Sigurður Vigfússon Íslandströll

Sigurður Vigfússon (16. október 169120. nóvember 1752), kallaður Íslandströll, var skólameistari í Hólaskóla og síðar sýslumaður í Dalasýslu. Hann var stórvaxinn og sterkur og eru til margar þjóðsögur um aflraunir hans.

Sigurður var fæddur í Bjarnarhafnarsókn á Snæfellsnesi, sonur Vigfúsar Árnasonar sýslumanns í Hnappadalssýslu og konu hans Helgu Sigurðardóttur. Hann fór til Kaupmannahafnar að loknu stúdentsprófi og var þar fjóra vetur viðnám en þótti þó hvorki sérlega skarpur né vel lærður. Hann varð þó skólameistari í Hólaskóla árið 1724 og gegndi því starfi lengur en flestir aðrir þótt hann skorti hæfileika til þess. Hann var hins vegar vinsæll og vel liðinn, seinþreyttur til vandræða og gerðu skólapiltar sér því dælt við hann og agi var enginn.

Þegar Ludvig Harboe kom til Íslands í eftirlitsferð sína þótti honum ekki gott ástand í Hólaskóla og skólameistarinn með öllu óhæfur vegna vanþekkingar og skilningsleysis á skólamálum. Harboe fékk Sigurð því með lagni til að segja af sér og var séra Gunnar Pálsson fenginn til að stýra skólanum í staðinn. Sigurður fékk þá embætti sýslumanns í Dalasýslu og gegndi því til dauðadags, Hann bjó í Þykkvaskógi í Miðdölum.

Kona Sigurðar var Karítas Guðmundsdóttir og var hún dóttir séra Guðmundar Jónssonar á Helgafelli, bróður Valgerðar konu Steins Jónssonar biskups.

Sigurður var stórvaxinn og kraftalegur, rammur að afli og var því kallaður Sigurður sterki eða Sigurður Íslandströll. Hann var af sumum talinn sterkastur Íslendinga um sína daga og var sagður hafa snúið niður naut og barist við útilegumenn og jafnvel tröll. Má víða finna sagnir um aflraunir Sigurðar Íslandströlls.

Heimildir

breyta
  • „„Skólameistaratal á Hólum í Hjaltadal". Norðanfari, 31. janúar 1883“.
  • „„Eftirlitsferð Ludvigs Harboes 1741-1745". Tíminn, 2. febrúar 1945“.

Tenglar

breyta