Hólaskóli (1106–1802)

Hólaskóli var skóli sem var á biskupssetrinu á Hólum í Hjaltadal frá því snemma á 12. öld og til vors 1802, þó ekki óslitið. Hann var ásamt Skálholtsskóla helsta menntastofnun þjóðarinnar. Hlutverk hans var alla tíð fyrst og fremst að mennta menn til að gegna prestsembættum en fyrir suma var hann einnig undirbúningur undir framhaldsnám erlendis.

Upphafsár Hólaskóla

breyta

Fyrsti Hólabiskupinn, Jón Ögmundsson, var vel menntaður, hafði alist upp hjá Ísleifi biskupi Gissurarsyni og lært hjá honum, og hann stofnaði fljótlega skóla á Hólum – líklega um 1108 þótt oftast sé skólinn talinn hafa verið stofnaður 1106 þegar Jón var vígður. Skólinn var reistur í vestur frá kirkjudyrum og var hin vandaðasta smíð.

Fyrsti skólameistarinn var Gísli Finnason frá Gautlandi og kenndi hann latínu. Biskup launaði honum vel og hann var lengi við skólann. Annar kennari við skólann var frakkneskur, Ríkinni prestur, og kenndi hann söng og versagjörð. Hann var, eins og segir í Jóns sögu helga, „svo glöggur í sönglist og minnugur, að hann kunni utanbókar allan söng á tólf mánuðum, bæði í dagtíðum og óttusöngum, með öruggri hljóðasetning og tónagrein.”

Fjöldi merkra manna stundaði nám í skóla Jóns helga og þar var einnig stúlka sem hét Ingunn Arnórsdóttir af ætt Ásbirninga, afasystir Kolbeins Tumasonar. „Var hún engum annarra síðri í bókmenntum, og kenndi mörgum grammaticam, og fræddi hvern er nema vildi; urðu því margir vel menntir undir hennar hendi. Hún rétti mjög latínubækur, svo að hún lét lesa fyrir sér, en hún sjálf saumaði, tefldi, eða vann aðrar hannyrðir”.

Slitrótt skólastarf

breyta

Víst er að skóli var á Hólum á meðan Jón lifði, til 1121, og líklegt að eftirmenn hans til 1203 hafi haldið við einhvers konar skóla, enda voru þeir margir mjög vel menntaðir sjálfir. Í tíð Guðmundar Arasonar hefur skólahald sennilega verið slitrótt, enda biskup sjálfur oft fjarverandi, brottrækur af staðnum eða erlendis. 1218 setti hann þó skóla á Hólum og hét skólameistarinn Þórður ufsi, en ekki leið á löngu þar til Arnór Tumason kom með mikið lið og rak biskup og allt hans lið í burtu, þar á meðal skólameistarann og sveinana.

Næstu biskupar voru erlendir og óvíst að þeir hafi haldið skóla en í tíð Jörundar Þorsteinssonar var skóli á Hólum og var Óblauður Hallvarðsson þá skólameistari um tíma og svo Lárentíus Kálfsson, síðar biskup. Eftirmaður Jörundar, Auðunn rauði, hélt líka skóla, og eins Lárentínus þegar hann varð biskup. Skólameistarar sem vitað er um á þeim árum voru Egill Eyjólfsson, síðar biskup, séra Jón Koðránsson og séra Ólafur Hjaltason. Séra Valþjófur kenndi söng á dögum Lárentíusar biskups.

Egill Eyjólfsson biskup hélt líka skóla en Norðmennirnir Ormur Ásláksson og Jón skalli Eiríksson gerðu það ekki. Daninn Pétur Nikulásson hafði skóla og stýrði honum Böðvar djákni og seinna Hans nokkur, doctor decretorum. Eftir Svartadauða getur ekkert um skóla á Hólum og raunar varla fyrr en um siðaskipti; er alls óvíst að nokkurt eiginlegt skólahald hafi verið þótt biskupar hafi stundum tekið ungmenni og kennt þeim prestsverk og messusöng. Þeir voru þó ekki allir vel menntaðir sjálfir og Jón Arason mun til dæmis ekki hafa kunnað mikið í latínu.

Hólaskóli í lútherskum sið

breyta

Árið 1552 skipaði konungur Páli Hvítfeld höfuðsmanni að koma hér á latínuskólum, bæði í Skálholti og á Hólum. Skyldi setja vel lærðan og guðhræddan skólameistara yfir hvorn skóla, svo og heyrara (kennara).

24 piltar voru í hvorum skóla um sig fyrst eftir siðbreytingu og skyldu þeir fá góðan mat og drykk eftir landsvenju, vaðmál til fata og hverjir tveir piltar saman rekkjuvoð annaðhvert ár. Eitt atriði var þó í fyrirmælum konungs sem Íslendingar treystu sér ekki til að fara eftir en það var að veita skólapiltum öl daglega. Skólinn átti líka að vera bæði vetur og sumar en eftir því var aldrei farið. Og á dögum Steins Jónssonar og Björns Þorleifssonar Hólabiskupa var svo þröngt í búi á biskupssetrinu að oft þurfti að slíta skóla um miðjan vetur og senda piltana heim því ekki var til nægur matur til að endast veturinn.

Eftir því sem leið á 18. öldina varð hagur skólans æ verri og árið 1799 skipaði konungur nefnd sem átti að gera tillögur um úrbætur. Allir voru sammála um að flytja skólann frá Hólum en sumir vildu færa hann til Akureyrar og hafa áfram tvo latínuskóla í landinu. Það varð þó ofan á að leggja skólann niður og sameina hann Hólavallarskóla, og var það gert 1802. Skömmu síðar flutti skólinn til Bessastaða.

Síðustu Hólaskólamenn

breyta

Síðustu stúdentarnir voru útskrifaðir 20. maí 1802. Þeir voru þessir: Hallgrímur Scheving, kennari á Bessastöðum, Ólafur Þorleifsson, prestur á Kvíabekk, Hallgrímur Jónsson, djákni á Þingeyrum, Páll Erlendsson prestur á Brúarlandi og Baldvin Þorsteinsson, prestur á Upsum.

Skólameistarar Hólaskóla eftir siðaskipti

breyta

Lengst af voru flestir skólameistararnir ungir - stundum kornungir - menntamenn af góðum ættum, oft nátengdir biskupunum, sem voru að bíða eftir að fá góð embætti. Þeir gegndu því sjaldnast starfinu nema örfá ár.

Heimildir

breyta
  • „Saga latínuskóla á Íslandi til 1846. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 1893“.

Tenglar

breyta