Þorleifur Skaftason

Þorleifur Skaftason (9. apríl 168316. desember 1748) var íslenskur prestur og prófastur á 18. öld, þekktur fyrir lærdóm og gáfur. Hann var talinn fjölkunnugur og eru til ýmsar þjóðsögur tengdar meintri galdrakunnáttu hans.

Þorleifur var fæddur að Bjarnastöðum í Unadal í Skagafirði, sonur Skafta Jósepssonar sem síðar var prestur og lögréttumaður á Þorleifsstöðum í Blönduhlíð og konu hans Guðrúnar Steingrímsdóttur. Í manntalinu 1703 er hann sagður þjónustumaður á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð. Hann lærði í Hólaskóla og var árið 1707 vígður dómkirkjuprestur á Hólum. Þegar Jón Einarsson heyrari, sem átti að taka við skólameistaraembættinu, dó í Stórubólu 1707 áður en hann náði að setjast í embættið var Þorleifur settur skólameistari um stundarsakir. Því starfi gegndi hann aðeins í nokkra mánuði og sveinarnir voru aðeins 20 vegna bólunnar.

Þorleifur var prestur á Hólum 1707-1724 og prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi frá 1708. Síðan fékk hann Múla í Aðaldal 1724 og var prófastur í Þingeyjarprófastsdæmi frá 1734 til dauðadags. Hann gegndi biskupsstörfum 1740 eftir dauða Steins biskups Jónssonar og aftur 1745 þegar biskupslaust var um tíma. Hann var vel lærður og hafði orð á sér fyrir að vera góður kennari. Hann kenndi mörgum unglingum og bjó þá undir skólanám og sumir útskrifuðust frá honum sem stúdentar, þar á meðal Gísli Magnússon biskup og Skúli Magnússon fógeti, sem raunar varð stjúpsonur Þorleifs.

Þorleifur var sagður góður söngmaður, mikill kennimaður og mikill kraftajötunn. Það orð lá á að hann væri fjölkunnugur, sumir sögðu rammgöldróttur, og er sagt að hann hafi til dæmis verið fenginn til að blessa Siglufjarðarskarð og hrekja burt óvætti sem þar átti að hafa aðsetur. Hann blandast einnig inn í sögur af Galdra-Lofti, enda var hann dómkirkjuprestur á Hólum um daga hans. Sagt er að þegar Ludvig Harboe fór að svipast um eftir biskupsefni 1741 hafi Þorleifur í Múla komið sterklega til greina en galdraryktið hafi spillt fyrir honum og ekki síður að hann þótti drykkfelldur og lítill fjármálamaður. Þorleifur drukknaði í lítilli keldu sem aldrei hafði verið talin mönnum hættuleg og kenndu sumir göldrum um.

Nafn fyrstu konu Þorleifs er ekki þekkt. Önnur kona hans (g. 27. október 1709) var Ingibjörg Jónsdóttir; Jón Þorsteinsson faðir hennar var bróðir Einars biskups, ráðsmaður á Hólum og bóndi og lögréttumaður á Nautabúi. Þau áttu mörg börn og eru miklar ættir frá þeim komnar. Þriðja kona hans var Oddný Jónsdóttir, móðir Skúla Magnússonar fógeta, sem þá var orðin ekkja, og segir Jón Espólín að hún hafi játast honum með því skilyrði að hann kenndi sonum hennar. Þau áttu ekki börn.

Heimildir breyta

  • „Saga latínuskóla á Íslandi til 1846. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 1893“.
  • „Galdra-Loftur. Söguleg rannsókn. Ísafold 9. janúar 1915“.