Martin Luther King, Jr.

bandarískur mannréttindabaráttuleiðtogi (1929-1968)

Martin Luther King, Jr. (15. janúar 19294. apríl 1968) var frægasti leiðtogi afrískættaðra Bandaríkjamanna og mannréttindabaráttu þeirra á sjötta og sjöunda áratug 20. aldarinnar. Hann var ráðinn af dögum í Memphis. Hann kvæntist Corettu Scott 18. júní 1953 og eignuðust þau fjögur börn. 14. október 1964 varð King yngsti maðurinn til að hljóta friðarverðlaun Nóbels.

Martin Luther King, Jr.
Martin Luther King árið 1964.
Fæddur15. janúar 1929
Dáinn4. apríl 1968 (39 ára)
Memphis, Tennessee, Bandaríkjunum
DánarorsökMyrtur
StörfPrestur, aðgerðasinni
Þekktur fyrirForystu sína í mannréttindabaráttu svartra Bandaríkjamanna á miðri 20. öld.
TrúKristni
MakiCoretta Scott King (g. 1953)
BörnYolanda Denise King
Martin Luther King III
Dexter Scott King
Bernice Albertine King
ForeldrarMartin Luther King Sr. & Alberta Williams King
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels
Frelsisorða Bandaríkjaforseta
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Martin Luther King fæddist 15. janúar 1929 í Atlanta. Móðir hans hét Alberta King og hún var kennari þar. Faðir hans hét Martin Luther King og hann var prestur og leiðtogi svartra manna í Atlanta. Martin Jr. hét upprunalega Michael King en lét breyta nafni sínu í Martin Luther. Hann gekk í opinberan skóla í Georgíu sem var einungis fyrir blökkumenn. Hann útskrifaðist úr menntaskóla fimmtán ára að aldri. Hann útskrifaðist með B.A. gráðu frá Morehouse Háskólanum árið 1948 en það var sami háskóli og faðir hans og afi höfðu útskrifast úr.[1][2]

Hann fór í háskóla í Boston þar sem hann kynntist Corettu Scott sem hann giftist 18. júní 1953. Þau eignuðust fjögur börn, þau Bernice, Yolöndu, Martin III og Dexter.[3]

King Jr. ólst upp í umhverfi þar sem ekki var mikið um kynþáttafordóma en upplifði þá engu að síður mjög ungur. Hann hafði andúð á kynþáttafordómum og helgaði líf sitt því að vinna á gegn þeim. Hann var 27 ára þegar hann tók þátt í fyrstu friðsamlegu mótmælunum. Það var þegar blökkumenn fóru að sniðganga strætisvagnana í Montgomery. Blökkumenn stofnuðu félagið Montgomery Improvement Association sem stóð fyrir friðsamlegum mótmælum. King Jr. var kosinn leiðtogi félagsins.[4][5] Árið 1957 var haldin ráðstefna sem King Jr. fór á. Þar voru stofnuð samtök kristinna leiðtoga í Suðurríkjunum, sem stóðu fyrir mótmælabaráttu blökkumanna.[6] Þann 28. ágúst 1963 hélt King Jr. ræðuna „Ég á mér draum“ fyrir um 200.000 manns sem höfðu safnast saman hjá minnismerki Lincolns.[7]

King Jr. vann friðarverðlaun Nóbels 1964 og var þá yngsti maðurinn sem hafði unnið þau, einungis 35 ára gamall. King Jr. var skotinn til bana þann 4. apríl árið 1968.[8][9]

Strax á unga aldri upplifði King Jr. kynþáttafordóma, þó svo að hann hafi ekki skilið það þá. Hann átti tvo hvíta leikfélaga þegar hann var sex ára sem bjuggu á móti honum. Þegar King Jr. kom yfir í heimsókn voru foreldrar hvítu strákana ósáttir með að þeir væru að leika við hann, og oft var þeim bannað það. Þegar þeir voru sex ára gamlir sagði einn leikfélaginn við King Jr. að þær mættu ekki lengur leika sér saman og gætu ekki verið vinir, vegna þess að nú væru þeir að fara í skóla þar sem aðskilnaður kynþátta var.

