Kaiserslautern er háskólaborg í þýska sambandsríkinu Rínarlandi-Pfalz og er með rúma 99 þúsund íbúa (2021).

Kaiserslautern
Skjaldarmerki Kaiserslautern
Staðsetning Kaiserslautern
SambandslandRínarland-Pfalz
Flatarmál
 • Samtals139,72 km2
Hæð yfir sjávarmáli
251 m
Mannfjöldi
 (2021)
 • Samtals99.000
 • Þéttleiki695/km2
Vefsíðawww.kaiserslautern.de

Lega breyta

 
Keisarabrunnurinn í Kaiserslautern sýnir Friðrik Barbarossa keisara

Kaiserslautern liggur mjög sunnarlega í sambandslandinu, fyrir vestan Rínarfljót en fyrir austan Saarland. Næstu borgir eru Ludwigshafen og Mannheim til austurs (50 km) Saarbrücken til suðvesturs (50 km) og Karlsruhe til suðausturs (70 km).

Skjaldarmerki breyta

Skjaldarmerki Kaiserslautern eru þrjár lóðréttar rendur, rautt-hvítt-rautt. Í hvítu röndinni er fiskur. Hvíta röndin kemur fyrst fram 1266 og merkir ána Lauter sem rennur í gegnum borgina. Fiskurinn kemur fyrst fram 1373 og er tekinn úr þjóðsögu um Friðrik Barbarossa keisara. Núverandi merki var tekið upp 1842.

Orðsifjar breyta

Borgin er nefnd eftir ánni Lauter, sem áður var kölluð Lutra. Til er þjóðsaga um tilurði heitisins Lutra. Þar segir frá kristinni konu að nafni Lutrina. Hún var frá Trier en varð fyrir barðinu á trúarofsóknum. Lutrea flúði því og settist að við læk sem hún kallaði Lutra, eftir sjálfa sig. Kaiser-nafninu var bætt við eftir að Friðrik Barbarossa keisari lét reisa virki í borginni 1152.[1]

Saga Kaiserslautern breyta

Miðaldir breyta

830 kemur bærinn fyrst við skjöl og kallaðist þá Lutra eða Villa Lutra. 985 gefur Otto III keisari Otto frá Kärnten bæinn, ásamt virki þar í grennd. Otto var af Salier-ættinni. Afkomendur hans reistu mikil borgarvirki sem Friðrik Barbarossa keisari lét stækka 1152. Friðrik gerði virkið að aðsetri sínu, þrátt fyrir að hann sæti ekki í því nema fjórum sinnum alls. Eftir þetta breyttist heiti bæjarins í Kaiserslautern (Lutra Imperialis á latínu). Bærinn óx mikið í kringum keisarasetrið. 1269 var haldið brúðkaup mikið þar, er Richard frá Cornwall af Plantagenet-ættinni (sonur Jóhanns landlausa Englandskonungi) kvæntist Beatrix frá Falkenburg. Richard var einn þeirra erlendu smákonunga þýska ríkisins sem varla stigu fæti á landið í konungslausa tímanum (Interregnum). 1276 veitti konungurinn Rúdolf af Habsburg Kaiserslautern fríborgarstatus. Þessi tími var blómatími borgarinnar. Fríborgarstatusinn hélst þó ekki nema til 1357, er borgin verður hluti af héraðinu Pfalz.

30 ára stríð og eftirmáli breyta

 
Kaiserslautern á 17. öld. Mynd eftir Matthäus Merian.

Strax við upphaf 30 ára stríðsins voru borgarmúrarnir endurnýjaðir. Engu var til sparað og varð Kaiserslautern að miklu virki. Engu að síðu náðu Spánverjar að hertaka borgina 1621. Þeir héldu borginni í ellefu ár, þar til sænskur her nálgaðist 1632. Í stað þess að verjast, flúðu Spánverjar og eftirlétu Svíum borgina. Í hvorugu skiptin var skotið á borgina. En 1635 birtist keisaraher við borgardyrnar og gerði umsátur um Kaiserslautern. Ráðist var á borgina og skotið á hana með fallbyssum. Þegar borgarmúrinn gaf sig nálægt kastalanum 17. júlí 1635 komust óvinahermenn inn í borgina. En þeir urðu að fara í gegnum vínkjallara kastalans. Áður en lengra var haldið supu margir þeirra ótæpilega á víninu og réðust svo inn í borgina. Í hálfölvuðu ásigkomulagi ollu þeir miklu blóðbaði meðal almennings og brenndu borgina nær til kaldra kola. Þeir sem af komust flúðu út í nálæga skóga. Einn hópur eftirlifenda náðist og var strádrepinn. Það tók 150 ár þar til íbúar Kaiserslautern urðu aftur jafn fjölmennir og þeir voru áður en árásin skall á. 1644 hröktu Frakkar keisaraherinn burt úr borginni, sem við það var aftur hluti af Pfalz. Friður var saminn 1648. Þrátt fyrir það yfirgáfu síðustu spænsku hermennirnir ekki héraðið fyrr en 1652. Í 9 ára stríðinu hertóku Frakkar borgina og héldu henni til stríðsloka 1697. Í spænska erfðastríðinu 1703 hertóku Frakkar borgina enn á ný. Að þessu sinni rifu þeir niður ýmis varnarvirki.

