Jón Gissurarson (d. 2. júní 1660) var skólameistari í Skálholti og á Hólum og síðar prestur í Múla í Aðaldal og prófastur í Þingeyjaprófastsdæmi. Hann var sonur Gissurar Gamalíelssonar (Gamlasonar) prests á Staðarbakka í Miðfirði og konu hans Emerentíönu Jónsdóttur.

Jón var við nám erlendis eftir stúdentspróf, stundaði vísindi við Kaupmannahafnarháskóla og nam lögfræði í Hamborg. Eftir að hann kom heim varð hann fyrst heyrari (kennari) í Hólaskóla en síðan skólameistari í Skálholti 1622-1630. Þá skipti hann á embættum við Vigfús Gíslason, skólameistara á Hólum, og var þar í tvo vetur. Árið 1633 var Jón vígður prestur í Múla í Aðaldal og gegndi því embætti til dauðadags. Frá 1636 var hann jafnframt prófastur í Þingeyjaprófastsdæmi.

Kona séra Jóns var Margrét Ólafsdóttir, dóttir séra Ólafs Einarssonar í Kirkjubæ, hálfbróður Odds Einarssonar biskups. Synir þeirra voru Gísli prestur á Helgstöðum og Jón stúdent. Jón átti líka launson sem Grímur hét og varð prestur en missti hempuna.

Heimildir

breyta
  • „„Skólameistaratal á Hólum í Hjaltadal". Norðanfari, 33.-34. tölublað, 1882“.