George W. Bush

43. forseti Bandaríkjanna

George Walker Bush (fæddur 6. júlí 1946; framburður) var 43. forseti Bandaríkjanna. Hann tilheyrir Repúblikanaflokknum og gegndi áður starfi fylkisstjóra Texas. Hann tók við af Bill Clinton 20. janúar 2001 sem forseti eftir að hafa naumlega sigrað mótframbjóðanda sinn úr röðum Demókrata, Al Gore í kosningum í nóvember árið 2000 þar sem Bush fékk reyndar færri atkvæði á landsvísu en náði fleiri kjörmönnum. Bush sigraði svo aftur í kosningunum 2004, þá á móti öldungadeildarþingmanninum John Kerry, nú með naumum meirihluta atkvæða á landsvísu. Varaforseti Bush var Dick Cheney. Seinna kjörtímabili Bush lauk 20. janúar 2009.

George W. Bush
Bush árið 2003.
Forseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 2001 – 20. janúar 2009
VaraforsetiDick Cheney
ForveriBill Clinton
EftirmaðurBarack Obama
Fylkisstjóri Texas
Í embætti
17. janúar 1995 – 21. desember 2000
VararíkisstjóriBob Bullock
Rick Perry
ForveriAnn Richards
EftirmaðurRick Perry
Persónulegar upplýsingar
Fæddur6. júlí 1946 (1946-07-06) (78 ára)
New Haven, Connecticut, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiLaura Bush
TrúarbrögðMeþódismi
BörnJenna og Barbara Bush
ForeldrarGeorge H. W. Bush og Barbara Bush
HáskóliYale-háskóli
Harvard-háskóli
StarfStjórnmálamaður, viðskiptamaður
Undirskrift

Eftir að hafa útskrifast úr háskóla starfaði Bush að olíuviðskiptum fjölskyldu sinnar. Seinna var hann meðeigandi í hafnaboltaliðinu Texas Rangers, áður en hann sneri sér að stjórnmálum til að verða fylkisstjóri Texas. Hann bauð sig fram á móti Ann Richards og var kosinn fylkisstjóri Texas 1994.

Faðir George W. Bush er George Herbert Walker Bush sem var 41. forseti Bandaríkjanna á árunum 19891993.

Þegar Bush lét af embætti var hann óvinsælasti forseti Bandaríkjanna frá upphafi Gallup-kannana.[1]

Æviágrip

breyta

George Bush er sonur George H. W. Bush Bandaríkjaforseta og forsetafrúarinnar Barböru Bush. Hann fæddist árið 1946 í New Haven í Connecticut en fluttist barnungur með fjölskyldu sinni til Odessa í Texas, þar sem faðir hans vann í olíuviðskiptum.[2] Bush gekk í framhaldsskóla í borginni Midland í Texas en innritaðist síðar í skólann Phillips Academy Andover í Massachusetts og loks í Yale-háskóla í fæðingarborg sinni í Connecticut.[3]

Bush komst nokkrum sinnum í kast við lögin á námsárum sínum í Yale. Hann var eitt sinn ákærður fyrir að stela jólakransi úr verslunarglugga og hengja hann á dyrnar hjá háskólabræðralaginu sem hann var meðlimur í en lögreglan féll síðar frá kærunni. Í seinna skiptið reif Bush upp markstöng á ruðningsvelli Princeton-háskóla eftir að ruðningslið Yale hafði sigrað Princeton árið 1967. Bush var ekki handtekinn fyrir það uppátæki.[3]

Á síðasta námsmári sínu í Yale var Bush kvaddur í Bandaríkjaher til að gegna herþjónustu á tíma Víetnamstríðsins. Bush gekk í flugdeild þjóðvarðliðs Texas, þar sem hann þurfti að gegna sex ára þjónustu en þurfti aðeins að mæta til starfa 39 daga á ári. Þar sem þjóðvarðliðin eru nánast eingöngu staðsett innan Bandaríkjanna var Bush gjarnan sakaður um að hafa farið þessa leið til þess að forðast að vera sendur til að berjast í Víetnam.[4] Faðir hans var á þessum tíma fulltrúadeildarþingmaður fyrir Houston og því hefur Bush jafnframt verið sakaður um að hafa beitt fjölskylduáhrifum sínum til að fá stöðuna í þjóðvarðliðinu.[3]

