Panamaskjölin eru gögn sem lekið var í apríl 2016. Þau eru talin vera einn stærsti gagnaleki sögunnar; um 11 millj­ón tals­ins. Þeim var lekið frá lög­fræðistof­unni Mossack Fon­seca sem staðsett er í Panama. Mossack Fonseca er eitt viðamesta fyrirtækið í heimi aflandseyja, leynireikninga og skattaskjóla. Í skjöl­un­um koma við sögu 72 nú­ver­andi og fyrr­ver­andi þjóðarleiðtog­ar, en skjöl­in sýna m.a. hvernig Mossack Fon­seca aðstoðaði viðskipta­vini sína við pen­ingaþvott og skattaund­an­skot.[1]

Lönd viðriðin Panamaskjölin

Meðal einstaklinga sem tengjast skjölunum eru: Vladimir Putin forseti Rússlands, Muammar Gaddafi forseti Líbíu, Lionel Messi knattspyrnumaður, Michel Platini fyrrum forseti UEFA, Salman bin Abdulaziz Al Saud konungur Sádí-Arabíu, Mauricio Macri forseti Argentínu, Petró Pórósjenkó forseti Úkraínu og Nawaz Sharif forsætisráðherra Pakistans. Ýmsir fyrrum þjóðarleiðtogar eru einnig taldir upp, s.s. Sigmund Davíð Gunnlaugsson auk fleiri Íslendinga.

Gögnin

breyta

Meira en 11 milljónir skjala, tölvupósta og stofnskjala aflandsfélaga er að finna í gögnunum og meira en 214 þúsund aflandsfyrirtæki í 200 löndum og skattaskjólum víða um heim eru viðriðin.

Þáttur Íslands

breyta

Kastljós var með sérþátt um málið þann 3. apríl 2016 þar sem tekið var viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og farið ítarlega í málefni skjalanna sem viðkom Íslandi. Þátturinn var unninn í samstarfi við Reykjavík Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung(SZ). Í gögnum Mossack Fonseca hafa fundist um 800 aflandsfélög sem tengjast 600 Íslendingum. Reykjavík Media hefur við skoðun á gögnunum meðal annars fundið lánasamninga upp á milljarða króna á milli aflandsfélaga þekktra íslenskra viðskiptamanna.

Blaðamaður SZ tjáði sig um málið: „Okkur var brugðið að sjá hversu mörg aflandsfélög sem tengdust Íslandi var að finna í gögnunum því að Ísland er nú ekki stórt land en við fundum hundruð aflandsfyrirtækja sem voru í eigu Íslendinga eða höfðu sterk tengsl við landið.“ [2]

Meðal þeirra stjórnmálamanna sem tengjast skjölunum eru Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Jón Ásgeir Jóhannesson og eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir, geymdu milljarða króna í skattaskjóli í Panama. Í skjölunum er að finna mikið magn upplýsinga um viðskipti félags þeirra Guru Invest S.A. Jón Ásgeir hefur ítrekað sagt að hann eigi engar eignir í skattaskjólum.[3]

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, greindi frá því í viðtali á CNN sjónvarpsstöðinni að hann og hans fjölskylda hefði ekki tengsl við aflandsfélög. Greint var frá því í fréttum í seinni hluta apríl að fyrirtæki fjölskyldu Dorritar Moussaieff í Bretlandi, Moussaieff Jewellers, hefði tengst Tortóla-félaginu Lasca Finance.[4]

Í nóvember 2016 kom fram að skattrannsóknarstjóri hefði rannsakað og kært 57 íslenska sjómenn til héraðssaksóknara fyrir skattalagabrot tengja skjölunum. [5]

Eftirmálar á Íslandi

breyta

Í kjölfar lekans urðu mótmæli 4. apríl við Alþingishúsið þar sem talið er að 22 þúsund manns hafi mætt.[6] Mótmæli urðu næstu dagana en í minna mæli. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór á fund forseta og óskaði eftir þingrofi. Forseti neitaði þeirri beiðni. Svo fór að lokum að Sigmundur vék sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson tók við embættinu. Frekari uppstokkun ríkisstjórnarinnar varð á þá leið að Gunnar Bragi Sveinsson tók við embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Lilja Dögg Alfreðsdóttir tók við embætti utanríkisráðherra. Stjórnarandstaðan lagði fram vantrauststillögu á nýju stjórnina 8. apríl. Sú tillaga var felld.[7] Alþingiskosningum var flýtt til haustsins 2016.

