Kolbeinn Tumason
Kolbeinn Tumason (um 1171 – 9. september 1208) goðorðsmaður á Víðimýri var skagfirskur höfðingi í lok 12. aldar og upphafi þeirrar 13., leiðtogi Ásbirninga og einn valdamesti maður Norðurlands.
Hann var sonur Tuma Kolbeinssonar goðorðsmanns í Ási í Hegranesi og Þuríðar, dóttur Gissurar Hallssonar af ætt Haukdæla. Hann átti mikinn þátt í því að Guðmundur Arason prestur á Víðimýri var kjörinn biskup á Hólum 1201, og hefur sjálfsagt talið að hann yrði sér hliðhollur og leiðitamur en svo fór ekki. Guðmundur vildi gera Hólastól óháðan veraldlegu valdi og varð fljótt úr fullur fjandskapur þeirra. Biskupinn bannfærði Kolbein 1206.
Í september 1208 fóru Kolbeinn, Arnór bróðir hans og Sigurður Ormsson, höfðingi Svínfellinga, til Hóla með sveit manna, og kom þá til bardaga er nefndur hefur verið Víðinesbardagi. Steinar voru einhver helstu vopn Íslendinga í átökum 13. aldar og Kolbeinn fékk stein í ennið sem varð bani hans.
Kolbeinn var skáld gott og fyrir bardagann orti hann sálminn Heyr, himna smiður, sem enn er í íslensku sálmabókinni og er elsti sálmur sem til er á íslensku og raunar elsti sálmur Norðurlanda.
Kona Kolbeins var Gyðríður Þorvarðardóttir og var faðir hennar föðurbróðir Guðmundar biskups. Þau áttu ekki börn. Skömmu eftir að Kolbeinn féll í Víðinesbardaga eignaðist Arnór bróðir hans son er nefndur var eftir honum en alltaf kallaður Kolbeinn ungi.