Barry Goldwater

Bandarískur stjórnmálamaður (1909-1998)

Barry Morris Goldwater (2. janúar 1909[1] – 29. maí 1998) var bandarískur stjórnmálamaður, athafnamaður, herflugmaður og rithöfundur sem gegndi fimm kjörtímabilum á öldungadeild Bandaríkjaþings (árin 1953–1965 og 1969–1987). Goldwater var frambjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum 1964 en tapaði fyrir sitjandi forsetanum Lyndon B. Johnson.

Barry Goldwater
Goldwater árið 1962.
Öldungadeildarþingmaður fyrir Arizona
Í embætti
3. janúar 1953 – 3. janúar 1965
ForveriErnest McFarland
EftirmaðurPaul Fannin
Í embætti
3. janúar 1969 – 3. janúar 1987
ForveriCarl Hayden
EftirmaðurJohn McCain
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. janúar 1909
Phoenix, Arizona, Bandaríkjunum
Látinn29. maí 1998 (89 ára) Paradise Valley, Arizona, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiMargaret Johnson (g. 1934; d. 1985)
Susan Shaffer Wechsler (g. 1992)
Börn4
HáskóliHáskólinn í Arizona
Undirskrift

Goldwater er gjarnan talið til tekna að hafa stuðlað að uppgangi íhaldsstefnu í bandarískum stjórnmálum á sjöunda áratugnum. Þrátt fyrir afgerandi ósigur hans í forsetakosningunum 1964 telja margir sagnfræðingar og stjórnmálaskýrendur að hann hafi lagt grunninn að íhaldsbyltingu næstu ára innan Repúblikanaflokksins og að grasrótarfylgi hans hafi til lengri tíma stuðlað að „Reaganbyltingunni“ á níunda áratugnum. Goldwater hafði einnig töluverð áhrif á þróun frjálshyggju í bandarískum nútímastjórnmálum.[2]

Æviágrip

breyta

Barry Goldwater fæddist þann 2. janúar 1909 í Phoenix í Arizona. Föðurafi hans var Gyðingur sem hafði flutt til Bandaríkjanna frá Poznań í Póllandi. Í Bandaríkjunum stofnaði hann verslunarfélög sem gerðu fjölskylduna vellauðuga. Móðir Barrys var kristin Bandaríkjakona úr biskupakirkjunni og Barry var alinn upp í kristinni trú.[3] Vegna ætternis síns varð Barry þó fyrir Gyðingahatri á ævi sinni: Meðal annars var honum eitt sinn meinuð innganga í golfklúbb vegna þess að faðir hans var Gyðingur.[4]

Goldwater gekk í Háskólann í Arizona í eitt ár og gekk síðan í herskóla í tvö ár. Hann hætti síðan námi og hóf störf hjá fjölskyldufyrirtækinu eftir andlát föður síns. Hann var gerður yfirmaður fyrirtækisins árið 1937 og þótti sýna dugnað við að halda því á floti á árum kreppunnar miklu.[3] Goldwater gegndi þjónustu í bandaríska flughernum í seinni heimsstyrjöldinni og var áfram hershöfðingi í varaliði flughersins eftir að styrjöldinni lauk.[4]

Árið 1949 hóf Goldwater þátttöku í stjórnmálum þegar verslunarmenn hvöttu hann til að gefa kost á sér í borgarstjórnarkosningum Phoenix fyrir óháða kjósendur. Goldwater náði kjöri og var endurkjörinn árið 1951. Þótt forfeður hans hefðu flestir verið Demókratar gerðist Goldwater Repúblikani og varð þekktur fyrir íhaldssöm stefnumál. Árið 1950 stýrði Goldwater kosningabaráttu Howards Pyle í embætti fylkisstjóra Arizona og átti drjúgan þátt í því að Pyle varð fyrstur Repúblikana til að ná kjöri í embættið í um þrjátíu ár.[3]

Goldwater bauð sig fram á öldungadeild Bandaríkjaþings árið 1952 og vann nauman sigur. Hann varð fyrsti öldungadeildarþingmaður Repúblikana frá Arizona síðan 1912.[3] Hann náði fljótt miklum vinsældum meðal bandarískra hægri- og íhaldsmanna og tók brátt við af Robert A. Taft sem helsti leiðtogi íhaldsvængs Repúblikanaflokksins. Goldwater hafnaði hugmyndum um friðsamlega sambúð risaveldanna í kalda stríðinu og sagðist vilja stefna að fullnaðarsigri á kommúnismanum. Hann talaði jafnframt fyrir auknum sjálfsákvörðunarrétti bandarísku fylkjanna og skertum umsvifum alríkisstjórnarinnar í Washington.[5]