Bush gekk í Harvard-háskóla árið 1972 og útskrifaðist þaðan með gráðu í viðskiptafræði árið 1976. Hann sneri síðan aftur til Texas til að hefja störf í olíuviðskiptum en varð þar lítið ágengt. Um svipað leyti gekk Bush í meþódistakirkjuna og kynntist þar bókaverðinum Lauru Welch, sem hann kvæntist árið 1977. Hjónin settust að í Midland og eignuðust árið 1981 tvíburadæturnar Jennu og Barböru.[4] Bush átti við áfengisvanda að stríða á yngri árum og var meðal annars sviptur ökuréttindum tímabundið árið 1976 vegna ölvunaraksturs.[4] Hann hætti að drekka árið 1986, á 40 ára afmælisdaginn sinn.[3]

Á tíunda áratugnum, þegar faðir Bush var orðinn forseti Bandaríkjanna, lá George yngri undir ásökunum um að hagnast á fjölskyldutengslum sínum. Meðal annars var bent á að fyrirtæki sem Bush stýrði, Harken Energy Corporation, hefði í janúar 1990 fengið olíuvinnsluleyfi undan ströndum Barein þrátt fyrir að hafa þá enga reynslu af olíuborun. Sama ár rannsakaði Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna hvort Bush hefði gerst sekur um innherjaviðskipti þegar hann seldi hlutabréf í Harken Energy Corporation að andvirði 850 þúsund dollara aðeins tveimur mánuðum áður en andvirði bréfanna féll um 44 prósent vegna skýrslu um lélega afkomu fyrirtækisins. Rannsókninni lauk án kæru gegn Bush, en andstæðingar hans létu í veðri vaka að þar hefði Bush eldri komið syni sínum til bjargar.[3]

Stjórnmálaferill

breyta

George W. Bush bauð sig fram á fulltrúadeild Bandaríkjaþings árið 1978 en náði ekki kjöri. Árið 1994 bauð Bush sig fram til embættis fylkisstjóra Texas á móti sitjandi fylkisstjóranum Ann Richards úr Demókrataflokknum. Kosningabaráttan milli Bush or Richards þótti sóðaleg og einkenndist af skítkasti milli frambjóðendanna.[5] Svo fór að Bush vann óvæntan sigur á móti Richards en hann var meðal fjölmargra frambjóðenda Repúblikanaflokksins sem náðu kjöri árið 1994 vegna óánægju landsmanna með Bill Clinton, þáverandi forseta úr Demókrataflokknum.[6]

Sem fylkisstjóri höfðaði Bush til hægrisinna og íhaldsmanna bæði í félags- og efnahagsmálum. Hann notaði tekjuafgang í ríkissjóði Texas til að lækka skatta um tvo milljarða dollara og lét framfylgja dauðarefsingum af mikilli hörku. Á stjórnartíð hans voru 152 dauðadæmdir fangar teknir af lífi í Texas, sem var margfalt meira en í öðrum fylkjum landsins. Bush ræktaði jafnframt samband við kristnar trúarhreyfingar í Texas og lét gera 10. júní að opinberum hátíðisdegi sem kallaðist „Jesúdagurinn“.[5]

Bush vann endurkjör með afgerandi meirihluta atkvæða árið 1998. Í sömu kosningum var bróðir hans, Jeb, kjörinn fylkisstjóri í Flórída. Sigrar Bush-bræðranna voru meðal fárra ljósra punkta þetta ár fyrir Repúblikana, sem urðu annars að mestu fyrir vonbrigðum með kosningarnar 1998. Stuðlaði þetta að því að farið var að líta á George Bush sem vonarstjörnu innan flokksins og sem vænlegan forsetaframbjóðanda.[3]