King Jr. gekk í opinberan grunnskóla í Georgíufylki. Hann var góður námsmaður og útskrifaðist úr menntaskóla í Atlanta 15 ára gamall. Faðir hans vildi að hann færi í guðfræði og yrði prestur, en King Jr. langaði til þess að verða læknir eða lögfræðingur. Hann ákvað að lokum að fara í prestaskóla í Pensylvaníu. Í þessum skóla var ekki aðskilnaður svartra og hvíta, en í skólanum á þeim tíma voru í kringum hundrað hvítir menn en aðeins þrír svartir. Af því að King Jr. var svo góður námsmaður var honum boðið að fara í háskólann í Boston að taka doktorsgráðu, en hann var þá fyrsti svarti maðurinn sem hafði fengið þetta boð. Þar kynntist hann Corettu Scott sem hann seinna giftist.

Barátta blökkumanna

breyta

Martin Jr. tók þátt í fyrstu friðsamlegu baráttu blökkumanna, þar sem barist var fyrir því að aðskilnaður kynþátta yrði afnuminn. Það var árið 1956 í höfuðborg Alabama, Montgomery, þegar Martin Jr. var 27 ára. Allir blökkumenn tóku sig saman um að sniðganga strætisvagna.[10] Þetta kom í kjölfar þess að blökkukonan Rosa Parks neitaði að gefa eftir sæti sitt í strætó þegar hvítur maður falaðist eftir því. Aðgerðarsinnar stofnuðu þá félag sem nefndist Montgomery Improvement Association og barðist fyrir réttindum blökkumanna. King Jr. var kosinn leiðtogi félagsins vegna þess að hann var ungur, vel þjálfaður og var það nýr í bænum að hann hafði ekki eignast sér neina óvini.[11] Þar sem að blökkumenn voru 70% þeirra sem ferðuðust með strætisvögnunum bar þessi barátta árangur. Það var þó ekki fyrr en 382 dögum seinna en þá þurftu blökkumenn ekki að víkja úr sætum fyrir hvítum mönnum, þeir höfðu jöfn réttindi í strætisvögnunum. Þetta þýddi ekki að blökkumenn væru jafnir þeim hvítu, þvert á móti, því enn var langt í land. Margir hvítir menn voru ósáttir við sigur blökkumanna í Montgomery og kvöldið eftir samkomulagið þar, um strætisvagnana, urðu sex sprengingar í svertingjahverfunum. Fjórar kirkjur blökkumanna voru lagðar í rúst ásamt tveim heimilum.[12][13]

Dagana 10 – 11. janúar 1957 var haldin ráðstefna í kirkju í Atlanta. Á hana mættu 60 foringjar blökkumanna, sem börðust fyrir jöfnum rétti blökkumanna og hvítra manna. Flestir þessara manna voru prestar og var King Jr. í hópnum. Þeir stofnuðu samtök kristinna leiðtoga í Suðurríkjunum (SCLC). Það gaf King Jr. möguleika á því að flytja mál blökkumanna víða. Hann hélt marga fyrirlestra í öllum landshlutum og ræddi þau málefni sem snertu kynþáttamisrétti.[14][15]

 
Martin Luther King flytur ræðu við mótmælasamkomu gegn Víetnamstríðinu í Minnesota-háskóla árið 1967.

Í febrúar 1960 settust fjórir ungir blökkumenn við matarborð á veitingarstað í borginni Greensboro í Norður-Carolinu. Blökkumönnum var heimilt að versla á staðnum en ekki að setjast niður í matsalnum og panta sér mat. Eigendurnir, sem voru hvítir, fylgdust með þeim og veitingarstúlkurnar þóttust hvorki heyra í þeim né taka eftir þeim þegar þeir voru að reyna að panta sér mat og sátu þeir því þarna þar til staðnum var lokað. Daginn eftir komu þeir aftur með 25 vini sína með sér og hélt þetta áfram dag eftir dag og alltaf voru fleiri þátttakendur. Þessi mótmæli breiddust út til 14 borga í Suðurríkjunum. Engin skipulögð samtök voru að baki þessarar setu blökkumanna og um haustið tók King Jr. sjálfur þátt í mótmælasetunni.[16]

Þann 28. ágúst 1963 var Washington gangan gengin, frá minnisvarða Washington að minnismerki Lincolns. Um 250.000 manns gengu þessa göngu og söfnuðust saman að henni lokinni við minnismerki Lincolns þar sem að leiðtogar mannréttindabaráttunnar töluðu. Áhrifamesta ræðan var „Ég á mér draum“ ræðan sem Martin Jr. hélt. Árangurinn var mikill og árið 1963 var til dæmis aðskilnaður blökkumanna og hvítra manna afnuminn í mörgum skólum. Umskiptin í skólunum voru gífurleg og breiddust fljótt út.[17][18]

