Jón Bjarnason (prestur á Staðarbakka)

Jón Bjarnason (d. 8. september 1705) var kennari og skólameistari í Hólaskóla og síðar prestur á Staðarbakka í Miðfirði.

Jón var sonur séra Bjarna Jónssonar prests í Miklagarði í Eyjafirði og síðar á Þönglabakka í Fjörðum og konu hans Margrétar Gamalíelsdóttur. Um séra Bjarna segir Jón Espólín: „Var klagaður fyrir allra handa embættisafglöp og heimsku, en var ríkur og kunni vel til laga, gat því varið sig.“

Jón var skólameistari á Hólum 1667-1673 og á meðan hann var þar átti hann barn í frillulífi. Hann var sagður allvel lærður, skáld og mælskumaður. Árið 1673 var hann vígður prestur að Staðarbakka og var þar til dauðadags, eða í 32 ár. Í annálum segir að hann hafi ekki viljað deyja inni í bæ, heldur í kirkjunni, og hafi gengið þangað en hnigið niður við stein á miðri leið og dáið þar.

Fyrri kona hans var Sigríður Hákonardóttir en sú síðari Sigríður Þorgilsdóttir.

Heimildir breyta

  • „„Skólameistaratal í Hólaskóla". Norðanfari, 51.-52. tölublað, 1883“.
  • „„Saga latínuskóla á Íslandi til 1846". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14.árgangur 1893“.