Víetnamstríðið

Stríð í Suðaustur-Asíu 1959-1975

Víetnamstríðið er oftast notað yfir þau hernaðarátök sem áttu sér staðar í Víetnam frá 1959 til 1975. Hernaðarsvæðið var þó engan veginn bundið við Víetnam heldur náði einnig yfir Laos og Kambódíu. Þessi átakatími hefur einnig verið nefndur Seinni Indókínastyrjöldin og er hugtakið Fyrri Indókínastyrjöldin notað um baráttuna gegn Frakklandi 1945 til 1954. Í þessari seinni styrjöld tókust á annars vegar her Norður-Víetnam, Þjóðarfylkingin fyrir frelsun Suður-Víetnam, einnig þekkt sem Viet-Cong, og bandamenn þeirra og hins vegar her Suður-Víetnam og bandamenn hans, einkum Bandaríkjamenn. Þegar átökunum lauk 1975 höfðu um 3 til 4 milljónir Víetnama látið lífið, 1,5 til 2 milljóna íbúa Laos og Kambódíu, og þar að auki um 60.000 bandarískir hermenn.[1] Endaði þar með yfir hundrað ára vopnuð barátta Víetnama gegn erlendum hersveitum.

Víetnamstríðið
Hluti af Kalda stríðinu

Kofi í eigu Viet-Cong-hreyfingarinnar brennur eftir sprengjuárás Bandaríkjamanna.
Dagsetning1. nóvember 195530. apríl 1975 (19 ár, 5 mánuðir, 4 vikur og 1 dagur)
Staðsetning
Niðurstaða Norður-víetnamskur sigur. Kommúnistar taka völdin í Suður-Víetnam, Kambódíu og Laos
Stríðsaðilar

Leiðtogar

Mannfall og tjón
Um 667.130–951.895 hermenn drepnir. Um 333,620–392,364 hermenn drepnir.

  • Um 627,000–2,000,000 almennir víetnamskir borgarar drepnir.
  • Alls látnir: 1.326.494–4.249.494 manns

Meginorsök stríðsins var tvískipting landsins eftir fyrri Indókínastyrjöldina 1946 til 1954 þar sem sjálfstæðissinnum, Viet-Minh, tókst ekki að ná völdum í suðurhluta landsins í baráttu þeirra fyrir sjálfstæði landsins frá Frakklandi. Að sumu leyti var Víetnamstríðið eins konar leppstríð þar sem risaveldin í Kalda stríðinu tókust á óbeint gegnum bandamenn sína í Víetnam.

Aðalbandamenn Norður-Víetnam og skæruliða Þjóðfylkingarinnar voru annars Sovétríkin og Kínverska alþýðulýðveldið, en aðalbandamenn stjórnarinnar í Suður-Víetnam voru Bandaríkin, Ástralía, Taíland, Filippseyjar og Nýja-Sjáland. Aðallega voru það þó Bandaríkin sem sendu stóra herflokka til að taka þátt í átökunum í Víetnam frá 1965.

Víetnamstríðinu lauk 30. apríl 1975 með falli Saígon í hendur hers Norður-Víetnama.

