Upsir er bær í Svarfaðardal og stendur í útjaðri Dalvíkur utan við Brimnesá. Ofan við bæinn er Upsafjall. Upsir eru landnámsjörð. Karl Steinröðarson reisti bú sitt þar var en hann nam Upsaströnd frá Upsum til Míganda. Svarfdæla saga greinir öðru vísi frá, þar er sagt að Karl rauði Þorsteinsson hafi búið á Upsum, einnig Karl hinn ungi sonur hans og síðan Þorgrímur sonur Ljótólfs goða á Hofi. Upsir er gamall kirkjustaður og líklega hefur kirkja verið reist þar fljótlega eftir kristnitöku. Fyrstu heimildir um hana eru í Prestssögu Guðmundar Arasonar, en hann var prestur á Upsum skamma hríð 1196. Upsakirkja var lögð af er Dalvíkurkirkja var reist og síðan var hún rifin að mestu. Gamla forkirkjan stendur þó enn í kirkjugarðinum miðjum og kallast Upsakapella. Bjarni Pálsson (1719-1779) fyrsti landlæknir Íslands, var fæddur að Upsum. Bróðir Bjarna var Gunnar Pálsson (f. 1714) prófastur og síðar skólameistari á Hólum. Hann var ekki síður þekktur sem sálmaskáld. Faðir þeirra bræðra var séra Páll Bjarnason prestur á Upsum, landsþekkt skáld á sinni tíð.

Upsakapella. Forkirkja síðustu kirkjunnar á Upsum.

Síðasti prestur á Upsum var sr. Baldvin Þorsteinsson (1781-1858) en hann var bróðir sr. Kristjáns á Tjörn, sr. Stefáns á Völlum og sr. Hallgríms á Hrauni. Í tíð Baldvins varð Guðrún Bjarnadóttir, vinnukona á bænum, fyrir byssuskoti og lést. Hans, sonur sr. Baldvins, var bendlaður við málið og ákærður fyrir manndráp en síknaður því ljóst þótti að um voðaskot hefði verið að ræða. Málið loddi þó við Hans alla æfi. Vinnukonan gekk aftur og fylgdi þeim Upsamönnum lengi og var kölluð Upsa-Gunna. Hans bjó um tíma á Upsum.

Oft var margbýlt á Upsum og þaðan var löngum útræði mikið frá Upsaströnd. Hjáleigur voru margar í landi upsa, t.d. Háagerði, Efstakot, Miðkot og Lækjarbakki. Hús og bæir með þessum nöfnum eru enn til á Dalvík en bærinn á Upsum er horfinn með öllu og eina húsið sem enn stendur þar sem bæjarþorpið var forðum er Upsakapella.

Á öndverðri 20. öld bjuggu Arnór Björnsson og Þóra Sigurðardóttir lengi á Upsum. Sonur þeirra var Víkingur Heiðar Arnórsson, læknir og prófessor í Reykjavík. Dóttursonur hans er Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari.

Heimildir breyta

  • Kristmundur Bjarnasonsson (1978). Saga Dalvíkur 1. Dalvíkurbær.
  • Stefán Aðalsteinsson (1978). Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík.