Skóli er stofnun þar sem ungum sem öldnum eru kenndar ýmsar fræðigreinar af kennurum, en það er mismunandi eftir skólastigi og tegund skóla hvað er kennt og á hvaða erfiðleikastigi. Á sumum skólastigum er mætingaskylda, svo nemendur þurfa að mæta á réttum tíma. Orðið skóli er einnig haft um ákveðan stefnu í listum, t.d. vínarskólinn.

Albert Anker (1896)

Fyrstu skólastofnanir á Íslandi

breyta

Fyrsti skólinn hér á landi er talinn hafa verið á í Borgarfirði. Rúðólfur biskup sem var hér á landi í 20 ár hélt þar uppi skóla, og var Sigfús Loðmundarson, faðir Sæmdundar fróða, einn af nemendum hans. Skólinn lagðist þó niður þegar Rúðólfur biskup fór af landi brott, en héðan fluttist Rúdólfur árið 1050 og hélt þá til Englands og gerðist ábóti í Abington. Sagt er að Sæmundur hafi fyrstur Íslendinga stundað nám í Frakklandi, og er líklegt að það hafi verið fyrir áeggjan Rúðólfs biskups.

Næst stofnaði Ísleifur biskup skóla í Skálholti og Teitur sonur hans stofnaði síðan skóla í Haukadal, þar sem Ari fróði var við nám. Síðan koma skólarnir á Hólum og Odda, sem þeir stofnuðu vinirnir Jón Ögmundsson biskup og Sæmundur fróði. Ekki er gott að segja hvor skólinn er eldri, en sennilega er það skólinn í Odda. Um hann er lítið vitað, en talið er víst að þar hafi verið kennd þjóðleg fræði auk annars og margt fært í letur. Til dæmis um það hvert álit skólinn hafði á sér, er sagt frá því í sögu Þorláks biskups helga, að móðir hans hafi sett hann í skólann í Odda, sem þá hefði verið fremsti skóli hér á landi.

Hlutverk skóla

breyta

Hulda Á. Stefánsdóttir (1897 - 1989) lagði sterkan grunn að menntun kvenna á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Hún var kennari og húsmæðraskólastjóri meira og minna frá árinu 1921 til 1967. Hún hafði svo að segja um skólastofnanir í fjórða bindi ævisögu sinnar: Skólastarf og efri ár:

Öllum skólum er það sameiginlegt, að í þeim vex nemendum kunnátta og leikni, svo framarlega sem tilsögn skólans er ekki hégómi einn. En það eru fleiri skyldur, sem skólarnir hafa að gegna. Þeim er ætlað að ala upp nýta þjóðfélagsþegna – góða Íslendinga, er jafnan séu á verði að gæta menningarverðmæta þjóðar sinnar. Þeim er ætlað að vera nokkurs konar landvættir, er verndi og hlúi að öllu því besta í íslenskri þjóðarsál, en vísi á bug öllum ófreskjum og ómenningu, er að þjóð vorri steðjar [1]

Tilvísanir

breyta
  1. Hulda Á. Stefánsdóttir, 1988, bls.73.[óvirkur tengill]

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
   Þessi skólagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.