðu til að herða tök stjórnarinnar og verða sér úti um vopn í áróðursstríðinu sem fram fór vegna komandi kosninga. Við stríðsglæparéttarhöldin í Nürnberg 1946 bar hershöfðinginn Franz Halder vitni og sagði m.a. að í hádegisverði á afmæli foringjans 1943 hefði þinghúsbruninn borist í tal. Göring hefði blandað sér í samræðurnar og sagt: „Sá eini, sem veit um þetta, er ég því ég kveikti eldinn.“[4] Og Göring sló sér á lær. Við réttarhöldin neitaði Göring þessu afdráttarlaust.
Tökin hert
breytaSem stofnandi Gestapo[5] (hann lét af starfi yfirmanns Gestapo árið 1934 ) kom Göring við sögu stofnunar fyrstu fangabúðanna þar sem pólitískir andstæðingar nasista voru vistaðir. Undir því yfirskini að valdarán kommúnista væri yfirvofandi var fjölda lögreglustjóra og lögregluþjóna sagt upp störfum og félagar í SA og SS ráðnir í þeirra stað. Síðustu leifar almennra borgararéttinda voru afnumdar, andstæðingar nasista voru hundeltir og handteknir og bönnuð var útgáfa þeirra blaða, sem nasistar litu hornauga. Göring átti drjúgan þátt í aðgerðum um „Nótt hinna löngu hnífa“ 30. júní 1934 þar sem fjölmargir SA menn voru sallaðir niður auk nokkurra andstæðinga nasista. Göring varð yfirmaður flughersins 1. mars 1935. Smíði herflugvéla var þá hafin í stórum stíl með tilheyrandi þjálfun flugmanna. Ári síðar var Göring falin yfirumsjón fjögurra ára áætlunar um uppbyggingu efnahagslífsins og var nánast einráður á því sviði. Á árinu 1938 hönnuðu Göring og Heinrich Himmler atburðarás sem var til þess ætluð að bola tveimur æðstu mönnum hersins frá störfum. Sú áætlun gekk upp en brotthvarf þessara hershöfðingja treysti mjög tök nasista á hernum.
Lífsstíll
breytaGöring nýtti aðstöðu sína til að lifa í munaði.[6] Hann bjó í stórhýsi í Berlin og reisti veglegt sveitasetur, sem hann kallaði Karinhall eftir fyrri eiginkonu sinni sem lést árið 1931. Frá Karinhall gerði Göring út veiðileiðangra og þar hélt hann íburðarmiklar veislur. Hann var stórtækur safnari listaverka en mörg þeirra höfðu verið tekin af ofsóttum gyðingum án endurgjalds.[7] Göring átti fjölda einkennisbúninga sem hæfðu hinum margvíslegu vegtyllum hans og orður og skartgripir voru hans ær og kýr.[8] Hann naut töluverðrar hylli á 4. áratugnum en hann þótti viðfelldnari en flestir aðrir nasistaforingjar. Albert Speer þótti Göring spilltasti foringi nasistanna vegna þess hvernig hann misnotaði aðstöðu sína til að skara eld að eigin köku.[6]
Heimsstyrjöldin síðari
breytaGöring var útnefndur staðgengill Hitlers 1. september 1939, sama dag og Þjóðverjar gerðu innrás í Pólland. Hitler veitti Göring titil ríkismarskálks árið 1940 og setti hann þar með skör hærra en aðra hermarskálka. Flugher Görings átti drjúgan þátt í sigrum í Póllandi og Frakklandi en hann tapaði orrustunni um Bretland. Gengi flughersins var líka dapurt á austurvígstöðvunum og honum mistókst hrapalega að hindra loftárásir bandamanna á Þýskaland. Hitler kenndi Göring um ófarir Þjóðverja og vegur hins síðarnefnda fór hratt minnkandi eftir því sem leið á stríðið. Joseph Goebbels og Himmler uxu honum yfir höfuð hvað varðaði áhrif við hirð Hitlers og þar með stjórn landsins. Þegar Hitler ákvað að yfirgefa ekki Berlin í stríðslok, óskaði Göring eftir því að taka strax við völdum því Berlin væri að falla í óvinahendur. Hitler brást ókvæða við og svipti Göring öllum vegtyllum, rak hann úr nasistaflokknum og fyrirskipaði handtöku hans.
Réttarhöld og dómur
breytaBandarískur herflokkur handtók Göring 9. maí 1945 og hann var í hópi sakborninga við stríðsglæparéttarhöld sem hófust í Nürnberg í nóvember 1945 og lauk með dómsuppkvaðningu 1. október 1946. Göring virtist kominn í betra form, hafði grennst og ávanabindandi lyf höfðu verið tekin af honum. Hann varði sig kröftuglega af fimi og bar sig mannalega enda var hann sá sakborninga sem mesta athygli vakti. Dómararnir fundu hann sekan um öll ákæruatriðin og dæmdu hann í gálgann.[3] Þann 15. október 1946, um það bil tveimur klukkustundum áður en taka átti hann af lífi, tók Göring eitur í klefa sínum og lést samstundis að kalla.
Fjölskylda
breytaFyrri eiginkona Görings var Carin von Kantzov (1888 - 1931 ). Hún var sænsk og þau giftu sig árið 1923. Síðari eiginkona Görings var þýsk leikkona Emmy Sonnemann ( 1893 - 1973 ). Þau giftu sig árið 1935 og áttu dótturina Eddu sem fæddist árið 1938. Edda Göring lést 21. desember 2018.
Umfjöllun
breytaGöring kemur mjög víða við sögu í ótal bókum, greinum og annarri umfjöllun um nasistatímann og stríðsárin 1939 - 1945. Nokkrir fræðimenn hafa ritað um ævi hans.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Um Þýzkaland“. Elding. 1. júní 1934. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ „Erfingi Hitlers“. Vikan. 13. nóvember 1941. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ 3,0 3,1 „„Faðir minn Hermann Göring"“. Tíminn. 13. nóvember 1986. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ Shirer, William (1959). The Rise and Fall of the Third Reich. New York: Touchstone. bls. 193.
- ↑ „Hvað var Gestapo og hvað gerðu menn þar?“. Vísindavefurinn.
- ↑ 6,0 6,1 „Albert Speer: 15 heiðarleg svör við 15 beinskeyttum spurningum“. Alþýðublaðið. 7. júlí 1971. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ „Nazistar rændu listaverkum í stríðinu“. Heimilistíminn. 13. júlí 1980. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ „Hver tekur við?“. Fálkinn. 18. júní 1938. Sótt 3. júní 2018.
Heimildir
breyta- Manvell, Roger og Fraenkel, Heinrich: Göring. London: Nel Mentor, 1968
- Shirer, William L.:The Rise and Fall of the Third Reich. London: Pan Books, 1964
- Wistrich, Robert S. : Who´s Who in Nazi Germany. New York: Routledge, 2002