Nottingham er borg í Nottinghamshire í Englandi með rúmlega 309 þúsund íbúa (2011). Á stórborgarsvæðinu búa um 640 þúsund manns. Nottingham varð að mikilli iðnaðarborg á 19. öld og er einnig þekkt fyrir sögurnar um Hróa hött. Mikil ferðamennska einkennir borgina í dag.

Nottingham
Myndir frá Nottingham
Myndir frá Nottingham
Staðsetning Nottingham
Nottingham í Englandi
LandEngland
SvæðiAustur-Miðhéruð
SýslaNottinghamshire
StofnunÁ tímum saxa
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriLeon Unczur
Flatarmál
 • Samtals74,61 km2
Mannfjöldi
 (2011)
 • Samtals308.735
 • Þéttleiki4.138/km2
TímabeltiGMT
Vefsíðawww.nottinghamcity.gov.uk

Lega og lýsing breyta

Nottingham er í Austur-Miðhéruðum Englands, nokkuð norðarlega í landinu, og liggur við ána Trent. Hún er næststærst í héraðinu, á eftir Leicester. Næstu stærri borgir eru Derby til vesturs (20 km), Leicester til suðurs (30 km) og Sheffield til norðurs (40 km). Til austurs er Wash-fjörðurinn (60 km). London er um 140 km til suðausturs.

Orðsifjar breyta

Borgin heitir eftir saxa-höfðingjanum Snot og hét bærinn upphaflega Snotingaham. Inga er gamalt germanskt orð yfir fólk eða menn. Ham þýðir heimili eða aðsetur. Merkingin er því heimili liðsmanna Snots. Með tímanum var ess-inu sleppt úr heitinu, enda minnti það of mjög á orðið snotty, sem hefur neikvæða merkingu.

Saga Nottingham breyta

Upphaf breyta

 
Stytta af Hróa hetti á markaðstorginu í Nottingham
 
Kastalinn í Nottingham. Teikning frá 19. öld.

Fyrsta byggðin sem myndaðist á svæðinu var í hellum (Nottingham Caves). Þeir voru ekki náttúrulegir, heldur manngerðir, enda er bergið í kring úr sandsteini. Hellakerfið er það stærsta í Englandi og er ákaflega vinsæll viðkomustaður ferðamanna í dag. Engilsaxar bjuggu á svæðinu fram til 867, en þá hertóku danskir víkingar bæinn, sem eftir það var hluti Danalaga. Normannar, að skipan Vilhjálms sigursæla, reistu kastala í Nottingham skömmu eftir landtökuna 1066 en hann kom við sögu í hinni þekktu þjóðsögu um Hróa hött. Hrói bjó í Skírisskógi norður af bænum á 12. öld, en aðalandstæðingur hans var fógetinn í Nottingham. Þjóðsagan gerist er Ríkharður konungur ljónshjarta var í krossferð í landinu helga en á meðan hafði yngri bróðir hans, Jóhann landlausi, seilst til valda. Við heimkomuna tók Ríkharður því kastalann í Nottingham, enda var hann talinn eitt sterkasta vígi landsins. Bærinn var alla tíð lítill. Á 14. öld bjuggu í honum þrjú þúsund manns og hafði þeim ekki fjölgað nema upp í fjögur þúsund þegar komið var fram á 17. öld.

Borgarastyrjöldin breyta

Um miðja 17. öld dró til tíðinda í Englandi, en þá skiptist þjóðin (og landið sjálft) í tvær fylkingar: Fylgjendur Karls I konungs og fylgjendur þingsins í London. Konungur réði ekki nema norður og vesturhluta Englands. 22. ágúst 1642 var Karl í Nottingham og lét hífa konungsflaggið að gömlum hermannasið til að safna liði. Þetta þótti mikil ögrun við þingið, sem einnig safnaði liði. Sumir fræðimenn marka atburð þennan sem upphafið að enska borgarastríðinu. 1651 réðist her þingsins á kastalann í Nottingham og eyddi honum að mestu leyti. Í bænum var einn elsti banki Englands, Smith's Bank, opnaður utan London 1688.

