Skúli Þorláksson

Skúli Þorláksson (163514. september 1704) var skólameistari á Hólum í eitt ár en síðan prestur á Grenjaðarstað og prófastur í Þingeyjarþingi frá 1660 til dauðadags.

Skúli var næstelsti sonur Þorláks Skúlasonar Hólabiskups og Kristínar Gísladóttur konu hans. Á meðal systkina hans voru þeir Gísli Þorláksson Hólabiskup og Þórður Þorláksson Skálholtsbiskup. Skúli sigldi ungur, stundaði skólanám í Kaupmannahöfn og fór síðar í Hafnarháskóla. Hann kom svo til Íslands og varð skólameistari á Hólum í eitt ár en 1660 var hann vígður prestur á Grenjaðarstað og varð um leið prófastur. Hann er sagður hafa verið stórauðugur.

Fyrri kona Skúla var Guðrún Benediktsdóttir, dóttir Benedikts Halldórssonar sýslumanns í Skagafjarðarsýslu. Þau voru barnlaus. Eftir lát hennar giftist Skúli Elínu Sigurðardóttur, sem var dóttir Sigurðar Magnússonar sýslumanns á Skútustöðum og systir Magnúsar í Bræðratungu. Þau áttu fjölda barna en flest þeirra dóu í Stórubólu 1707, uppkomin en barnlaus. Yngsta dóttirin, Jórunn, lifði þó og giftist frænda sínum, Brynjólfi Thorlacius Þórðarsyni sýslumanni, syni Þórðar biskups.

Heimildir

breyta
  • „Skólameistaratal í Hólaskóla. Norðanfari, 51.-52. tölublað, 1883“.
  • „Saga latínuskóla á Íslandi til 1846. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14.árgangur 1893“.