Forsetakosningarnar 2000

breyta

Bush gaf kost á sér í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2000. Framboð hans safnaði miklum fjármunum í kosningasjóð sinn á stuttum tíma og Bush mældist fljótt með afgerandi forskot á keppinauta sína innan Repúblikanaflokksins.[7] Helsti keppinautur Bush innan flokksins var öldungadeildarþingmaðurinn John McCain, sem vann fyrsta prófkjör Repúblikana í New Hampshire en missti fljótt dampinn eftir að hann varð fyrir fjölda nafnlausra persónuárása í aðdraganda forkosninga í suðurríkjunum.[8] Bush tryggði sér að lokum tilnefningu flokksins með prófkjörssigrum í 38 fylkjum[5] og valdi Dick Cheney, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna á forsetatíð Bush eldri, sem varaforsetaefni sitt.[9]

Mótframbjóðandi Bush úr Demókrataflokknum var Al Gore, sitjandi varaforseti Bandaríkjanna. Kosningabaráttan milli Bush og Gore var lengi tvísýn og lítill munur mældist milli þeirra í skoðanakönnunum.[10] Forsetakosningarnar 2000 urðu með þeim naumustu og umdeildustu í sögu Bandaríkjanna. Á kosninganóttina í nóvember var enn ekki ljóst hvort Bush eða Gore hefði unnið kosningarnar þar sem ekki hafði verið skorið úr um sigurvegara í Flórída, en án þeirra 25 kjörmanna sem sigurvegara var úthlutað í fylkinu var hvorugur frambjóðandinn með meirihluta í kjörmannaráðinu sem kýs forsetann. Í fyrstu talningum á atkvæðum frá Flórída var Bush með aðeins 537 atkvæða forskot á Gore, eða aðeins 0,009 % mismun. Allt stefndi því í að endurtalning á atkvæðum færi fram í Flórída, en Bush kærði þá ákvörðun til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Þann 12. desember 2000 kvað Hæstirétturinn upp úrskurð sinn í málinu Bush gegn Gore þar sem meirihlutaálit fimm dómara gegn fjórum kvað á um að endurtalningin skyldi stöðvuð. Þar með var hinn naumi sigur Bush í fylkinu staðfestur og sömuleiðis sigur hans í kosningunum öllum.[11] Bush hlaut 271 kjörmenn, aðeins einum fleiri en þarf til að tryggja sér meirihluta. Á landsvísu hlaut Gore um 300.000 fleiri atkvæði en Bush.

Sigur Bush undir þessum kringumstæðum var mjög umdeildur og margir andstæðingar hans töldu Hæstaréttinn, sem var að meirihluta skipaður dómurum sem forsetar úr Repúblikanaflokknum höfðu sett í embætti, hafa tekið pólitíska ákvörðun með því að stöðva endurtalninguna í Flórída og lýsa Bush réttkjörinn forseta.[12] Al Gore viðurkenndi engu að síður ósigur eftir að Hæstirétturinn kvað upp úrskurð sinn og Bush var í kjölfarið formlega lýstur sigurvegari kosninganna.[13]

Forseti Bandaríkjanna (2001–2009)

breyta

George W. Bush tók við af Bill Clinton sem 43. forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar 2001. Fyrstu mánuðir Bush í embætti voru viðburðalitlir og þrátt fyrir hinar umdeildu kosningar tókst honum að nokkru leyti að ávinna sér traust bandarísku þjóðarinnar.[14] Fyrst um sinn var því útlit fyrir að Bush gæti einbeitt sér að innanríkismálum á stjórnartíð sinni líkt og hann hafði lofað í kosningabaráttunni.[15] Í maí 2001 kom Bush 1,3 milljarða dollara skattalækkun í gegnum þingið og fékk Ted Kennedy, öldungadeildarþingmann úr Demókrataflokknum, til að vinna með sér að umfangsmiklum breytingum á bandaríska menntakerfinu.[16]

Árásirnar 11. september og stríðið gegn hryðjuverkum

breyta
Bush var í heimsókn í grunnskóla í Flórída þegar árásirnar 11. september 2001 voru gerðar í New York.