Iðnbyltingin breyta

Segja má að iðnbyltingin hafi byrjað í Nottingham er skipaskurðurinn Nottingham Canal var tekinn í notkun 1796 en á þessum tíma voru bæjarbúar orðnir tæplega 30 þúsund. Var þá hægt að flytja kol til og frá bænum fljótar og í meira magni en áður. Aðalatvinnuvegurinn var vefnaður, sérstaklega þó fínvefnaður. Á hinn bóginn voru félagslegar aðstæður afleitar. Í Nottingham voru verstu fátækrahverfin í landinu. Mikil uppreisn fátæka fólksins endaði með því að kveikt var í kastalanum í Nottingham 1831. Á sama ári var Nottingham fyrsta borg Bretlands þar sem háþrýstivatnsleiðslur voru teknar í notkun. Bærinn fékk svo járnbrautartengingu við Derby 1839. Mesta fjölgun bæjarins átti sér stað milli 1871 og 1881 en þá nánast tvöfaldaðist íbúatalan, fór úr 87 þúsund í 159 þúsund. Fjölgunin hélt áfram næstu áratugi. Það var svo Viktoría drottning sem veitti Nottingham borgarréttindi 18. júní 1897.

Heimstyrjöldin síðari breyta

Nottingham var fyrsta borgin í Bretlandi sem kom sér upp vörnum við loftárásum þegar heimstyrjöldin síðari hófst. Byggð voru loftvarnabyrgi og 45 slökkvimiðstöðvar dreifðar á víð og dreif í borginni. Að auki var sett upp tæki sem sendi út útvarpsbylgjur sem áttu að trufla eða afvegaleiða þýskar flugvélar sem voru með miðunartæki. Borgin varð aðeins einu sinni fyrir árásum. Það gerðist nóttina 8.-9. maí 1941. Það bjargaði strax að útvarpsbylgjurnar rugluðu margar þýskar vélar, þannig að þær vörpuðu sprengjum sínum í mýrlendi fyrir norðan og austan borgina. Engu að síður voru 100 aðrar vélar sem létu sprengjum rigna yfir borgina. 159 manns biðu bana og tæplega 300 aðrir slösuðust. Hins vegar náðist að slökkva nær alla elda áður en þeir náðu að breiðast út, þannig að skemmdir á byggingum og verksmiðjum var talsvert minni en í öðrum enskum borgum. Alls eyðilögðust 4.500 hús. Atburður þessi kallast Nottingham Blitz.

Nýrri tímar breyta

Eftir stríð hrundi vefnaðariðnaðurinn, þannig að hann er í algeru lágmarki nú til dags. Við tók öðruvísi iðnaður og þjónusta. Í borginni er stærsta lyfjafyrirtæki landsins, Boots. Þar er einnig fyrirtækið Games Workshop, sem er leiðandi í heimi á sviði míníherleikja (Table Top Games). Í borginni eru tveir háskólar. Ferðamennska er æ ríkari þáttur í atvinnuvegi borgarinnar. Margir koma til að skoða gamla hellakerfið, sem er að hluta enn í notkun. Einnig hefur kastalinn og þjóðsagan um Hróa hött mikið aðdráttarafl.

Viðburðir breyta

 
Nottingham Goose Fair skemmtigarðurinn, séð úr risahjólinu að kvöldlagi
 • Í Nottingham er árleg útileiksýning um þjóðsöguna um Hróa hött (Robin Hood Pageant) og fer hún fram í kastalanum í október. Hróa hattar hátíðin fer hins vegar fram í Skírisskógi fyrir norðan borgina árlega á sumrin. Til stendur að setja upp háþróaðan Hróa hattar leikjagarð í anda Disney-landanna.
 • Í febrúar 2008 var stórt risahjól sett upp á gamla markaðstorginu í borginni. Þetta reyndist svo vinsælt að það hefur verið sett upp árlega eftir það. Hjólið kallast Nottingham Wheel og svipar til London Eye-hjólsins í höfuðborginni, nema hvað það er miklu minna.
 • Skemmtigarðurinn Nottingham Goose Fair er starfræktur árlega í október og er einn stærsti og elsti árlegi skemmtigarður Evrópu. Honum var hleypt af stokkunum 1284 sem markaðsskemmtun og hefur henni aðeins verið frestað árið 1646 í pestinni og í heimstyrjöldunum báðum á 20. öld.
 • GameCity er heiti á tölvuleikjahátíð í Nottingham. Hátíðin er öllum opin og getur hver sem er jafnvel tekið þátt í þeim leikjum sem boðið er upp á. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 2006 með kynnungu á nýjungum, pallborðsumræðum og sýningum. 27. október 2012 setti hátíðin heimsmet en þá var þar haldin mesti praktíski vísindafyrirlestur heims (Largest Practical Science Lesson).

Íþróttir breyta

 
Knattspyrnuvellirnir tveir í Nottingham: City Ground nær og Meadow Lane fjær.