Aðrir sem hafa sagt af sér:

  • Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði af sér í borgarstjórn í kjölfar lekans. Júlíus Vífill hafði látið stofna fyrir sig félagið Silwood Foundation á Panama árið 2014. Rík áhersla var lögð á að leyna eignarhaldi hans í félaginu.
  • Vilhjálmur Þorsteinsson sagði af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar þann 31. mars 2016[8] vegna umfjöllunar fjölmiðla um félagið Meson Holding í Lúxemborg. Hann neitaði því þá að eiga aflandsfélag í skattaskjóli, Meson Holding væri félag í EES-landi og sé fullskattlagt. Í Kastljósi var upplýst að Kaupþing í Lúxemborg stofnaði félagið M-Trade á Bresku jómfrúreyjum árið 2000. Eigandi M-Trade var félag Vilhjálms í Lúxemborg, Meson Holding. M-Trade hvarf úr eigu Meson Holding 2008 og var afskráð 2012.[9] Eftir að hafa sagt af sér sem gjaldkeri tók Vilhjálmur þátt í mótmælum á Austurvelli þar sem krafist var afsagnar ráðherra sem tengdust aflandsfélögum, einkum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þáverandi forsætisráðherra. Vilhjálmur var hluthafi í vefmiðlinum Kjarnanum og sagði sig úr stjórn hans í kjölfar umfjöllunar Kastljóss.
  • Hrólfur Ölvisson hætti sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins vegna umfjöllunar um aflandsviðskipti hans. Í umfjöllun um Panama-skjölin kom fram að Hrólfur hefði stofnað aflandsfélag árið 2003 til þess að leyna fjárfestingum í dönsku fyrirtæki.
  • Kristján Örn Sigurðsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins. Hann tilkynnti stjórn stjóðsins ekki um tvö aflandsfélög sem hann skráði sig fyrir. Annað var stofnað 2007 en hitt rétt eftir hrun.
  • Kári Arnór Kárason tilkynnti um að hann ætlaði að hætta sem framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs eftir að hafa verið spurður um tengsl sín við aflandsfélög af fréttamanni Kastljóss. Árið 1999 stofnaði Kaupþing í Lúxemborg aflandsfélagið Hola Holding fyrir Kára. Félagið fékk tugi milljóna króna í lán frá sama banka. Kári kveðst ekki hafa vitað um þessi umsvif félagsins. [10]

Tilvísanir

breyta
  1. Stórt högg fyr­ir „af­l­ands-heim­inn“ Mbl.is Skoðað 3. apríl, 2016.
  2. Panama-skjölin - „Af hverju Ísland“ Rúv. Skoðað 3. apríl
  3. Milljarðaslóð Jóns Ásgeirs og Ingibjargar rakin í skattaskjól Stundin. Skoðað 1. maí, 2016.
  4. Svaraði ekki frekar um tengsl við aflandsfélag Rúv. Skoðað 4. maí, 2016.
  5. 57 sjómenn í Panamaskjölunum kærðir Rúv, skoðað 18. nóv. 2016.
  6. Segja um 22 þúsund hafa mætt á Austurvöll Vísir. Skoðað 8. apríl, 2016.
  7. Vantrausti hafnað Rúv. Skoðað 8. apríl, 2016.
  8. „Vilhjálmur segir af sér hjá Samfylkingunni“. Rúv. mars 2016.
  9. „Vilhjálmur: Stjórnvöld í Lúxemborg vissu alltaf af Tortóla-félaginu“. Rúv. mars 2016.
  10. Sex hafa hætt vegna Panamaskjala Rúv. Skoðað 1. maí, 2016.

­