Oddur Einarsson (31. ágúst 155928. desember 1630) var biskup í Skálholti frá 1589. Hann var elsti sonur séra Einars Sigurðssonar, prests og sálmaskálds í Nesi í Aðaldal, og fyrri konu hans, Margrétar Helgadóttur.

Æviferill breyta

 
Úraníuborg. Þangað kom Oddur á námsárum sínum í Danmörku.

Þegar Oddur fæddist var faðir hans aðstoðarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal og fæddist Oddur í Möðruvallaseli. Síðar varð Einar prestur í Mývatnsþingum og svo í Nesi 1565. Skömmu síðar dó Margrét en Einar giftist aftur Ólöfu Þórarinsdóttur. Þau voru fátæk og áttu fjölda barna en þó komust bæði Oddur og Sigurður albróðir hans í Hólaskóla. Oddur fór síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla árið 1583 og var þar til 1585. Hann hafði áhuga á stærðfræði og stjörnufræði og 2. mars 1585 er meðal annars getið um komu hans til eyjunnar Hveðnar og í Úraníuborg, hús stjörnufræðingsins fræga, Tycho Brahe, en ekki er vitað hve lengi hann dvaldist þar.

Eftir heimkomuna varð Oddur skólameistari við Hólaskóla í tvö ár. Vorið 1588 sendi Guðbrandur Hólabiskup hann til Alþingis með tillögur sínar varðandi biskupskjör í Skálholtsbiskupsdæmi þar sem hann mælti með Oddi án þess að nefna hann á nafn. Þar notaði hann meðal annars þau rök að Oddur væri mikill lærdómsmaður. Oddur var kosinn á þinginu, fór til Danmerkur um haustið, dvaldi þar um veturinn og var vígður vorið eftir, þrítugur að aldri. Fjölskylda Odds var fátæk og strax á fyrsta ári tók hann föður sinn, stjúpmóður og systkini sín mörg til sín í Skálholt. Síðan fékk hann föður sínum Eydali í Breiðdal, eitt besta prestakall landsins, og gerði hann að prófasti þar.

Oddur þótti mjög ættrækinn, bæði hvað varðaði skipanir í embætti og töku nemenda í Skálholtsskóla, en svo virðist að á hans tíma hafi fáir nemendur úr skólanum farið utan til frekara náms. Í ævisöguflokki sínum yrkir Einar:

Herra Oddur
kom heim að bragði
urðu að nýju
fagnaðarfundir,
setti hjónin
í sín herbergi,
en alla bræður strax
inn í skóla.

Sem biskup þótti Oddur siðavandur og amaðist meðal annars við smalabúsreiðum, vikivökum og hestaati á helgidögum og hefur í þessu verið sammála samtíðarmönnum sínum Guðbrandi Þorlákssyni og Arngrími lærða sem allir voru undir áhrifum frá húmanisma og töldu siðmenningu skorta á Íslandi. Á prestastefnu Odds biskups á Kýraugastöðum í Rangárþingi árið 1592 var gerð svonefnd Kýraugastaðasamþykkt þar sem „heiðinglegar“ skemmtanir eru fordæmdar, og hótað er að svipta altarissakramenti þá sem leggja stund á hvers kyns galdur, líka hvítagaldur í lækningaskyni.

Sonarsonur Odds lýsir honum þannig í Fitjaannál: „Hann var hálærður maður, vitur, hógvær, guðhræddur og góðlyndur, litillátur og gustukagjarn, kom mörgum til góðrar menningar.“ Á síðasta ári Odds brann Skálholtsstaður til kaldra kola, og þar með fjöldi merkra handrita og allt annað innbú. Ári eftir lát hans var Gísli sonur hans og aðstoðarmaður frá 1629 kjörinn biskup í Skálholti.

Ritstörf Odds breyta

Oddur var vel menntaður, fræðimaður og er meðal annars talinn hafa verið fyrstur til að safna íslenskum handritum, en það safn brann að hluta í eldsvoða í Skálholti árið 1630. Árni Magnússon eignaðist seinna leifarnar af handritasafni Odds. Oddur skrifaði ýmis rit, meðal annars um Skálholtsbiskupa, um Jón Arason biskup og fleira, og hann lét eftir sig ýmsar þýðingar þótt fátt eitt af ritum hans væri prentað. Hann hvatti líka aðra til skrifta og það var fyrir tilstilli hans að Jón Egilsson skrifaði Biskupaannál.

Oddi er eignuð Íslandslýsing (Qualiscunque descriptio Islandiae) sem fannst í byrjun 20. aldar í ríkisbókasafni Hamborgar. Vitað var að hann skrifaði slíka lýsingu og að hún var til í handriti í safni Árna Magnússonar, en hún var talin glötuð þar til Jakob Benediktsson færði rök fyrir því að þessi tiltekni texti væri eftir Odd. Sveinn Pálsson þýddi textann á íslensku og fyrir útgáfu 1971. Ástæða þess að ritið kom aldrei út á prenti á sínum tíma hefur líklega verið sú að Brevis Commentarius Arngríms lærða kom út árið 1597, en tilgangur Íslandslýsingar Odds var hliðstæður tilgangi Arngríms.

Fjölskylda breyta

Kona Odds, sem hann giftit 1591, var Helga Jónsdóttir (156723. október 1662), dóttir Jóns Björnssonar sýslumanns á Holtastöðum í Langadal og Grund í Eyjafirði, sonar Björns Jónssonar prests á Melstað. Hún þótti nokkuð aðsjál og var sagt að hún hefði látið brytann í Skálholti höggva af náttúrulegan steinboga sem var á Brúará til að losna við ágang förufólks. Á meðal barna þeirra voru Árni lögmaður, Gísli biskup og Eiríkur bóndi á Fitjum í Skorradal, sem kallaður var Eiríkur heimski af því að hann vildi ekki læra til prests, faðir Eiríks Oddssonar, höfundar Fitjaannáls. Áður en Oddur kvæntist átti hann tvær dætur í lausaleik.

Tengt efni breyta

Heimildir breyta

  • Oddur Einarsson, Íslandslýsing - Qualiscunque descriptio Islandiae, (ísl. þýð. Sveinn Pálsson) (Reykjavík: Bókaútgáfa menningarsjóðs, 1971).
  • Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, IV. bindi, (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1951).
  • Sigurður Líndal (ritstj.), Saga Íslands IV (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag/Sögufélagið, 2003).

Tenglar breytaFyrirrennari:
Gísli Jónsson
Skálholtsbiskup
(15891630)
Eftirmaður:
Gísli Oddsson