Straumhvörf urðu í forsetatíð Bush þann 11. september 2001, þegar hryðjuverkaárásir voru gerðar á World Trade Center í New York-borg. Klukkan kortér í níu að staðartíma flaug farþegaflugvél á norðurturn World Trade Center og fimmtán mínútum síðar brotlenti önnur vél í suðurturninum. Á innan við klukkustund brotlentu tvær flugvélar til viðbótar: Ein lenti utan á höfuðstöðvum Pentagon í Virginíu og önnur hrapaði yfir Somerset í Pennsylvaníu. Liðsmenn íslömsku öfgasamtakanna Al-Kaída höfðu tekið stjórn á flugvélunum og beint þeim að frægum bandarískum kennileitum vegna heilags stríðs sem Osama bin Laden, leiðtogi samtakanna, hafði lýst yfir gegn Bandaríkjunum. Áhöfn og farþegar fjórðu flugvélarinnar höfðu ráðist gegn hryðjuverkamönnunum og þannig komið í veg fyrir að hún kæmist á leiðarenda en talið er að hún hafi átt að lenda á Hvíta húsinu eða þinghúsinu í Washington.[17] Alls létust tæplega 3.000 manns í árásunum, þar á meðal allir farþegar flugvélanna og allir árásarmennirnir.[18]

Þegar flugvélarnar flugu á tvíburaturnana var Bush staddur í heimsókn til grunnskóla í Flórída. Eftir að fyrri flugvélin skall á norðurturninum hringdi þjóðaröryggisráðgjafinn Condoleezza Rice í Bush til að flytja honum fréttirnar en þá var talið að um slys væri að ræða. Bush sat áfram og horfði á skólabörn lesa þar til Andrew Card, starfsmannastjóri Hvíta hússins, hvíslaði að honum að önnur flugvél hefði brotlent á suðurturninum og að Bandaríkin hefðu orðið fyrir árás.[18]

Kvöldið 11. september var Bandaríkjastjórn þess fullviss að Osama bin Laden stæði á bak við árásirnar og var farin að leggja á ráðin um viðbragðsaðgerðir. Utanríkisráðherrann Colin Powell ráðlagði Bush að einbeita sér að Afganistan, þar sem bin Laden dvaldist í skjóli stjórnar Talíbana, og beita diplómatískum leiðum til að berjast gegn hryðjuverkum með hjálp bandamanna. Dick Cheney varaforseti og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra eygðu hins vegar fljótt tækifæri til að tengja árásirnar við stjórn Saddams Hussein í Írak og nota þær sem ástæðu til að ráðast inn í Írak.[16]

Til skammtíma höfðu árásirnar 11. september þau áhrif að sameina bandarísku þjóðina að baki Bush. Nokkrum dögum eftir árásirnar mældist ánægja með störf Bush 87% í skoðanakönnunum.[17]

Í ávarpi til Bandaríkjamanna kvöldið 11. september lýsti Bush því yfir að ekki yrði gerður greinamunur á hryðjuverkamönnum og þeim sem héldu yfir þeim hlífiskildi.[16] Þann 16. september 2001 hélt Bush ræðu við Bandaríkjaþing þar sem hann lýsti yfir „stríði gegn hryðjuverkum“. Þann 7. október 2001 hófu Bandaríkjamenn innrás í Afganistan með stuðningi Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins. Í nóvember hertók Bandaríkjaher afgönsku höfuðborgina Kabúl og batt enda á stjórn Talíbana. Osama bin Laden tókst hins vegar að flýja yfir landamærin til Pakistans og átti eftir að forðast handtöku allan þann tíma sem Bush var forseti Bandaríkjanna.[19]

Stjórn Bush greip einnig til róttækra aðgerða innanlands til þess að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi. Þann 26. október 2001 undirritaði Bush „föðurlandsvinalögin“ (e. Patriot Act) svokölluðu, sem rýmkuðu verulega heimildir lögreglu og stjórnvalda til eftirlits með fjarskiptum og auðvelduðu þeim aðgang að persónuupplýsingum fólks. Lögin drógu úr eftirliti dómstóla með aðgerðum lögreglu og rýmkuðu eftirlitsheimildir leyniþjónustu með því að gera þær undanþegnar hefðbundnum reglum um sakamálarannsóknir. Jafnframt fólu lögin í sér strangari reglur um útlendingaeftirlit og heimiluðu að útlendingi væri haldið í gæslu án ákæru í allt að viku ef ástæða væri talin til þess að telja hann ógn við þjóðaröryggi.[20]