Yfirlit

breyta

Víetnamstríðinu er oft skipt í tvö aðskilin tímabil. Fyrra stríðið var stríð Frakka til að endurheimta eða halda nýlendu sinni Víetnam í Indókína og hindra að þjóðernissinnaðir kommúnistar næðu henni á vald sitt. Stríðið hófst við lok seinni heimsstyrjaldarinnar þegar Japanir yfirgáfu Víetnam og afhentu Hồ Chí Minh og hans mönnum yfirráðin í landinu. Frakkar reyndu að semja við þá í fyrstu en slitnaði uppúr samningaviðræðunum í nóvember 1946 og bardagar hófust. Stríðinu lauk með miklum ósigri Frakka í orrustunni við Dien Bien Phu 1954. Í Genfarsamningnum var síðan ákveðið að skipta landinu til bráðarbyrgðar í Norður- og Suður-Víetnam og átti síðar að sameina landið í kosningum 1957. Þá ríkti kommúnistastjórn Hồ Chí Minh í Norður-Víetnam, en keisarastjórn og síðar andkommúnískt lýðveldi hliðhollt Bandaríkjamönnum í Suður-Víetnam. Hồ Chí Minh-stjórnin vildi fylgja Genfarsamningnum en suður-víetnamska stjórnin neitaði að gera það með stuðning frá Bandaríkjunum. Með þeim deilum hófst síðara Víetnamstríðið (sem er stríðið sem oftast er verið að tala um þegar minnst er á Víetnamstríðið) árið 1960. Norður-Víetnamar beittu skæruhernaði sem á endanum bar sigur af hólmi gegn herfylkingum og loftárásum Bandaríkjamanna og er þetta eini hernaðarósigur sem Bandaríkin hafa orðið fyrir. Eftir stríðið höfðu þjóðernissinnaðir kommúnistar öll völd í landinu frá árinu 1975 en landið var illa farið og lamað eftir nánast þrjátíu ára samfellt stríð.

Stríðið í Frönsku Indókína

breyta

Á 19. öld töldu nýlenduveldin að löndin í Suðaustur-Asíu væru arðvænlegasti heimshlutinn. Víetnam ásamt Laos og Kambódíu, var hluti af frönsku nýlendunni Indókína. Japanir hertóku landið í seinni heimsstyrjöldinni en þá var við völd í Frakklandi Vichystjórnin sem var leppstjórn Þjóðverja. Þjóðverjar höfðu þá auðvitað verið búnir að ná undir sig meirihluta Frakklands. Frönsku embættismennirnir í Indókína hlýddu þeirri stjórn sem sagði þeim að hlýða fyrirmælum Japana. Japanir komu síðan illa fram við landsmenn og það ýtti undir andspyrnuhreyfingar undir forystu Hồ Chí Minh. Við lok heimsstyrjaldarinnar seinni misstu Japanir svo völd sín í landinu.[2]

Þegar Frakkar sneru svo aftur til Indókína eftir seinni heimsstyrjöldina var allt breytt. Hồ Chí Minh, foringi kommúnistaflokks Indókína, hafði lýst yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Víetnams hinn 2. september 1945. Hồ Chí Minh sem nýtti sér skæruliðahernað átti í borgarastyrjöld gegn andkommúnistum. Kommúnistum tókst þó að afla mikils fylgis í kosningum í febrúar 1946 og Hồ Chí Minh hélt áfram að reyna að yfirbuga andstæðinga sína. Á meðan þessu stóð sat franska stjórnin og Hồ Chí Minh við samningaborðið, því Frakkar vildu ekki viðurkenna stjórn hans. Að lokum viðurkenndu Frakkar Víetnam sem frjálst ríki innan franska ríkjasambandsins í mars árið 1946. Samningar stóðu þó lengur yfir um stærð ríkisins og afstöðu þess til Frakklands. Ekki tókst að ná sáttum og slitnaði uppúr samningaviðræðum í nóvember sama ár þegar bardagar hófust.[3]

Stríðinu lauk ekki fyrr en árið 1954. Þá höfðu Frakkar verið sigurstranglegri í varnarstríði, með hernaðaraðstoð frá Bandaríkjamönnum. Frakkar sáu fram á að Víetnamar gætu tekið við stríðinu sjálfir og frönsku hersveitirnar gætu haldið heim á leið. Þá átti að mynda stjórn í landinu undir forustu Bảo Đại keisara. Fyrst þurfti þó að gjörsigra skæruliðanna í átökum. Þá var valinn vígvöllur í þröngum dal í norðvesturhluta landsins nálægt borginni Den Bien Phu þar sem átti að neyða skæruliðanna til orrustu. Foringi skæruliðanna beit á agnið en Frakkar höfðu greinilega vanmetið styrk þeirra því þeim beið mikil ósigur þar. Borgin Den Bien Phu féll svo í maí 1954. Þá hófust friðarviðræður því Frakkar höfðu fengið nóg af stríðinu og á Genfarráðstefnunni var ákveðið að skipta landinu til bráðarbyrgðar í Norður og Suður-Víetnam við 17. breiddargráðu.[4]

