Jón Árnason (1665)

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið þetta nafn.

Jón Árnason (1665 í Dýrafirði8. febrúar 1743) var biskup í Skálholti, lærður og vel að sér í guðfræði, rúmfræði, stærðfræði og söng.

Jón var sonur Árna Loftssonar, prests í Dýrafjarðarþingum og víðar, og konu hans Álfheiðar Sigmundsdóttur. Hann var skólameistari Hólaskóla frá 1695 til 1707 en þá varð hann prestur á Stað í Steingrímsfirði. Þann 25. mars 1722 varð hann biskup í Skálholti eftir lát Jóns Vídalín og gegndi því embætti til dauðadags.

Hann þótti strangur reglumaður og meðal stjórnsömustu biskupum landsins. Hann var bindindismaður og vildi t.d. hefta innflutning á brennivíni og tóbaki til landsins, en kaupmenn stóðu fast á móti. Hann áminnti marga presta fyrir drykkjuskap og vék ýmsum prestum í biskupsdæmi sínum úr embætti fyrir drykkju og aðra ámælisverða framkomu.

Jón var heldur ekki mikið gefinn fyrir fornsögur og veraldlegan skáldskap en var hins vegar fræðimaður á ýmsum sviðum og skrifaði margt. Þegar hann var prestur á Stað samdi hann til dæmis Fingrarím (Dactylismus ecclesiasticus). Hann lét prenta margar kennslubækur fyrir skólann í Skálholti í Kaupmannahöfn, hann samdi latneska-íslenska orðabók og skrifaði auk þess fjölda ritgerða og lét eftir sig mikið bréfasafn.

Hann þótti einarður og hreinskilinn en strangur kennari og gerði miklar kröfur til siðferðis skólapilta ekki síður en kunnáttu þeirra. Hann var aðgæslumaður í fjármálum og hafði til dæmis ekki ráðsmann, sem var einsdæmi, en vegna erfiðs árferðis var fjárhagur biskupsstólsins þó fremur bágur.

Kona Jóns biskups var Guðrún Einarsdóttir (1665 – 1752), dóttir Einars Þorsteinssonar biskups á Hólum og Ingibjargar Gísladóttur fyrri konu hans.

   Þessi listi er ekki tæmandi. Þú getur hjálpað til með því að bæta við hann

Tenglar

breyta


Fyrirrennari:
Jón Vídalín
Skálholtsbiskup
(17221743)
Eftirmaður:
Ludvig Harboe