Sigurður Jónsson (skólameistari)

Sigurður Jónsson halti (d. eftir 1598) var skólameistari í Skálholti og á Hólum á seinni hluta 16. aldar. Ætt hans er ekki þekkt nema hvað hann er talinn hafa verið norðlenskur og bjó seinast á Hóli í Köldukinn.

Sigurður var bæklaður á fæti og því haltur alla æfi og er kallaður Sigurður halti í heimildum. Hann var vel menntaður og hafði lært erlendis, bæði í Kaupmannahöfn og Rostock, og er sagður hafa verið fyrstur Íslendinga til að læra hebreska tungu. Guðbrandur Þorláksson fékk hann til að stýra Hólaskóla á fyrstu biskupsárum sínum, 1573-1576, og mun hann hafa þótt kröfuharður og strangur en jafnframt vel lærður og fróður.

Sigurður varð svo skólameistari í Skálholtsskóla og var þar 1579-1583 en þá var hann orðinn sjúkur af holdsveiki og varð að láta af störfum. Hann flutti sig þá að Hóli í Köldukinn, sem var eignarjörð hans, og bjó þar og var enn á lífi 27. desember 1598 því þá seldi hann Hól ásamt Garðshorni.

Kona Sigurðar var Katrín Nikulásdóttir, dóttir Nikulásar Þorsteinssonar sýslumanns og klausturhaldara á Munkaþverá. Seinni maður hennar var Kolbeinn klakkur Jónsson bóndi á Einarslóni, launsonur Jóns Magnússonar ríka á Svalbarði.

Heimildir

breyta
  • „„Skólameistaratal á Hólum í Hjaltadal". Norðanfari, 25.-26. tölublað 1882“.