Bandarísk afskipti

breyta
 
Hồ Chí Minh-stígurinn sem lá um Laos og Kambódíu alla leið til Suður-Víetnam, 1967

Frakkar yfirgáfu þá landið en Bandaríkjamenn tóku við forráðum. Hồ Chí Minh tók við völdum í Norður-Víetnam með sinni kommúnistastjórn og Bảo Đại í Suður-Víetnam. Ekki var keisarinn lengi við völd því forsætisráðherra hans, sem starfaði náið með Bandaríkjamönnum, breytti landinu fyrst í lýðveldi með sig sjálfan sem forseta. Í Genfarsáttmálanum var ákvæði um að árið 1957 yrði landið sameinað með frjálsum kosningum undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Norður-Víetnam vildi fylgja því en Suður-Víetnamar neituðu því með stuðningi frá Bandaríkjastjórn.[5]

Hồ Chí Minh hafði styrkt stöðu sína töluvert í norðurhlutanum og mikil iðnvæðing hófst. Stjórn hans var traust og hún beitti sér mikið til þess að sameina Víetnam. Fjöldi hermanna Norðurhlutans hafði orðið eftir í suðurhlutanum eftir friðarsáttmálann 1954 og mynduðu þeir nýja og öfluga skæruliðahreyfingu sem Suður-Víetnamar kölluðu Víetkong þ.e. víetnamskir kommúnistar. Ekki er vitað með vissu um tengsl milli Norður-Víetnama og Víetkong hreyfingarinnar, en þeir fyrrnefndu yfirtóku forustu hennar eftir 1965. Á meðan stjórnaði Ngô Đình Diệm suðurhlutanum í andkommúnískum anda, studdur af Bandaríkjamönnum sem höfðu miklar áhyggjur af útbreiðslu kommúnismans. Hann hafði ekki í huga að sameina Víetnam eins og Genfarsáttmálinn kvað um og smám saman hófst uppreisn gegn stjórn hans. Stjórn hans var spillt og ótraust og á endanum var honum steypt af stóli í nóvember 1963 með byltingu hersins. Fram að þessu hafði stuðningur Bandaríkjamanna aðallega verið efnahagslegur en Kennedy stjórnin ákvað að auka fjölda „tækniráðgjafa“ í landinu upp í 15.000 talsins. Talið er að Bandaríkjamenn hafi staðið að baki byltingarinnar og látið myrða Diệm. Þeir vonuðust þá eftir virkari stjórn í kjölfarið en það rættist ekki.[6]

Mikil straumhvörf urðu í stríðinu í ágúst árið 1964, þegar Bandaríkjamenn ásökuðu Norður-Víetnama um að hafa ráðist á skip úr bandaríska flotanum. Þetta taldi bandaríska þingið næga ástæðu til þess að gefa forsetanum heimild til að reiða fram beinni aðstoð við Suður-Víetnama með hersveitum og flugvélum. Þetta atvik er þó umdeilt og talið er að það hafi verið skipulagt af Bandaríkjamönnum.[7]