Goldwater var persónulega á móti kynþáttaaðskilnaði í Bandaríkjunum og studdi ýmsar lagasetningar sem bönnuðu aðskilnað hvíta og svartra í alríkisstofnunum og í stéttarfélögum. Hins vegar var hann almennt mótfallinn því að alríkisstjórn Bandaríkjanna beitti ríkisvaldi til þess að binda enda á aðskilnaðarstefnu í fylkjum landsins. Þetta leiddi til þess að hann kaus meðal annars á móti mannréttindafrumvarpinu 1964, sem bannaði mismunun eftir kynþætti, litarafti, trúarbrögðum, kyni og þjóðerni. Goldwater taldi frumvarpið ekki samræmast stjórnarskrá Bandaríkjanna en mótatkvæði hans gegn því reyndist honum síðar erfitt þar sem það gerði hann óvinsælan meðal blökkumanna og meðal frjálslyndra kjósenda í eigin flokki. Goldwater sagðist síðar sjá eftir að hafa kosið gegn frumvarpinu.

Forsetakosningarnar 1964

breyta
 
Ronald Reagan flytur ræðu til stuðnings Goldwater í kosningabaráttunni 1964.

Goldwater sóttist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 1964. Helsti keppinautur hans í forvalinu var Nelson Rockefeller, sem var einn af leiðtogum frjálslyndari arms Repúblikana. Goldwater varð líklegasti frambjóðandi flokksins eftir að hann vann sigur gegn Rockefeller í Kaliforníu, sem hafði verið talið öruggt vígi Rockefellers.[6] Vinsældir Goldwaters skýrðust meðal annars af aukinni andúð suðurríkjamanna og íhaldsmanna á stjórn Johns F. Kennedy, sem reyndi að koma til móts við réttindahreyfingu blökkumanna með lagafrumvarpi um borgaraleg réttindi.[7]

Á endanum var Goldwater valinn sem frambjóðandi Repúblikana í kosningunum og hann atti því kappi við Lyndon B. Johnson, sem hafði tekið við forsetaembættinu eftir morðið á Kennedy í nóvember 1963. Í aðdraganda kosninganna talaði Goldwater fyrir aukinni hörku gegn kommúnistum í Víetnamstríðinu, hertu viðskiptabanni gegn Kúbu og auknum fjárframlögum til vopnaframleiðslu og framleiðslu sprengjuflugvéla.[6] Goldwater vildi jafnframt rýmka möguleikann á beitingu kjarnavopna gegn andstæðingum Bandaríkjanna í kalda stríðinu. Hann lýsti meðal annars yfir að réttast hefði verið að beita kjarnavopnum í orrustunni um Dien Dien Phu[8] og sagðist vilja heimila herforingjum í Evrópu og Víetnam að beita kjarnavopnum án þess að þurfa sérstakt leyfi forsetans.[9]

Í kosningabaráttunni útmálaði Johnson Goldwater sem stríðsæsingamann og varaði við því að hann kynni að hrinda af stað kjarnorkustyrjöld ef hann yrði kjörinn forseti. Eitt frægasta dæmið um þetta var „Daisy-auglýsingin“ svokallaða, þar sem lítil stúlka sést telja niður petala af blómi þegar kjarnorkusprengja springur skyndilega.[10] Ímynd Goldwaters bað jafnframt hnekki fyrir það að eiginlegir öfgahópar á borð við Ku Klux Klan og John Birch-samtökin urðu háværir og opinskáir stuðningsmenn hans.[11][12] Allt þetta leiddi til þess að víða var litið á Goldwater sem öfgamann í aðdraganda forsetakosninganna.[13]

Goldwater galt afhroð í kosningunum á móti Johnson. Johnson hlaut um 43 milljónir atkvæða og 486 kjörmenn en Goldwater hlaut 27 milljónir atkvæða og 52 kjörmenn.[14] Kosningarnar sýndu þó fram á ákveðna umpólun í bandarískum stjórnmálum þar sem öll fylkin sem kusu Goldwater voru í suðurhluta landsins. Suðurríkin höfðu áður yfirleitt kosið Demókrata en á næstu árum urðu þau smám saman sterkustu vígi Repúblikanaflokksins vegna andstöðu suðurríkjamanna við stuðning Demókrata við réttindahreyfingu blökkumanna.