Íraksstríðið

breyta
Borði með orðunum „Mission accomplished“ („Verkefni lokið“) var fyrir aftan Bush þegar hann lýsti því yfir að Bandaríkin hefðu lokið verki sínu í Írak þann 1. maí 2003. Sú fullyrðing þótti ekki eldast vel og Bush sagðist síðar sjá eftir orðavalinu.[21]
 
Bush tekur við Davíð Oddssyni í Hvíta húsinu í júlí 2004. Ísland undir stjórn Davíðs var meðal ríkjanna sem studdu innrás Bandaríkjanna í Írak.

Eftir árásirnar 11. september 2001 sagði Bush að það væri forgangsatriði að afvopna Íraka, sem hann fullyrti að byggju yfir gereyðingarvopnum sem þeir framleiddu og afhentu hryðjuverkasamtökum á borð við al-Kaída. Árið 2002 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun 1441 þar sem Írökum var gefinn þrjátíu daga frestur til að greina frá öllum þáttum þróunar sinnar á efna- og kjarnavopnum, eldflaugum og öðrum vopnakerfum. Samkvæmt ályktuninni var eftirlitsstofnunum gert að gera öryggisráðinu viðvart ef Írak færi ekki eftir þessu fyrirkomulagi. Yrði öryggisráðinu síðan falið að fara yfir stöðuna og ákvarða hvað væri nauðsynlegt til að tryggja frið og öryggi á alþjóðavísu.[22]

Þann 5. febrúar árið 2003 flutti Colin Powell, utanríkisráðherra í stjórn Bush, ræðu fyrir öryggisráðinu þar sem hann lagði fram gögn sem áttu að sýna fram á nauðsyn þess að beita hernaðarafli gegn stjórn Saddams Hussein í Írak. Powell lagði meðal annars fram gervihnattamyndir og upptökur af samtölum yfirmanna í íraska hernum sem hann sagði sýna fram á að Írakar væru enn að þróa efna- og lífefnavopn og væru jafnframt hugsanlega að vinna að smíði kjarnorkusprengju. Þá sagði Powell vera sterkar vísbendingar um að stjórnvöld í Írak ættu í samstarfi við lykilmenn hjá al-Kaída.[23]

Powell tókst ekki að telja öryggisráðið á að heimila hernaðaraðgerðir gegn Írak. Fulltrúar Frakklands, Rússlands og Kína, sem öll hafa neitunarvald í öryggisráðinu, sögðu að ekki væri enn tilefni til að grípa til hernaðaraðgerða. Jafnframt náðist ekki samstaða um að fara í stríð gegn Írak innan Atlantshafsbandalagsins vegna harðrar andstöðu Frakka og Þjóðverja.[22]

Þann 17. mars 2003 fundaði Bush um Íraksdeiluna með Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og José María Aznar, forsætisráðherra Spánar, á Asóreyjum. Í kjölfar fundarins gaf Bush út yfirlýsingu með úrslitakostum þar sem Saddam Hussein og sonum hans voru gefnar 48 klukkustundir til að halda í útlegð frá Írak, annars myndu Bandaríkin og samstarfsríki þeirra hefja stríð gegn landinu.[24]

Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hófu innrás í Írak þann 20. mars 2003 án stuðnings Sameinuðu þjóðanna. Innrásin var gagnstæð alþjóðalögum þar sem Írakar höfðu ekki orðið fyrri til að ráðast á Bandaríkin.[25] Sjálf innrásin í Írak tók fremur stuttan tíma og íraski herinn náði ekki að veita innrásarhernum sterka mótspyrnu. Bandaríkjamenn hertóku írösku höfuðborgina Bagdad þann 9. apríl og sama dag náðu Bretar völdum yfir borginni Basra. Fjórum dögum síðar voru allar hernaðarlega mikilvægustu borgir Íraks komnar í hendur innrásarmanna.[22]