Aðalknattspyrnufélög borgarinnar eru tvö: Nottingham Forest og Notts County. Bæði liðin eru meðal allra elstu félögum heims (stofnuð 1865 og 1862).

 • Nottingham Forest sigraði ensku úrvalsdeildina 1978 og er eina enska liðið, fyrir utan Liverpool, sem unnið hefur Evrópubikar tvö ár í röð (1979 og 1980). Auk þess er liðið tvöfaldur bikarmeistari (1898 og 1959) og sigraði Góðgerðarskjöldinn 1978.
 • Notts County var stofnað 1862 og er því elsta atvinnufélagslið heims. Liðið hefur aðeins sigrað í einni keppni en það var í bikarkeppninni 1894. Síðan 1992 leikur liðið í neðri deildum.
 
Flúðasiglingar í Nottingham

Íshokkí er mjög vinsæl íþrótt í Nottingham. Helsta liðið er Nottingham Panthers, sem er margfaldur meistari. Skautahöllin National Ice Centre er ekki aðeins notuð fyrir íshokkí, heldur einnig skautahlaup og ísdans. Í höllinni hófst glæsilegur íþróttaferill Jayne Torvill og Christopher Dean, bæði uppalin í Nottingham. Þau hlutu að lokum bæði gullverðlaun í ísdansi á Vetrarólympíuleikunum 1984 í Sarajevó með fullt hús stiga.

Nottingham Open er tenniskeppni sem haldin er vikuna fyrir Wimbledon-mótið og er gjarnan notað af tennisstjörnum sem upphitunarmót.

Í Nottingham er manngerð róðrarbraut, Holme Pierrepont, 2 km löng. Brautin er notuð fyrir kappróður, en þar einnig flúðabraut fyrir kanúkeppnir.

Robin Hood Marathon er árlegt Maraþonhlaup sem fer fram í miðborginni. Einnig er boðið upp á hálfmaraþon og skemmtiskokk.

Af öðrum íþróttum sem stundaðar eru í borginni má nefna krikket og rúgbý.

Vinabæir breyta

Nottingham viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar breyta

Byggingar og kennileiti breyta

 
The Trip er hugsanlega elsta kráin í Englandi
 • Ye Olde Trip to Jerusalem (eða bara The Trip) er krá í Nottingham og gerir tilkall til að vera elsti pöbbinn í Englandi. Kráin var sögð stofnuð 1189 en ekki er hægt að sannreyna það. Húsið stendur upp við sandkletta og eru innri herbergi hluti af hellunum þar. Einnig eru nokkrir ævagamlir munir þar. Einn þeirra er gamalt skipsmódel sem bannað er að dusta rykið af. Sá sem gerir það má eiga von á að deyja sviplegum dauða. Gamall kollur í kránni er talinn auka líkur á að kona sem á honum situr verði ólétt.
 • Kastalinn í Nottingham er ein allra þekktasta byggingin í borginni. Það var Vilhjálmur sigursæli sem lét reisa kastalann skömmu eftir innrás sína í England 1066. Hann varð eitt sterkasta vígi í Englandi og kom mikið við sögu næstu aldir. Hann var að mestu rifinn 1649. Síðar var herrasetur reist í rústunum. Í dag er kastalinn safn og gallerí.
 • Maríukirkjan (Church of St Mary the Virgin) er stærsta miðaldabyggingin í Nottingham og jafnframt elsta kirkjan í borginni. Meginhluti kirkjunnar var reistur á 14. og 15. öld en elstu hlutarnir eru frá 11. öld. Turninn var hins vegar ekki reistur fyrr en á tíð Hinriks VIII á 16. öld og er 38 m hár. Kórhurðin í kirkjunni er elsta hurðin sem enn er til í Nottingham en hún er frá áttunda eða níunda áratug 14. aldar.
 • Ráðhúsið í Nottingham var reist 1927-29 í nýbarokk. Hér er um tröllaukna byggingu með hvolfþaki að ræða, alsett grískum súlum og styttum. Hæðin er 61 metri. Í turninum er bjalla sem vegur 10 tonn. Hún er með dýpsta hljóm allra bjalla í Bretlandi og sagt er að hljómur hennar heyrist í 10 km (7 mílna) fjarlægð.
 • City Ground er knattspyrnuvöllur og heimavöllur Nottingham Forest í borginni. Hann var reistur 1898 og tekur 30 þúsund manns í sæti. Völlurinn stendur við ána Trent, gegn Meadow Lane, heimavöll Notts County. Tæpir 300 metrar aðskilja vellina.

Heimildir breyta