Jón Vídalín
Jón Þorkelsson Vídalín (21. mars 1666 – 30. ágúst 1720) var biskup í Skálholti, lærdómsmaður, mikill prédikari og helsta latínuskáld sinnar tíðar.
Jón var sonur séra Þorkels Arngrímssonar, prests í Görðum á Álftanesi, sonar Arngríms lærða, og konu hans Margrétar Þorsteinsdóttur. Hann tók sér snemma nafnið Vídalín eins og margir afkomendur Arngríms. Bræður hans voru þeir Þórður Þorkelsson Vídalín, skólameistari í Skálholti um tíma en síðan bóndi í Þórisdal í Lóni, og Arngrímur Vídalín skólameistari í Nakskov í Danmörku. Systir þeirra var Guðrún prófastsfrú á Þingvöllum.
Hann stundaði skólanám hjá frænda sínum, Páli Björnssyni í Selárdal. Síðan sigldin hann og lærði við Kaupmannahafnarháskóla, samtíða Árna Magnússyni, og lauk þaðan guðfræðiprófi. Síðan var var um tveggja ára skeið sjóliði í danska flotanum og mun hafa átt von á að hækka fljótt í tign en þegar það varð ekki keypti móðir hans hann lausan með milligöngu Kristofers Heidemann landfógeta.
Hann kom svo heim til Íslands 1691, sagður fátæklega til fara. Árið eftir varð hann kennari við Skálholtsskóla og 1693 dómkirkjuprestur í Skálholti. Hann varð svo prestur í Görðum og var valinn biskup í Skálholti 1697 (vígður 1698), aðeins sex árum eftir að hann kom heim. Við það tækifæri færði hann Þingvallakirkju bjöllu sem nú hangir þar í klukkuturninum.
Jón Vídalín var mikill mælskumaður og kennimaður. Hann er þekktastur fyrir rit sitt Vídalínspostillu sem er húslestrarpostilla, með einni predikun fyrir hvern hátíðisdag ársins, ætluð til upplestrar á heimilum. Postillan var ein mest lesna bók á Íslandi um tveggja alda skeið og hafði veruleg áhrif á íslenska menningu, trúarlíf og bókmenntir fram á 20. öld. Jón var, auk Hallgríms Péturssonar, einn helsti fulltrúi lúthersku rétttrúnaðarstefnunnar (píetismans) á Íslandi.
Jón er sagður hafa verið lítillátur og lítt gefinn fyrir íburð, stórgjöfull við fátæka og tók oft skólasveina og aðra efnilega unglinga til sín án þess að hirða um borgun, en ekki góður fjármálamaður. Hann var áhugasamur um framfarir, reyndi kálræktun og hvatti til nýjunga eins og hreindýraræktar og saltvinnslu. Hann þótti nokkuð drykkfelldur og gengu sögur um drykkjuskap hans á Alþingi og víðar. Hann var líka skapmaður mikill og átti til dæmis í deilum og jafnvel handalögmálum við Odd lögmann Sigurðsson.
Jón biskup andaðist í Biskupsbrekku á Uxahryggjaleið síðsumars 1720. Hann hafði verið á leið vestur að Staðarstað til að vera við útför mágs síns, séra Þórðar Jónssonar, en veiktist og komst ekki lengra. Kross var reistur á staðnum fyrir nokkrum árum til minningar um Jón en þess má geta að Jón Þorkelsson Thorcillius mun fyrstur manna hafa stungið upp á því árið 1745 að Jóni yrði reist minningamark í Biskupsbrekku.
Kona Jóns var Sigríður yngri (1677 – 16. júní 1730), dóttir Jóns Vigfússonar Hólabiskups og Guðríðar Þórðardóttur konu hans. Hún þótti skynsöm kona og vel menntuð og kenndi meðal annars undirstöðuatriði í latínu.
Verk Jóns Vídalíns
breyta- Vídalínspostilla - Húspostilla eður einfaldar predikanir yfir öll hátíða- og sunnudagaguðspjöll árið um kring
Tenglar
breyta- Smávegis um Jón biskup Vídalin; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1940
- Jón Vídalín og postulla hans; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1929
- Verk tengd Jóni Þorkelssyni Vídalín á Handrit.is
Fyrirrennari: Þórður Þorláksson |
|
Eftirmaður: Jón Árnason |