Lyndon B. Johnson

36. forseti Bandaríkjanna

Lyndon Baines Johnson (27. ágúst 190822. janúar 1973) oft nefndur LBJ, var 36. forseti Bandaríkjanna frá 1963 til 1969. Hann varð 37. varaforseti Bandaríkjanna eftir að hafa lengi verið þingmaður og tók við sem forseti eftir að Kennedy forseti var myrtur í Dallas í Texas 22. nóvember 1963. Hann var leiðtogi demókrata og sem forseti beitti hann sér fyrir málum eins og mannréttindalöggjöf, heilsuvernd fyrir aldraða og fátæka, aðstoð til menntunar, og „stríði gegn fátækt“. Á sama tíma jók hann hernaðinn í Víetnam og fjölgaði bandarískum hermönnum þar úr 16 þúsund árið 1963 í 550 þúsund snemma árs 1968 en af þeim dóu um það bil eitt þúsund í hverjum mánuði.

Lyndon B. Johnson
Lyndon B. Johnson þann 9. janúar 1969.
Forseti Bandaríkjanna
Í embætti
22. nóvember 1963 – 20. janúar 1969
VaraforsetiEnginn (1963–1965)
Hubert Humphrey (1965–1969)
ForveriJohn F. Kennedy
EftirmaðurRichard Nixon
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1961 – 22. nóvember 1963
ForsetiJohn F. Kennedy
ForveriRichard Nixon
EftirmaðurHubert Humphrey
Öldungadeildarþingmaður fyrir Texas
Í embætti
3. janúar 1949 – 3. janúar 1961
ForveriW. Lee O'Daniel
EftirmaðurWilliam A. Blakley
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 10. kjördæmi Texas
Í embætti
10. apríl 1937 – 3. janúar 1949
ForveriJames P. Buchanan
EftirmaðurHomer Thornberry
Persónulegar upplýsingar
Fæddur27. ágúst 1908
Stonewall, Texas, Bandaríkjunum
Látinn22. janúar 1973 (64 ára) Stonewall, Texas, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiLady Bird Taylor (g. 1934)
Börn2
HáskóliRíkisháskólinn í Texas
Georgetown-háskóli
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Johnson var kjörinn með miklum meirihluta atkvæða kjörmanna árið 1964 og tók við sem kjörinn forseti í janúar 1965. Hann bauð sig fram til síðara kjörtímabils árið 1968, en hætti við framboð vegna óeiningar í eigin flokki og sneri sér að friðarumleitunum. Hans er minnst fyrir sterkan persónuleika og föst tök á valdamiklum stjórnmálamönnum. Erfitt er að meta langtímaáhrif hans þar sem Víetnamstríðið og óvinsældir þess vógu mjög upp á móti þeim árangri sem hann náði á sviði mannréttinda innanlands.

Æviágrip

breyta

Lyndon Baines Johnson fæddist 27. ágúst 1908 í bænum Stonewall í Texas.[1] Faðir hans var þá þingmaður á fylkisþingi Texas.[2]

Johnson gegndi herþjónustu í bandaríska sjóhernum í seinni heimsstyrjöldinni. Honum var falið að ferðast milli herstöðva Bandaríkjamanna og safna upplýsingum. Hann var síðan sendur sem eftirlitsmaður til Kyrrahafsins og skrifaði „svarta“ skýrslu um ástand bandaríska heraflans þegar hann kom aftur til Washington.[3]

Stjórnmálaferill

breyta

Johnson kom til Washington árið 1932 sem ritari fulltrúadeildarþingmannsins Richards Kleberg. Hann komst í kynni við Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta, sem tók hann upp á arma sína.[2] Árið 1937 var Johnson sjálfur kjörinn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings og varð þar dyggur stuðningsmaður Roosevelts og efnahagsstefnu hans, nýju gjafarinnar. Eftir dauða Roosevelts árið 1945 varð Johnson náinn þingforsetanum Sam Rayburn, sem hvatti Johnson til að gefa kost á sér til öldungadeildar þingsins.[4]