Bardaginn um Kaiserslautern breyta

1793 réðist franskur byltingarher inn í þýska ríkið og nálgaðist Kaiserslautern í nóvember. Þar mættu þeim herir frá Saxlandi og Prússlandi. Það dró til stórorrustu milli þessara aðila sem stóð í þrjá daga (28.-30. nóvember). Í orrustunni biðu Frakkar lægri hlut og urðu frá að hverfa. Einn herforingja prússa var Blücher en hann ritaði seinna um orrustuna að hann hefði aldrei á ævi sinni tekið þátt í eins flóknum bardaga og í orrustunni um Kaiserslautern. En 1796 komu Frakkar aftur og náðu að þessu sinni að hertaka borgina. 1804 sótti Napoleon sjálfur borgina heim til að litast um á orrustuvellinum þar sem Frakkar biðu ósigur 11 árum áður. 1814 yfirgáfu Frakkar héraðið. Prússar og Rússar taka borgina, sem í upphafi var stjórnuð af bærískum og austurrískum fulltrúum. 1816 drógu Austurríkismenn sig í hlé og verður Kaiserslautern þá innlimuð í konungsríki Bæjaralands.

Nýrri tímar breyta

Á bæríska tímanum hélt iðnbyltingin innreið sína í borgina. Lagning járnbrautarinnar 1848 var gífurleg lyftistöng fyrir borgina. Að öðru leyti var iðnaður þar ekki eins mikill og í öðrum borgum í Rínarlandi. 1918 varð borgin hluti af Saarland og er hersetin af Frökkum allt til 1930. Kaiserslautern varð fyrir miklum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Um tveir þriðju hlutar borgarinnar eyðilagðist. Þann 20. mars 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina, en hún var eftir stríð á franska hernámssvæðinu. Þrátt fyrir það var bandarísk herstöð starfrækt þar en milli 1951-55 var hún stærsta bandaríska herstöðin í Evrópu. 1969 voru nokkur nágrannasveitarfélög innlimuð borginni. Við það fór íbúafjöldi borgarinnar yfir 100 þúsund en hefur dalað aðeins síðan. 1992 yfirgáfu síðustu frönsku hermennirnir borgina.

Viðburðir breyta

  • Þjóðhátíð Kaiserslautern fer fram í júlí ár hvert og er þá öll miðborgin undirlögð hátíðarhöldum.
  • NATO-Musikfestival er heiti á alþjóðlegri tónleikahátíð helguð hertónlist. Hátíðin fer fram á tveggja ára fresti í Fritz-Walter-leikvanginum.

Íþróttir breyta

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er 1. FC Kaiserslautern. Það hefur fjórum sinnum orðið þýskur meistari (1951, 1953, 1991 og 1998) og tvisvar bikarmeistari (1990 og 1996). Meðal fyrrum leikmanna félagsins má nefna Michael Ballack, Mario Basler, Andreas Brehme og Miroslav Klose. Auk þess lék Íslendingurinn Lárus Guðmundsson með félaginu 1987-88.

Vinabæir breyta

Kaiserslautern viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar breyta

Byggingar og kennileiti breyta

 
Maríukirkjan
 
Rústir Kaiserpfalz-virkisins
  • Maríukirkjan er kaþólsk kirkja í borginni, helguð Maríu mey. Hún var reist 1887-92 í nýgotneskum stíl. Turninn er 92 metra hár og er þar með langhæsta mannvirkið í miðborginni og sennilega þriðja hæsta kirkjan í Pfalz. Í loftárásum seinna stríðsins eyðilögðust dyrnar, allir gluggar og lítill hluti þaksins. Gluggarnir voru með myndum af þýskum heilögum en nýju gluggarnir sýna æviskeið Maríu mey.
  • Kaiserpfalz er heiti á rústum gamals virkis, einnig kallað Barbarossaburg. Virkið var reist af Friðrik Barbarossa keisara 1152-58 á stað sem áður hafði staðið virki. Eftir af Staufen ættin missti völd, minnkaði vægi virkisins talsvert. Pfalzgreifinn Johann Casimir lét reisa sér höll við hliðina á virkinu en bæði mannvirkin skemmdust töluvert í 9 ára stríðinu 1688 af völdum Frakka. 1703 brenndu Frakkar virkið og sprengdu það loks 1714, þannig að nú eru bara rústir einar eftir. Þær eru aðgengilegar almenningi.

Tilvísanir breyta

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 146 og 164.

Heimildir breyta