Árið 1964 vann King Jr. Friðarverðlaun Nobels þegar hann var einungis 35 ára. Þá var hann yngsti maðurinn sem hlotið hafði þessa viðurkenningu. Hann gaf allt vinningsféð til áframhaldandi mannréttindabaráttu blökkumanna.[19]

Dauði Martins Luthers King

breyta

Martin Luther King Jr. var í borginni Memphis í Tennessee þann 4. apríl árið 1968. Þar var hann til þess að sýna svörtum flutningaverkamönnum stuðning en þeir voru í verkfalli. Hann gisti á móteli og á svölunum á mótelinu var hann skotinn til bana. Skotið hæfði hann í hálsinn og skemmdi neðri kjálkann. Martin Jr. hlaut einnig mænuskaða. Innan við klukkustund síðar lést Martin Luther King Jr. á slysavarðstofu St. Jósefs sjúkrahússins í Memphis. Morðinginn fannst, hann hét James Earl Ray og var fyrrum fangi. Hann játaði strax á sig morðið til þess að sleppa við dauðarefsingu. Vegna þess að hann játaði strax, var ekki talin nein þörf á því að halda réttarhöld og því veit enginn hvers vegna Ray drap King Jr. Ray var sendur í fangelsi og dó þar árið 1998. Fjölskylda Martins hélt því fram að FBI hefði fengið Ray til þess að fremja morðið en vegna þess að það voru engin réttarhöld veit enginn hvers vegna Martin Luther King Jr. var drepinn.[20][21]

Eftir dauða Martin Luther Kings Jr. bárust fjölskyldu hans fimmtíuþúsund bréf, símskeyti, kort, blóm og aðrar samúðarkveðjur frá fólki allstaðar að úr heiminum. Það sýndi hversu merkur og mikilvægur maður Martin Luther King Jr. var.[22]

Tilvísanir

breyta
 1. Bennett, Lerone, bls. 14-15.
 2. „Martin Luther King - Biography“.
 3. Bennett, Lerone, bls. 48 og 189.
 4. Osborne, Charles, bls. 5-6 og 16-17.
 5. Martin Luther King, Jr. – The Montgomery bus boycott.
 6. Bennett, Lerone, bls. 82.
 7. Martin Luther King, Jr. – The letter from the Birmingham jail.
 8. „Martin Luther King - Biography“.
 9. „Martin Luther King dó fyrir draum sinn“, bls. 21.
 10. Ég á mér draum, bls 5-6.
 11. Martin Luther King, Jr. – The Montgomery bus boycott.
 12. Martin Luther King - Biography.
 13. Osborne, Charles, bls. 7.
 14. Bennett, Lerone, bls. 82.
 15. Martin Luther King, Jr. – The Southern Christian Leadership Conference.
 16. Osborne, Charles, bls. 22-25.
 17. Osborne, Charles, bls. 48.
 18. Martin Luther King, Jr. – The letter from the Birmingham jail.
 19. „Martin Luther King - Biography“.
 20. „Martin Luther King dó fyrir draum sinn“, bls. 21.
 21. Osborne, Charles, bls. 86-90.
 22. King, Coretta Scott, bls. vii.

Heimildir

breyta
 • Bennett Lerone. What Manner of Man. London: George Allen & Unwin Ltd, 1966.
 • King, Coretta Scott. My life whit Martin Luther King Jr. New York: Holt, Rinehart and Winston, 1969.
 • „Martin Luther King - Biography“. Nobelprize.org. 11 Janúar 2011. http://nobelprize.org/nobel_prizes/peace/laureates/1964/king-bio.htm[óvirkur tengill]
 • „Martin Luther King dó fyrir draum sinn“. Sagan öll. 2007, 10: 21.
 • „Martin Luther King, Jr.“ Encyclopædia Britannica. Encyclopædia Britannica Online. Encyclopædia Britannica, 2011. Web. 11. janúar 2011. http://www.britannica.com/EBchecked/topic/318311/Martin-Luther-King-Jr
 • Oates, Stephen B. Let the Trumpet Sound the life of Martin Luther King Jr. New York: New American library, 1982.
 • Osborne, Charles (ritstjóri). Ég á mér draum. Bjarni Sigurðsson þýddi. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1968.

Tenglar

breyta