Árið 1948 tókst Johnson að tryggja sér tilnefningu Demókrataflokksins fyrir kosningar á öldungadeildina í afar umdeildu forvali með aðeins 87 atkvæða forskoti á næsta keppinaut sinn, fyrrum fylkisstjórann Coke Stevenson. Johnson náði í kjölfarið kjöri á öldungadeildina og vakti þar fljótt athygli með störfum sínum. Hann stjórnaði sparnaðarnefnd á tíma Kóreustríðsins sem talið er að hafi sparað ríkissjóði milljarða dollara.[5]

Eftir ósigur Demókrata í forseta- og þingkosningum ársins 1952 varð Johnson leiðtogi þingflokks Demókrata á öldungadeildinni. Demókrataflokkurinn var á þessum tíma klofinn á milli íhaldssamra meðlima frá suðurríkjunum og frjálslyndra millistéttarmanna og verkalýðssinna frá norðurríkjunum. Það kom einkum í hlut Johnsons að sætta sjónarmið þessara tveggja fylkinga. Johnson tókst á þessum tíma að tryggja framgang nokkurra mannréttindafrumvarpa fyrir blökkumenn í gegnum þingið en gerði það með því að umorða ákvæði sem fóru fyrir brjóstið á suðurríkjamönnum til þess að þeir beittu ekki málþófi til að stöðva löggjöfina.[5]

Johnson sóttist eftir tilnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy, öldungadeildarþingmanni frá Massachusetts. Kennedy og Johnson var ekki vel til vina en Kennedy ákvað engu að síður að velja Johnson sem varaforsetaefni sitt í kosningunum til þess að geta höfðað til kjósenda í bandarísku suðurríkjunum.[2] Johnson og Kennedy unnu kosningarnar með naumindum og Johnson tók því við embætti varaforseta Bandaríkjanna í janúar 1961.

Varaforsetaembættið var ekki valdamikið og Kennedy hafði ekki hug á að breyta því. Johnson var engu að síður duglegur við að nota sér embættið til að taka forystu í ýmsum málum. Hann sat í fjölda nefnda og barðist fyrir framgangi ýmissa málefna á borð við rannsóknir, vísindi, geimferðaáætlunina og friðarsveitir. Johnson fór einnig í fjölda ferðalaga sem varaforseti og heimsótti alls um þrjátíu lönd.[6] Meðal annars fór Johnson í ferðalag til Norðurlanda haustið 1963 og var Ísland lokaáfangastaðurinn. Á Íslandi blandaði Johnson geði við landsmenn og útdeildi sígarettukveikjurum til Ólafs Thors og ráðherra í stjórn hans. Johnson klifraði einnig upp á girðinguna við Stjórnarráðshúsið á Lækjargötu og hélt ræðu fyrir Íslendinga sem höfðu safnast þar saman við góðar undirtektir.[7]

Forseti Bandaríkjanna (1963–1969)

breyta
 
Lyndon B. Johnson sver embættiseið sem forseti Bandaríkjanna um borð í Air Force One eftir morðið á John F. Kennedy. Við hlið hans stendur Jackie Kennedy, ekkja myrta forstans.

Þann 22. nóvember 1963 var John F. Kennedy Bandaríkjaforseti myrtur í Dallas, Texas. Johnson sór í kjölfarið embættiseið sem nýr forseti Bandaríkjanna um borð í forsetaflugvélinni Air Force One.[6]

Johnson tók við embætti Bandaríkjaforseta á miklum ólgutíma í sögu Bandaríkjanna. Á alþjóðavettvangi stóð kalda stríðið sem hæst og innanlands var mannréttindabarátta blökkumanna í fullum gangi. Á fyrsta ári Johnsons í embætti forseta samþykkti Bandaríkjaþing frumvarp um borgaraleg réttindi og Johnson undirritaði það í lög þann 2. júlí 1964.[8] Með lögunum var bannað að mismuna fólki eftir kynþætti, litarafti, trúarbrögðum, kyni og þjóðerni.[9] Árið 1965 undirritaði Johnson nýja kosningalöggjöf til þess að tryggja að kosningaréttur minnihlutahópa yrði ekki skertur. Lögin fólu meðal annars í sér bann við hömlum á kosningarétt sem gjarnan hafði verið beitt til að koma í veg fyrir að blökkumenn mættu á kjörstað, til dæmis lestrarprófum sem skilyrði fyrir skráningu í kjörskrá.[10] Þessi lög mörkuðu tímamót í endalokum kynþáttaaðskilnaðar í Bandaríkjunum og gjarnan er miðað við að þau hafi bundið enda á svokölluð Jim Crow-lög í suðurríkjum Bandaríkjanna, sem höfðu verið notuð til að hefta kosningaþátttöku blökkumanna allt frá lokum þrælastríðsins.

