Íhaldsflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem var stofnaður í Reykjavík 24. febrúar 1924 af tuttugu alþingismönnum sem höfðu átt aðild að Borgaraflokknum í Alþingiskosningunum 1923. Íhaldsflokkurinn var fyrsti eiginlegi hægriflokkurinn á Íslandi, myndaður í andstöðu við Framsóknarflokkinn og Alþýðuflokkinn, og hafði á stefnuskrá sinni að lækka álögur á fyrirtæki og leggja niður og sameina ríkisfyrirtæki og stofnanir.

22. mars 1924 tókst Íhaldsflokknum að mynda ríkisstjórn með stuðningi Bjarna Jónssonar frá Vogi sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ríkisstjórn Íhaldsflokksins sat til 1927 undir þremur forsætisráðherrum: Jóni Magnússyni (sem lést frá embættinu), Magnúsi Guðmundssyni og Jóni Þorlákssyni. Í kosningunum 1927 missti flokkurinn meirihluta á þingi og Framsóknarflokkurinn myndaði ríkisstjórn með hlutleysi Alþýðuflokksins.

1929 sameinuðust svo Íhaldsmenn Frjálslyndum og mynduðu Sjálfstæðisflokkinn þar sem fyrsti formaður var Jón Þorláksson.

Aðalmálgagn Íhaldsflokksins var Morgunblaðið.

Formenn breyta

Tenglar breyta

   Þessi stjórnmálagrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.