Ormur Ásláksson var biskup á Hólum 13421356, eða í 14 ár.

Ormur biskup var Norðmaður, sem hafði verið kórsbróðir í Stafangri. Lítið annað er vitað um uppruna hans. Hann var kjörinn biskup 1342 og vígður 1343, um leið og Jón skalli Eiríksson til Grænlands. Ormur kom til Íslands sumarið 1343, og brotnaði skipið við Þjórsársand.

Ormur varð fljótt illa þokkaður af landsmönnum vegna fégræðgi, en hirti minna um andleg mál. Bændur norðanlands gerðu samtök gegn honum, og fór biskup utan 1345 til þess að styrkja stöðu sína. Kom hann út aftur ári síðar og braut þá skip við Melrakkasléttu. Enn fór hann utan 1347 og var þá í Noregi í 4 ár. Sumarið 1349 urðu þau tíðindi að svartidauði barst til Noregs. Geisaði pestin þar fram eftir ári 1350 og felldi meira en helming landsmanna. Einkum varð prestastéttin hart úti, en þeir Ormur Ásláksson og Jón skalli Eiríksson voru meðal fárra kirkjuhöfðingja sem lifðu pestina af.

Ormur kom aftur til landsins 1351 með verndarbréf konungs, þar sem farið var hörðum orðum um andstöðu Norðlendinga og nokkrum þeirra stefnt utan á konungsfund. Átökin héldu samt áfram. Biskup bannfærði þá forsprakkana, sem hafði lítið að segja. Efldi hann flokk gegn þeim, náði nokkrum þeirra á sitt vald og hélt þeim föngnum, þar til þeir voru leystir út með fé. Sumarið 1353 komu út þeir sem stefnt hafði verið utan, og höfðu með sér bréf konungs, þar sem Ormi var boðið að virða fornan rétt þegnanna, og skipað að leysa þá úr banni. Taldi hann sér þá ekki lengur vært á Hólum, fór til Noregs 1354 og andaðist þar haustið 1356. "Var hann fáum harmdauði", segir í annál.

Árið 1344 lét Ormur biskup taka upp bein Guðmundar góða og þvo þau fyrir jarteiknir, líklega til að geta aukið tekjur biskupsstólsins. Glæsilegt skrín var síðar gert undir beinin og er þess getið á Hólum skömmu fyrir siðaskipti.

Heimildir

breyta
  • Jón Helgason biskup: Kristnisaga Íslands I, 183.
  • Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands V.
  • Gustav Storm (útg.): Islandske Annaler indtil 1578.



Fyrirrennari:
Egill Eyjólfsson
Hólabiskup
(13421356)
Eftirmaður:
Jón skalli Eiríksson