Þorsteinn Illugason

Þorsteinn Illugason (161811. september 1705) var skólameistari í Hólaskóla í fjóra vetur og síðan aðstoðarprestur á Hólum, prestur á Völlum í Svarfaðardal í 40 ár og prófastur í Vaðlaþingi í rúma þrjá áratugi.

Þorsteinn var sonur Illuga Jónssonar Hólaráðsmanns og konu hans Halldóru Skúladóttur, systur Þorláks biskups og dótturdóttur Guðbrands Þorlákssonar. Hann varð skólameistari á Hólum 1649 og gegndi því starfi í fjóra vetur en þá tók hann prestsvígslu og varð aðstoðardómkirkjuprestur á Hólum. Árið 1658 fékk hann Velli í Svarfaðardal og var prestur þar allt til 1698 og jafnframt prófastur í Vaðlaþingi frá 1667. Hann lét af embætti áttræður að aldri en var þó áfram á Völlum og átti þar heima þegar manntalið var tekið 1703. Hann dó tveimur árum síðar, hátt á níræðisaldri, annaðhvort á Völlum eða á Sökku í sömu sveit hjá dóttur sinni.

Kona séra Þorsteins, gift 11. október 1667, var Steinvör Jónsdóttir frá Skeggjastöðum, alsystir Runólfs, sem var skólameistari næstur á undan Þorsteini. Þau áttu þrjár dætur, Sigríði konu séra Hjalta Þorsteinssonar prests og listmálara í Vatnsfirði, Gróu konu séra Gísla Jónssonar á Útskálum og Kristrúnu konu Ara Jónssonar bónda á Sökku í Svarfaðardal, sonar Jóns Arasonar prófasts í Vatnsfirði. Ein dóttir þeirra var Guðrún sól, sem þótti kvenna fegurst og heillaði marga unga menn, þar á meðal Jón Steinsson Bergmann, son Steins biskups, svo mjög að hún var sögð ástæða þess að hann fyrirfór sér. Önnur dóttir þeirra, Hólmfríður, var langamma Bertels Thorvaldsen myndhöggvara.

Heimildir

breyta
  • „Skólameistaratal á Hólum í Hjaltadal. Norðanfari, 33.-34. árgangur 1882“.
  • „Saga latínuskóla á Íslandi til 1846. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14.árgangur 1893“.