Þorsteinn Geirsson
Þorsteinn Geirsson (4. maí 1638 – 16. apríl 1689) var kennari og síðar skólameistari í Hólaskóla og seinna prestur í Laufási við Eyjafjörð. Hann var sagður mikill gáfumaður og vel lærður.
Þorsteinn var sonur séra Geirs Markússonar prests í Mývatnsþingum og síðar á Helgastöðum í Reykjadal og konu hans Steinunnar Jónsdóttur, einn úr stórum systkinahópi. Hann var heyrari á Hólum í nokkur ár en fór síðan utan og lærði við Kaupmannahafnarháskóla í fimm ár. Þá fór hann aftur til Íslands og varð skólameistari á Hólum árið 1673. Því starfi gegndi hann til 1683. Þá lést Markús bróðir hans, sem var prestur í Laufási, og var Þorsteinn vígður þangað. Egill Sigfússon (sem seinna átti barn með Sigríði yngstu, systur Þorsteins) tók við skólameistarastarfinu af honum.
Þorsteinn var þó ekki langlífur í embætti, dó sex árum síðar. Kona hans var Helga Jónsdóttir (1638–1718), dóttir séra Jóns Arasonar í Vatnsfirði. Hún hafði áður verið gift Teiti Torfasyni Skálholtsráðsmanni. Hún var barnlaus með báðum mönnum sínum.
Í Þjóðminjasafni er minningartafla úr Laufáskirkju með mynd af þeim hjónum, Þorsteini og Helgu, líklega eftir séra Jón Guðmundsson á Felli í Sléttuhlíð.