Jörundur Þorsteinsson
Jörundur Þorsteinsson var biskup á Hólum frá 1267 til dauðadags, 1313.
Foreldrar Jörundar voru Þorsteinn Einarsson og Guðlaug Grímsdóttir. Hann lærði hjá Brandi Jónssyni ábóta í Þykkvabæjarklaustri, síðar biskupi. Taldi Brandur Jörund vera minnugastan þeirra sem hann hafði kennt.
Jörundur var vígður biskup 1267 og var Hólabiskup í 46 ár. Hann var hagsýnn og hygginn stjórnandi, auðgaði mjög Hólastól og endurbyggði dómkirkjuna á staðnum (skömmu eftir 1280). Hann setti nunnuklaustur á Reynistað 1295 og munkaklaustur á Möðruvöllum í Hörgárdal 1296. Hann var fylgjandi hinum fornu kirkjustjórnarháttum og fylgdi ekki Árna Þorlákssyni Skálholtsbiskupi í staðamálum síðari, þ.e. í kröfum um að kirkjan fengi yfirráð yfir kirkjustöðum.
Jörundur andaðist 1. febrúar 1313, þá orðinn ellimóður mjög.
Heimildir
breyta- Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár III.
Fyrirrennari: Brandur Jónsson |
|
Eftirmaður: Auðunn rauði |