Stórabóla

Farsótt

Stórabóla var afar mannskæð bólusótt sem gekk um Ísland á árunum 1707-1709 og er talið að fjórðungur til þriðjungur landsmanna hafi látist úr veikinni.

Bólusóttarsjúklingar.

Gangur faraldursins

breyta

Bólusóttin barst til landsins í júní 1707. Í Árbókum Espólíns segir að hún hafi borist til landsins með fatnaði af Gísla Bjarnasyni, sem dáið hafði úr bólu í Kaupmannahöfn; systir hans hafi tekið upp úr fatakistu sem send var heim skyrtu og annan fatnað og veikst skömmu síðar. Svipaðar sögur hafa raunar verið sagðar um upphaf annarra faraldra. Bólusóttin geisaði næsta ár í flestum þéttbýlustu sveitum landsins en síðan barst hún til Austurlands og um ýmsar afskekktari sveitir og varð vart til vors 1709. Manndauðinn var þó langmestur fyrra árið, einkum síðari hluta ársins 1707.

Raunar virðist einhvers konar inflúensupest hafa verið samfara bólusóttinni og í Fitjaannál er talað um landfarsótt með þungu kvefi. Víða lögðust allir íbúar bæja og jafnvel heilla sveita svo að enginn stóð uppi til að hjúkra þeim sjúku en um það segir Páll Vídalín: „Þá var svo margur maður bólusjúkur í Snæfellsnessýslu, að þeir heilbrigðu unnust ekki til að þjóna þeim sjúku, og ætla ég víst, að fyrir þjónustuleysi muni margur dáið hafa, sem ella hefði kunnað að lifa“

Mannfall

breyta

Þótt kirkjubækur væru ekki komnar til sögunnar þegar Stórabóla gekk eru til allmiklar tölulegar upplýsingar, einkum í annálum, sem hægt er að bera saman við manntalið 1703. Til dæmis kemur fram í Setbergsannál að í Álftaneshreppi létust 195 úr bólu og með samanburði við manntalið má finna aldur langflestra. Í Mosfellssóknum létust frá 23. júlí til 26 nóvember 116 úr bólu.

Þegar talin eru saman öll byggðarlög þar sem manndauði úr bólu er tilgreindur kemur í ljós að dauðsföllin eru 7847 en á þessum sömu svæðum bjuggu 29.722 íbúar árið 1703 samkvæmt manntalinu og þýðir það að mannfallið hefur verið 26%.

Um þetta segir Jón Espólín: „Valdi veikin helzt úr yngisfólk roskið, alt það, sem var röskvast og mannvænlegast og meir karla en konur, en sízt ungbörn ... Mistu þá margir öll börn sín og öll systkin ok voru hryggvir eftir ... en það eitt gerði bóla sú hagligt, að hún tók á brott alla þá menn, er líkþrársýki var í en þeir voru mjög margir.“ Það er þó ofsagt að bólusóttin hafi útrýmt öllum holdsveikisjúklingum á landinu en þeir kunna að hafa verið enn næmari fyrir sjúkdómnum en aðrir.

Þjóðfélagsáhrif

breyta

Stórabóla hafði vitaskuld mjög mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag. Sem fyrr segir varð mannfallið einna mest hjá ungu og fullfrísku fólki og því varð mikill skortur á vinnuafli, auk þess sem fólki á barneignaraldri fækkaði mikið og fjölgunin varð því hæg næstu áratugina. Hjáleigur og kotbýli lögðust víða í eyði og skortur varð á vinnufólki. Á árunum fyrir bóluna höfðu sprottið upp hjáleigur og þurrabúðir við sjóinn þar sem fólk byggði afkomu sína að miklu leyti á sjósókn en mikill afturkippur kom í þessa þróun við bóluna.

Jafnframt urðu breytingar á landbúnaði, nautgripum fækkaði þar sem kúabúskapur var vinnuaflsfrekari en sauðfjárbúskapur og mikilvægi sauðfjárafurða í útflutningi jókst.

Heimildir

breyta
  • „Árni Magnússon og manntalið 1703. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1974“.
  • „Íslands Árbækur í sögu-formi, VII. deild“.