Hálfdan Einarsson

skólameistari í Hólaskóla

Hálfdan Einarsson (17321. febrúar 1785) var skólameistari í Hólaskóla í 30 ár, lengur en nokkur annar. Hann var sæmdur meistaranafnbót af Kaupmannahafnarháskóla 1765 og var eftir það yfirleitt kallaður Meistari Hálfdan.

Hálfdan var sonur séra Einars Hálfdanarsonar á Prestbakka á Síðu og konu hans, Guðrúnar Sigurðardóttur. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla 1749 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla vorið 1755, en hafði einnig lagt stund á nám í stærðfræði og eðlisfræði, auk fleiri greina. Hann varð skólameistari á Hólum árið 1755, 23 ára að aldri, og gegndi því starfi til dauðadags 1785.

Hálfdan var vel lærður og þótti góður kennari en nokkuð drykkfelldur. Hann stundaði ritstörf og þýðingar meðfram kennslunni og þýddi meðal annars Konungsskuggsjá á dönsku og latínu, en hún var gefin út að tilstuðlan Ósýnilega félagsins árið 1768. Höfuðverk hans er þó bókmenntasaga Íslands, Sciagraphia Historiae Liteariae Islandicae, sem rituð var á latínu og kom út í Kaupmannahöfn 1777. Fyrir það var hann sæmdur þremur heiðursgullpeningum.

Kona Hálfdanar var Kristín, dóttir Gísla Magnússonar biskups á Hólum.