Þann 1. maí 2003 flutti Bush frægt ávarp þar sem hann lýsti því yfir að markmiðum innrásarinnar hefði verið náð (á ensku: „Mission accomplished“) og að stríðinu væri lokið. Þetta átti eftir að reynast alrangt þar sem bandarískir hermenn höfðu hersetu í Írak í mörg ár til viðbótar og átti sá tími eftir að reynast afar blóðugur.[26]

Tilvísanir

breyta
  1. Frank Newport (22. apríl 2008). „Bush's 69% Job Disapproval Rating Highest in Gallup History“. Gallup. Sótt 19. september 2021.
  2. „Fetað í fótsporin“. Dagblaðið Vísir. 16. desember 2000. bls. 36.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 „Gerir eins og mamma og konan segja honum“. Dagblaðið Vísir. 7. nóvember 1998. bls. 30.
  4. 4,0 4,1 4,2 Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 418. ISBN 978-9935-9194-5-8.
  5. 5,0 5,1 5,2 (Jón Þ. Þór 2016, bls. 419)
  6. „Stórsigur repúblíkana er reiðarslag fyrir Clinton“. Tíminn. 10. nóvember 1994. bls. 9.
  7. Elías Snæland Jónsson (9. október 1999). „Skila ætt og auður Bush í Hvíta húsið?“. Dagur. bls. 7.
  8. Þórlindur Kjartansson (22. október 2007). „Skítkast sem virkaði“. Deiglan. Sótt 20. september 2021.
  9. „Úlfur í sauðagæru og lengst til hægri“. Dagblaðið Vísir. 29. júní 2000. bls. 12.
  10. Borgar Þór Einarsson (11. september 2000). „Á brattan að sækja fyrir Bush“. Deiglan. Sótt 20. september 2021.
  11. Elías Snæland Jónsson (16. desember 2000). „Dómur velur forseta“. Dagur. bls. 31.
  12. (Jón Þ. Þór 2016, bls. 420)
  13. „Hæfileikar sáttasemjarans aldrei mikilvægari“. Dagblaðið Vísir. 16. desember 2000. bls. 14.
  14. Borgar Þór Einarsson (13. júlí 2001). „Hrakspárnar hrynja“. Deiglan. Sótt 20. september 2021.
  15. (Jón Þ. Þór 2016, bls. 421)
  16. 16,0 16,1 16,2 Magnús H. Jónasson (11. september 2021). „Dauðinn mun finna þig, jafnvel þótt þú sért í himinháum turni“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. október 2021. Sótt 20. september 2021.
  17. 17,0 17,1 Alexander Kristjánsson (11. september 2021). „Tuttugu ár frá hryðjuverkunum 11. september“. RÚV. Sótt 20. september 2021.
  18. 18,0 18,1 Fanndís Birna Logadóttir (11. september 2021). „Tuttugu ár liðin frá árásinni sem skók heiminn“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. október 2021. Sótt 20. september 2021.
  19. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Reykjavík: Mál og menning. bls. 298-299. ISBN 978-9979-3-3683-9.
  20. Páll Þórhallsson (4. nóvember 2001). „Löggæslan fær frjálsari hendur“. Morgunblaðið. bls. 24.
  21. „Bush iðrast orða sinna“. mbl.is. 21. mars 2023. Sótt 12. nóvember 2008.
  22. 22,0 22,1 22,2 Róbert Jóhannsson (20. mars 2023). „Frelsun Íraks á fölskum forsendum“. RÚV. Sótt 20. mars 2023.
  23. „Ræða Powells“. mbl.is. 21. mars 2023. Sótt 6. febrúar 2003.
  24. „Fær 48 stunda frest“. Morgunblaðið. 18. mars 2003. bls. 1.
  25. „Írak“. Globalis. 22. janúar 2015. Sótt 26. mars 2023.
  26. „Framtíðin óviss í Írak 10 árum eftir innrás“. mbl.is. 21. mars 2023. Sótt 20. mars 2013.


Fyrirrennari:
Bill Clinton
Forseti Bandaríkjanna
(2001 – 2009)
Eftirmaður:
Barack Obama