Demókratar útnefndu Johnson sem forsetaframbjóðanda í forsetakosningunum 1964 og Hubert Humphrey, öldungadeildarþingmaður frá Minnesota, varð varaforsetaefni hans.[8] Í kosningabaráttunni lagði Johnson áherslu á að hann væri að halda áfram stefnum Kennedy, gerði grein fyrir hugsjónum sínum um „hið mikla þjóðfélag“ (e. The Great Society) og lofaði því að á komandi kjörtímabili myndi hann hefja „stríð gegn fátækt“. Í kosningabaráttunni útmálaði Johnson mótframbjóðanda sinn úr Repúblikanaflokknum, íhaldsmanninn Barry Goldwater, sem stríðsæsingamann og varaði við því að hann kynni að hrinda af stað kjarnorkustyrjöld ef hann yrði kjörinn forseti. Eitt frægasta dæmið um þetta var „Daisy-auglýsingin“ svokallaða, þar sem lítil stúlka sést telja niður petala af blómi þegar kjarnorkusprengja springur skyndilega. Johnson heyrist síðan segja: „Þetta er það sem er að veði! Að skapa heim þar sem öll Guðs börn geta lifað, eða höfða út í myrkrið. Við verðum að elska hvert annað eða deyja.“[11]

Í kosningunum vann Johnson stórsigur á móti Goldwater. Johnson hlaut um 43 milljónir atkvæða og 486 kjörmenn en Goldwater hlaut 27 milljónir atkvæða og 52 kjörmenn.[12]

Aðgerðaáætlun Johnsons, hinu mikla þjóðfélagi, var að mestu hrint í framkvæmd á 89. þingtímabili Bandaríkjaþings, frá janúar 1965 til janúar 1967, sem er gjarnan talið eitt afkastamesta þingtímabil í sögu Bandaríkjanna. Johnson fékk þingið til að samþykkja um 200 lagafrumvörp að ýmiss konar velferðarverkefnum sem voru talin með þeim róttækustu og metnaðarfyllstu í bandarískum stjórnmálum. Hann undirritaði viðauka við almannatryggingalög sem kom á fót heilsutryggingum fyrir eldri borgara (Medicare) og lágtekjufólk (Medicaid). Þá undirritaði Johnson ný lög um neytendaréttindi, kom á fót matvælahjálp fyrir fátæka og jók ríkisframlög til námslánasjóða og námsstyrkja.[13] Áratuginn eftir að stríðið gegn fátækt hófst árið 1964 lækkaði hlutfall Bandaríkjamanna sem lifðu undir fátæktarmörkum niður á neðsta stig sem hafði mælst frá upphafi; úr 17,3 % þegar Johnson undirritaði „efnahagstækifæralöggjöfina“ (e. Economic Opportunity Act) niður í 11,1 prósent árið 1973.[14] Tíðni fátæktar hafði þó byrjað að lækka frá árinu 1959, áður en stríðið gegn fátækt hófst.[15]

Árið 1967 tilnefndi Johnson Thurgood Marshall í Hæstarétt Bandaríkjanna. Marshall varð fyrsti bandaríski blökkumaðurinn sem tók sæti í Hæstaréttinum.[16]

