Menningar- og vísindahöllin í Varsjá

áberandi háhýsi í miðborg Varsjá í Póllandi

Menningar- og vísindahöllin í Varsjá (pólska: Pałac Kultury i Nauki, skammstöfun: PKiN) er hæsta bygging Póllands, áttunda hæsta bygging Evrópusambandsins og er í 187 sæti í heiminum öllum. Hún var byggð á tíma Stalíns og var þá kölluð menningar- og vísindahöll Jósefs Stalíns (p. Pałac Kultury i Nauki imienia Józefa Stalina). Hætt var að kenna hana við Stalín þegar áhrif hans dvínuðu og nafn hans var líka fjarlægt af skilti í anddyrinu og höggmynd sem er í byggingunni sjálfri.

Menningar- og vísindahöllin í Varsjá

Veröndin á 30. hæðinni (114 m yfir sjávarmáli) er vinsæll ferðamannastaður og er þar gott útsýni yfir borgina.

Byggingarframkvæmdir hófust árið 1952 en þeim var lokið árið 1955. Höllin var gjöf stjórn Sovétríkjanna til Pólverja og var byggð eftir sovéskri hönnun, að mestu leyti reist af 3500 verkamönnum frá Sovétríkjunum. Sextán hinna rússnesku verkamanna létust meðan á framkvæmdum stóð. Sovésku verkamennirnir bjuggu í nýju hverfi sem reist var á kostnað Pólverja og höfðu eigin kvikmyndahús, veitingastaði, félagsmiðstöð og sundlaug.

Hönnun hallarinnar er mjög svipuð þeim skýjakljúfum sem reistir voru í Sovétríkjunum á þeim tíma, sérstaklega Ríkisháskólanum í Moskvu. Samt sem áður setti aðalarkitektinn Lev Rudnev pólskan svip á bygginguna, enda ferðaðist hann um Pólland og skoðaði pólskan arkitektúr til að leita sér innblásturs. Múrverk efst á gríðastóru veggjunum var gert eftir dæmum frá húsum í endurreisnarstíl og höllum í Kraká og Zamość.

Stuttu eftir að húsið var opnað hélt Félag lýðræðissinnaðra unglinga hátíð þar. Margir tignir gestir skoðuðu höllina en þar komu líka fram margir frægir listamenn frá ólíkum löndum. Til dæmis voru þar tónleikar með Rolling Stones árið 1967 og var í fyrsta skiptið sem vestræn rokkhljómsveit lék austan járntjaldsins. Árið 1985 voru frægir tónleikar með Leonard Cohen haldnir þar. Menn bjuggust við að hann myndi láta til sín taka með pólitískum áherslum en hann kom sér hjá því með löngum inngangi fyrir tónleikana.

Nútíminn

breyta

Höllin er eitt helsta kennileiti í Varsjáborg og hefur verið mjög umdeild bygging frá upphafi. Í fyrstu hötuðust margir Pólverjar við höllina sökum þess að þeir töldu hana tákn um yfirráð Sóvetríkjanna. Þetta er skoðun manna enn þann dag í dag. Sumir hafa líka sagt, hvað sem öllum pólitík líður, að byggingin hafi eyðilagt sjóndeildarhring gömlu borgarinnar og að hún falli illa að öðrum byggingum.

Þeir sem búa í Varsjá kalla höllina mörgum gælunöfnum, meðal annars: Pekin (þýðir „Peking“ á pólsku en leitt af skammstöfuninni PKiN), Pajac („trúður“, hljómar svipað og Pałac á pólsku), sprauta Stalíns, fíllinn í blúndunærfötunum eða rússneska brúðkaupstertan.

Nútildags er byggingin notuð sem sýningaraðstaða og skrifstofa. Hún er 231 m að hæð með turnspírunni sem ein og sér er 43 m há. Í höllinni eru 3288 herbergi á 42 hæðum, þar á meðal bíó, leikhús, minjasöfn, skrifstofur, bókabúðir og stór ráðstefnusalur sem rúmar allt að 3000 manns. Þar er einnig viðurkenndur háskóli, Collegium Civitas, sem er á 11. og 12. hæðum. Samtals er byggingin 123.000 m² að flatarmáli.

Myndasafn

breyta

Heimild

breyta