Þingstörf á seinni árum

breyta

Árið 1968 náði Goldwater kjöri á öldungadeildina fyrir Arizona á ný. Íhaldsvængur Repúblikanaflokksins varð ráðandi fylking innan flokksins á næstu áratugum og stefna Goldwaters hlaut því að nokkru leyti uppreist æru í augum flokksmanna. Goldwater varð ötull stuðningsmaður Ronalds Reagan í forsetakosningunum 1980. Reagan hafði flutt sjónvarpsræðu til stuðings Goldwater í kosningunum 1964 og margir af gömlum stuðningsmönnum hans fylktust nú að baki Reagan.[15] Eftir að Reagan vann kosningarnar komst blaðamaðurinn George Will svo að orði: „Við sem kusum Goldwater árið 1964 teljum að hann hafi í raun unnið, það tók bara sextán ár að telja atkvæðin.“[16]

Þrátt fyrir að Goldwater hafi verið eins konar faðir nútímaíhaldsstefnu Repúblikanaflokksins var hann ekki eins íhaldssamur í mörgum efnum og flokkurinn átti eftir að verða undir lok ævi hans. Hann var til að mynda hlynntur rétti samkynhneigðra til að gegna herþjónustu, lögleiðingu á kannabis í lækningaskyni og rétti kvenna til frjálsra þungunarrofa. Goldwater var einnig mjög andsnúinn aukinni tilhneigingu Repúblikana til að blanda trúarbrögðum saman við stjórnmál og varð gagnrýninn á leiðtoga kristinna íhaldsmanna sem öðluðust síaukin áhrif innan flokksins. Þegar sjónvarpspredikarinn Jerry Falwell Sr. lét þau orð falla að „allir kristnir menn ættu að hafa áhyggjur“ af útnefningu Söndru Day O'Connor í Hæstarétt Bandaríkjanna svaraði Goldwater: „Allir kristnir menn ættu að sparka beint í rassinn á Jerry Falwell.“[17]

Goldwater settist í helgan stein árið 1987. John McCain tók við sæti hans á öldungadeild Bandaríkjaþings.

Tilvísanir

breyta
 1. Internet Accuracy Project, Senator Barry Goldwater. Skoðað 15. maí 2021.
 2. Poole, Robert (september 1998), „In memoriam: Barry Goldwater“, Reason (Minningargrein), afrit af upprunalegu geymt þann 28. júní 2009
 3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Hver er Barry Goldwater?“. Morgunblaðið. 24. júlí 1964. bls. 13.
 4. 4,0 4,1 „Barry Goldwater“. Alþýðublaðið. 15. júlí 1964. bls. 5; 10.
 5. Styrmir Gunnarsson (1. apríl 1964). „Tekst Goldwater að sigra?“. Frjáls verslun. bls. 17-18.
 6. 6,0 6,1 „Goldwater og „hinn nýi Repúblikanaflokkur". Morgunblaðið. 17. júlí 1964. bls. 13; 12.
 7. „Verður Goldwater forsetaefni Repúblikana?“. Alþýðublaðið. 27. ágúst 1963. bls. 8-9.
 8. Tannenwald, Nina (2006). „Nuclear Weapons and the Vietnam War“ (PDF). The Journal of Strategic Studies. 29 (4): 675–722. doi:10.1080/01402390600766148. S2CID 153628491. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 1. nóvember 2013. Sótt 24. maí 2021.
 9. Our Defense: a Crucial Issue for Candidates. 25. september 1964. bls. 11. Sótt 24. maí 2021.
 10. Sveinbjörn Þórðarson (7. júlí 2014). „Kjarnorkustríð í kosningaauglýsingu Lyndons Johnsons“. Lemúrinn. Sótt 24. maí 2021.
 11. „Öfgamenn í Bandaríkjunum líta á BARRY GOLDWATER sem „foringja". Vísir. 29. júlí 1964. bls. 4; 6.
 12. Sveinbjörn Þórðarson (12. maí 2013). „Meðlimir Ku Klux Klan styðja Barry Goldwater sem forsetaefni, 1964“. Lemúrinn. Sótt 24. maí 2021.
 13. Þorsteinn Thorarensen (24. júlí 1964). „Öfgamaðurinn“. Vísir. bls. 1.
 14. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 355. ISBN 978-9935-9194-5-8.
 15. „Óvarkár en einlægur“. Dagblaðið Vísir. 11. október 1986. bls. 53-54.
 16. Will, George (31. maí 1998). „The Cheerful Malcontent“. The Washington Post. Sótt 23. maí 2021.
 17. Magnuson, Ed (20. júlí 1981), „The Brethren's First Sister“, Time, afrit af uppruna á 15. janúar 2007