Víetnamstríðið og dvínandi vinsældir LBJ

breyta

Þrátt fyrir nokkurn árangur í samfélags- og velferðarmálum innanlands var það Víetnamstríðið sem setti mark sitt umfram allt annað á forsetatíð Johnsons. Hernaðarafskipti Bandaríkjamanna í Víetnam höfðu hafist á stjórnartíð Kennedy en Johnson lét fjölga hermönnum utanhafs gífurlega eftir að hann tók við stjórnartaumunum. Lagalegur grundvöllur þessarar hernaðaraukningar var hin svokallaða Tonkinflóaályktun, sem Bandaríkjaþing samþykkti árið 1964 vegna frétta af því að skip frá Norður-Víetnam hefðu gert tvær árásir á bandarísk herskip á Tonkinflóa. Ályktunin veitti Johnson heimild til að auka hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna í Víetnam.[17] Síðar var sýnt fram á að seinni árásin sem Johnson vísaði til við samþykkt ályktunarinnar átti sér aldrei stað. Því er gjarnan litið á Tonkinflóaatvikið sem yfirvarp eða sviðsetningu Bandaríkjamanna til þess að skapa átyllu fyrir stríði.[18]

Johnson hóf almenna herkvaðningu til að halda hernaðinum gangandi og heimilaði fjölda loftárása á Víetnam. Í febrúar 1965 gaf Johnson út tilskipun um loftárásir á Norður-Víetnam og í júní sama ár gaf hann William Westmoreland hershöfðingja umboð til að bæta bandarískum liðsafla við hersveitir Suður-Víetnams.[17]

 
Johnson festir orður á brjóst bandarískra hermanna í heimsókn í Víetnam árið 1966.

Í fyrstu studdu flestir Bandaríkjamenn hernaðaríhlutun til að koma í veg fyrir að kommúnistar kæmust til valda í Indókína en stríðið varð smám saman mjög óvinsælt eftir því sem það dróst á langinn og dauðsföllum fjölgaði.[19] Það var einkum eftir Tet-sókn Norður-Víetnama í janúar 1968 sem almenningsálit í Bandaríkjunum fór að snúast gegn stríðinu. Sóknin misheppnaðist að mestu hernaðarlega en það að Norður-Víetnamar hafi getað framkvæmt svo stóra hernaðaraðgerð þrátt fyrir veru um hálfrar milljónar bandarískra hermanna í landinu kom flestum landsmönnum í skilning um að deilan yrði ekki leyst á vígvellinum.[17]

Eitt vinsælasta slagorð andstæðinga Víetnamstríðsins varð „Hæ, hæ, LBJ, hvað drapstu marga krakka í dag?“ (e. Hey, hey, LBJ, how many kids did you kill today?). Stríðsandstæðingar söfnuðust saman og kyrjuðu slagorðin nánast hvar sem Johnson steig niður fæti.[20]

Lokadagar Johnsons á forsetastól

breyta

Johnson hafði hug á að sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum 1968 en þegar kosningarnar nálguðust var hann orðinn svo umdeildur í eigin flokki að hann hlaut aðeins tæpan helming atkvæða í forvali Demókrata í New Hampshire þann 12. mars. Johnson gaf í kjölfarið út sjónvarpsyfirlýsingu þar sem hann staðfesti að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.[21] Þess í stað tilkynnti hann að hann myndi eyða síðustu mánuðum sínum í forsetaembætti við friðarumleitanir í Víetnam. Johnson tilkynnti jafnframt að loftárásir á Víetnam yrðu takmarkaðar við svæði sunnan 20. breiddargráðu og í byrjun nóvember gaf hann út tilskipun um að þeim skyldi alfarið hætt.[17]

Johnson vonaðist til þess að ef honum tækist að semja um frið í Víetnam myndi það hjálpa Demókrötum að vinna forsetakosningarnar. Stjórn Johnsons stóð Richard Nixon, forsetaframbjóðanda Repúblikana, að því að reyna að spilla friðarviðræðum stjórnarinnar í París með því að bjóða kommúnistum í Víetnam betri friðarskilmála ef þeir biðu með að semja um frið þar til eftir kosningarnar.[22] Upplýsingar um afskipti Nixons hefðu getað eyðilagt kosningaframboð hans en Johnson ákvað að opinbera ekki þær ekki þar sem þeirra hafði verið aflað með ólöglegri símahlerun sem LBJ vildi halda leyndri.[23]

