Gunnar Pálsson (2. ágúst 17142. október 1791) var íslenskur prestur, fræðimaður og skáld á 18. öld.

Gunnar var fæddur á Upsum á Upsaströnd, sonur Páls Bjarnasonar prests þar og konu hans, Sigríðar Ásmundsdóttur. Bróðir hans var Bjarni Pálsson landlæknir en alls voru systkinin 12 sem upp komust. Gunnar nam fyrst í Hólaskóla og varð stúdent þaðan 1735. Hann sigldi síðan til Kaupmannahafnar og tók guðfræðiprófi við Hafnarháskóla. Vegna fátæktar varð hann að hraða námi sínu sem mest og fékk konungsleyfi til að gangast undir próf eftir aðeins 8 mánaða nám.

Þegar Ludvig Harboe kom til Íslands 1741 til að hafa eftirlit með kirkjumálum sá hann fljótt að Sigurður Vigfússon, sem þá var skólameistari á Hólum, var ekki hæfur til starfsins. Hætti Sigurður því vorið 1742 en Harboe fékk Gunnar í skólameistarastarfið í staðinn og gegndi hann því allt til 1753 við ágætan orðstír.

Árið 1753 varð Gunnar prestur og jafnframt prófastur í Hjarðarholti í Dölum. Því embætti gegndi hann í rúm 30 ár en búnaðist illa, bæði voru mikil harðindi upp úr miðri öldinni og svo var Gunnar ekki mikill búmaður, hafði meiri áhuga á skáldskapariðkun og fræðistörfum. Hann safnaði því skuldum og átti í erfiðleikum þess vegna, auk þess sem honum urðu á embættisglöp og fékk áminningar út af því. Í móðuharðindunum flosnaði séra Gunnar upp og hætti prestsskap en sonur hans tók við Hjarðarholti. Séra Gunnar flutti haustið 1785 vestur að Reykhólum og fékkst þar við kennslu og fræðistörf þar til hann lést.

Gunnar var lærður maður og talinn eitt helsta skáld sinnar tíðar. Kveðskapur hans naut vinsælda á 18. og 19. öld en er nú mestallur fallinn í gleymsku. Þó er talið líklegt að hann hafi ort stafrófsvísurnar „A, b, c, d, e, f g“ og eru þær í stafrófskveri sem hann samdi og gaf út og heitir Lítið ungt stöfunarbarn. Hann fékkst einnig við skýringar á fornyrðum og skrifaði prentsmiðjusögu Íslands. Hann átti óvenjulega gott bókasafn og skildi eftir 120 bindi í Dölum þegar hann flutti vestur í Reykhóla. Bréfasafn hans kom út í tveimur bindum á árunum 1984-1997.

Kona Gunnars var Margrét Erlendsdóttir prests Guðbrandssonar á Kvíabekk í Ólafsfirði. Þau áttu einn son, Pál Gunnarsson prest, síðast í Saurbæjarþingum.

Heimildir

breyta
  • Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.
  • „Lærdómsmaðurinn Gunnar Pálsson. Morgunblaðið 16. desember 2000. Úr gagnasafni mbl.is“.

Tenglar

breyta