 
Bandarískar herþotur að varpa sprengjum í Norður-Víetnam

Í upphafi síðara stríðsins réðu skæruliðar Vietkong hreyfingarinnar mestu í sveitum landsins en stjórn Suður-Víetnama og Bandaríkjanna réðu borgunum. Stríðið var aðallega háð í suðurhluta landsins en Bandaríkjamenn gerðu þó miklar loftárásir á norðurhluta landsins í þeim tilgangi að hindra birgðaflutninga til skæruliðanna. Þegar líða tók á stríðið fóru þjálfaðar hersveitir frá Norður-Víetnam að streyma á vígvellina skæruliðahreyfingunni til aðstoðar.[8] En um leið fjölgaði mjög í bandarískum hersveitum og árið 1967 var herlið þeirra orðin hálf milljón manna.[9] Þeir dreifðu eiturefnum og napalm sprengjum úr lofti yfir stór skóglendi og þorp í því skyni að eyðileggja þá staði sem skæruliðar gætu leynst á. Skæruliðarnir höfðu líka eitt herbragð sem fólst í því að grafa gríðarlega flókin neðanjarðargöng. Í því kerfi voru um 16.000 hermenn sem gátu komið andstæðingum sínum sífellt óvart með árásum sínum.[10]

 
Minnismerki um víetnamstríðið í Texas í Bandaríkjunum.

Á miðjum 7. áratugnum fór að bera mikið á mótmælum gegn stríðinu, þá aðallega í Bandaríkjunum. Árið 1968 fóru Bandaríkjamenn að hallast að því að gefast upp. Ári síðar fóru þeir að kalla hersveitir sínar til baka og árið 1973 var undirritaður vopnahléssamningur. Stríðinu lauk þó ekki endanlega fyrr en árið 1975 þegar Norður-Víetnamar höfðu unnið algjöran sigur á Suður-Víetnömum.[11] Stríðið í Víetnam voru fyrstu hernaðarátökin sem voru sýnd í sjónvarpinu um allan heim. Þegar tölur látinna og særðra hermanna jukust fór fólkið að streyma út á götur og mótmæla. Þessi miklu mótmæli gegn stríðinu var meginástæða þess að Nixon þáverandi forseti Bandaríkjanna ákvað að hætta stríðsrekstrinum.[12]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Vietnamwar.com archive.org record.
  2. Gísli Gunnarsson. „Hvenær hófst Víetnamstríðið og hvenær lauk því?“. Vísindavefurinn 18.9.2000. http://visindavefur.is/?id=919. (Skoðað 4.5.2009).
  3. Huldt, Bo. Saga mannkyns ritröð AB, 14. bindi: Þrír heimshlutar 1945-1965: 243-245
  4. Huldt, Bo. Saga mannkyns ritröð AB, 14. bindi: Þrír heimshlutar 1945-1965: 243-245
  5. Gísli Gunnarsson. „Hvenær hófst Víetnamstríðið og hvenær lauk því?“. Vísindavefurinn 18.9.2000. http://visindavefur.is/?id=919. (Skoðað 4.5.2009).
  6. Huldt, Bo. Saga mannkyns ritröð AB, 14. bindi: Þrír heimshlutar 1945-1965.
  7. Huldt, Bo. Saga mannkyns ritröð AB, 14. bindi: Þrír heimshlutar 1945-1965.
  8. Gísli Gunnarsson. „Hvenær hófst Víetnamstríðið og hvenær lauk því?“. Vísindavefurinn 18.9.2000. http://visindavefur.is/?id=919. (Skoðað 4.5.2009).
  9. Huldt, Bo. Saga mannkyns ritröð AB, 14. bindi: Þrír heimshlutar 1945-1965.
  10. Andreu, Guillemette o.fl: Heims sögu atlas Iðunnar: 220-221.
  11. Andreu, Guillemette o.fl: Heims sögu atlas Iðunnar: 220-221.
  12. Andreu, Guillemette o.fl: Heims sögu atlas Iðunnar: 220-221.

Tenglar

breyta
  • Gísli Gunnarsson (18. september 2000). „Hvenær hófst Víetnamstríðið og hvenær lauk því?“. Vísindavefurinn. Sótt 27. febrúar 2024.
  • Sigfús Ólafsson (1. júní 2004). „Morgunblaðið og Víetnam 1967-1973: Undanhald samkvæmt áætlun“. Sagnir. bls. 50-57.