Síðustu mánuðir LBJ í embætti einkenndust af miklum samfélagsóeirðum sem brutust út í kjölfar morðsins á Martin Luther King, Jr. þann 4. apríl og á Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmanni þann 6. júní.[21]

Að lokinni forsetatíð

breyta

Richard Nixon vann nauman sigur í forsetakosningunum 1968 og Johnson lét af embætti í janúar næsta ár. Eftir að forsetatíð LBJ lauk settist hann að á búgarði sínum í Texas og einbeitti sér mestmegnis að því að rita æviminningar sínar.[24] Johnson lést á búgarði sínum úr kransæðastíflu þann 22. janúar 1973, aðeins um fjórum árum eftir að hann lét af embætti.[25]

Heimildir

breyta
  • Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. ISBN 978-9935-9194-5-8.

Tilvísanir

breyta
  1. Jón Þ. Þór 2016, bls. 350.
  2. 2,0 2,1 2,2 Stan Opotowsky (28. október 1962). „L. B. Johnson“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 2; 7.
  3. Jón Þ. Þór 2016, bls. 351.
  4. „Lyndon B. Johnson“. Lesbók Morgunblaðsins. 19. janúar 1964. bls. 2; 4.
  5. 5,0 5,1 Magnús Torfi Ólafsson (15. september 1963). „Maðurinn frá Texas“. Þjóðviljinn. bls. 6-7.
  6. 6,0 6,1 Jón Þ. Þór 2016, bls. 353.
  7. Guðmundur Magnússon (8. september 2019). „Seildist í vasa Ólafs Thors“. mbl.is. Sótt 17. maí 2021.
  8. 8,0 8,1 Jón Þ. Þór 2016, bls. 354.
  9. "Transcript of Civil Rights Act (1964)". Skoðað 21. maí 2021.
  10. „History of Federal Voting Rights Laws: The Voting Rights Act of 1965“. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna. 28. júlí 2017. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. janúar 2021. Sótt 21. maí 2021.
  11. Sveinbjörn Þórðarson (7. júlí 2014). „Kjarnorkustríð í kosningaauglýsingu Lyndons Johnsons“. Lemúrinn. Sótt 24. maí 2021.
  12. Jón Þ. Þór 2016, bls. 355.
  13. „Evaluating the success of the Great Society“ (enska). The Washington Post. 17. maí 2014. Sótt 17. maí 2021.
  14. Table B-1 bls. 56
  15. „Poverty“. census.gov.
  16. Þórarinn Þórarinsson (17. júní 1967). „Fyrsti blökkumaðurinn tekur sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna“. Tíminn. bls. 9.
  17. 17,0 17,1 17,2 17,3 „Stríðið í Víetnam“. Tíminn. 4. nóvember 1972. bls. 11.
  18. „Breyttu gögnum sem stuðluðu að Víetnamstríðinu“. mbl.is. 3. nóvember 2005. Sótt 31. janúar 2023.
  19. Stewart Alsop (8. janúar 1967). „Nærmynd af Johnson Bandaríkjaforseta“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 1; 7-9.
  20. Britannica Online, Ronald H. Spector, "Vietnam War". „Archived copy“. Afritað af uppruna á 18. maí 2014. Sótt 18. maí 2014.
  21. 21,0 21,1 Jón Þ. Þór 2016, bls. 356.
  22. Peter Baker (2. janúar 2017). „Nixon Tried to Spoil Johnson's Vietnam Peace Talks in '68, Notes Show“ (enska). The New York Times. Sótt 23. maí 2021.
  23. Þorvaldur Gylfason (18. janúar 2018). „Víetnam, Víetnam“. Vísir. Sótt 23. maí 2021.
  24. „Nú er hann aftur orðinn bóndi í Texas“. Vikan. 13. nóvember 1969. bls. 14-15; 37-38.
  25. „Johnson: Umdeildur forseti“. Morgunblaðið. 24. janúar 1973. bls. 17; 20.


Fyrirrennari:
John F. Kennedy
Forseti Bandaríkjanna
(1963 – 1969)
Eftirmaður:
Richard Nixon
Fyrirrennari:
Richard Nixon
Varaforseti Bandaríkjanna
(1961 – 1963)
Eftirmaður:
Hubert Humphrey