Grenjaðarstaður er fornt höfuðból, kirkjustaður og prestssetur í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Á Grenjaðarstað er reisulegur torfbær og er elsti hluti hans byggður árið 1865 en búið var í bænum til 1949. Hann er mjög stór, um 775 fermetrar. Þar er nú byggðasafn sem opnað var 1958.

Grenjaðarstaður

Grenjaðarstaður var landnámsjörð samkvæmt því er segir í Landnámu, og bjó þar landnámsmaðurinn Grenjaður Hrappsson. Grenjaðarstaður var höfðingjasetur til forna og þar bjó meðal annars Kolbeinn Sighvatsson, sonur Sighvats Sturlusonar. Hann féll í bardaganm á Örlygsstöðum 1238 en var jarðsettur á Grenjaðarstað.

Grenjaðarstaður var eitt af bestu brauðum landsins. Var staðurinn lagður til jafns við Odda, sem þótti besta brauð í Sunnlendingafjórðungi. Átti staðurinn fjölda jarða auk hjáleigna, reka, laxveiði og önnur ítök en heimaland var mikið og gagnsamt. Á meðal presta á Grenjaðarstað má nefna Þorkell Guðbjartsson (d. 1483), Jón Pálsson Maríuskáld (d. 1471) og Sigurð Jónsson (d. 1595), son Jóns biskups Arasonar, sem gerði skrá um eignir biskupsstólsins á Hólum og eignir kirkna á Norðurlandi. Þá má nefna Gísla Magnússon (1712-1779), síðar biskup á Hólum, sem lét byggja kirkjuna þar.

Árið 1931 var Grenjaðarstað skipt í 5 býli og er prestssetrið nú aðeins fimmtungur jarðarinnar.

Byggðasafnið

breyta
 
Grenjaðarstaður - stóareldhúsið

Byggðasafnið á Grenjaðarstað á sér nokkra forsögu og hefur margt fólk, bæði menn og konur, lagt þar hönd að verki. Bændafélag Þingeyinga setti á laggirnar nefnd veturinn 1950 til þess að athuga möguleika fyrir stofnun byggðasafns í Þingeyjarsýslu. Fljótlega var byrjað að safna munum. Eftir því sem að munum fjölgaði þá varð það ljóst að annað hvort þyrfti að byggja hús með ærnum kostnaði eða finna hentugt húsnæði sem þegar væri til. Á þessum tíma var gamli bærinn á Grenjaðarstað auður því nýtt íbúðarhús hafði verið byggt á staðnum. Tímans tönn hafði nagað torfveggina og þökin á bænum og þarfnaðist hann því töluverðra endurbóta. Sumarið 1955 var, fyrir forgöngu þáverandi þjóðminjavarðar,Kristjáns Eldjárns, hafin gagnger viðgerð á bænum, þar sem reynt var að færa hann í upprunalegt horf. Kristján Eldjárn bauð bæinn fram til þess að geyma muni byggðasafnins að viðgerð lokinni. Viðgerð tók sinn tíma en 9. júlí 1958 var bærinn formlega opnaður sem byggðasafn. Hafði þá verið komið fyrir nokkuð á annað þúsund munum í flestum húsum bæjarins sem fólkið í héraðinu hafði gefið til safnsins.

Heimild

breyta
   Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.